Viðskipti innlent

Fjárfestar trúa á OZ

Fyrirtækið Oz gekk í gær frá samningi um kaup Vantagepoint Venture Partners á hlutabréfum í OZ fyrir um tvo milljarða króna. Oz er afsprengi Oz.com sem miklar vonir voru bundnar við, en fyrirtækið varð gjaldþrota eftir að netbólan sprakk. OZ hefur á undanförnum misserum þróað búnað fyrir skyndiskilaboð í farsíma og tengingar við rauntímaspjall á netinu í gegnum farsíma. Í tilkynningu um viðskiptin segir framkvæmdastjóri Vantagepoint Venture Partners að Oz hafi sýnt að þeir séu leiðandi í þróun skyndiskilaboða í gegnum farsíma. Skúli Mogensen, forstjóri OZ, segir þessi kaup mikla hvatningu og þau muni vekja athygli á verkefnum fyrirtækisins. "Byggt á fyrri árangri og reynslu þá teljum við að skyndiskilaboð gegnum farsíma muni verða í Norður Ameríku þar sem SMS skilaboðin eru í Evrópu." Skúli segir hlutaféð verða notað til þess að þróa búnaðinn áfram í samvinnu við farsímafyrirtæki og framleiðendur. Auk þess er nýju fé ætlað að efla fyrirtækið til frekari landvinninga í Evrópu og Asíu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×