Viðskipti innlent

Halli vöruskipta 6,7 milljarðar

Halli á vöruskiptum við útlönd heldur áfram að vaxa hröðum skrefum og nam 6,7 milljörðum króna í síðasta mánuði en var aðeins átta hundruð milljónir í sama mánuði í fyrra. Hann er því um það bil sjö sinnum meiri núna.  Ef litið er aftur til áramóta var hallinn sáralítill fyrstu þrjá mánuðina. Hann tók svo kipp upp í 3,7 milljarða í apríl, stökk upp í 6,8 milljarða í júní og hefur verið yfir sex milljarðar á mánuði síðan. Frá áramótum er hallinn orðinn samtals tuttugu og sjö milljarðar en var 6,7 milljarðar á sama tíma í fyrra þannig að hann er rúmlega 20 milljörðum óhagstæðari nú en þá. Verðmæti útflutnings frá áramótum óx um 5,4 prósent. Efnahagssérfræðingar hafa spáð því að mikill og langvarandi viðskiptahalli muni um síðir veikja krónuna gagnvart öðrum gjaldmiðlum en þess sjást vart merki, enn sem komið er. Vöruútflutningur jókst um 5,4 prósent, sjávarafurðir um 4,4 prósent miðað við sama tíma í fyrra og iðnaðarvörur um 6,4 prósent, aðallega vegna lyfja og lækningavara. Innflutningurinn óx um tæp 27 prósent og varð vöxtur á öllum sviðum, mest þó í fjárfestingarvörum og flutningatækjum og munar þar talsvert um innflutning flugvéla upp á tæpa fjóra milljarða.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×