Hin ofsafengna trú á framfarir 9. október 2004 00:01 Birtist í DV 9. október 2004 Einn af mörgum veikleikum mínum er lestur bóka um kommúnismann. Vinur minn sem er sjálfur ekki fráhverfur svona fræðum kom í heimsókn og tók andköf yfir því hvað ég á mikið af svona ritum. Og þau bætast enn í safnið, að minnsta kosti tugur síðan í fyrrasumar. Ég lagði fyrir sjálfan mig lítið próf og komst að því að á svipstundu gat ég nefnt nöfn hátt í níutíu sovéskra bolsévíka: Abakumov, Anand, Allilujev, Andrejev, Antonov Ovseenko, Bedny, Beria, Berman, Blumkin, Borodin, Bresnev, Budjonny, Bukharin, Bulganin, Charkviani, Choibalsang, Chubar... Æ, nei, stopp! Ég velti því stundum fyrir mér af hverju ég er að lesa þetta, hvort það sé bara saklaust áhugamál eða hvort þetta sé jafnvel ígildi einhvers konar kláms? Er ég svona heillaður af þessu innst inni? Ég hef meira að segja lagst svo lágt að lesa bækur um einkalíf forystumanna í Þýska alþýðulýðveldinu. Það er í raun afar merkilegt hvað pakk getur komist langt áfram í veröldinni. Stundum lofa ég sjálfum mér að lesa ekki fleiri svona bækur. Þetta er náttúrlega tímasóun - hvað þarf ég að vita meira um þetta lið? En þá koma út rit eins og Koba the Dread eftir Martin Amis, Gulag eftir Anne Applebaum, Stalin´s Henchmen eftir Donald Reyfield og In the Court of the Red Tsar eftir Simon Seabag Montefiore. Ég hef ekki undan að bera þetta með mér í þungum töskum frá útlöndum. En kannski er líka jafngott að svona bækur koma út og að til er fólk sem fer á kaf í skjalasöfn Sovéttímans. Það eru varla neinir opinberir minnisvarðar um fórnarlömb kommúnismans í Rússlandi; forsetanum þar er ekki sýnt um að minnast þessa tíma með klökku hjarta, heldur byggir hann á arfleifð gömlu leyniþjónustunnar - hann er það sem kallast "chekisti". Svo ég veit hefur ekki einn einasti maður verið dæmdur fyrir glæpi Sovéttímans - það eru engar sannleiksnefndir að störfum. Það sem mér finnst einna athyglisverðast úr þessum bókum sem ég hef lesið að undanförnu er tvennt: Annars vegar Georgíumaðurinn Beria. Hann var gáfaðastur í valdaklíku Stalínstímans (að undanskildum Stalín sjálfum), afskaplega dugmikill maður, en grimmur og öfughneigður. Við lát Stalíns afhjúpar Bería sig. Hann reynist alls ekki vera neinn kommúnisti, langt í frá, vill ná sáttum við Vesturlönd, opna Gúlagið, endurreisa einhvers konar markaðsbúskap, sameina Þýskaland. Undir lokin kemur hann næstum fyrir sjónir eins og einhvers konar Gorbatsjov. Það er sagt um hann að hann hefði alveg eins getað verið forstjóri General Motors. En Beria var auðvitað skepna og hlaut makleg málagjöld þegar hann var drepinn af klíkubræðrum sínum - Stalín talaði um hann sem "sinn Himmler". Maður getur samt spurt sig hvort sagan hefði orðið öðruvísi ef Beria hefði orðið ofan á í valdabaráttunni 1953 - eða allavega velt því aðeins fyrir sér. Hins vegar er það Stalín sjálfur. Myndin af honum er orðin miklu fyllri en hún var áður en menn fóru að komast í skjalasöfn ráðstjórnarinnar. Stalín var mikill skjalakarl; það eru til ótrúlega nákvæmar heimildir um einkalíf hans og líka um morð og grimmdarverk. Sebag Montefiore segir í riti sínu um rauða tsarinn að Stalín hafi alla tíð verið fanatískur marxisti, hann hafi tekið þessa trú sem ungur maður og aldrei bilað í henni. Það sé mikil einföldun að afgeiða hann sem ofsóknaróðan harðstjóra að austrænum hætti. Það sem dreif hann áfram voru vestrænar kenningar. Sú afsökun sem hefur margsinnis verið sett fram að Sovétríkin hafi verið einhvers konar afbökun kommúnismans er heldur ekki marktæk. Þar var komið á sameignarskipulagi líkt og kveðið er á um í fræðunum, einkaeign var afnumin bæði í borgum og sveitum; til þess þurfti að útrýma öllum sem stóðu í veginum - þar á meðal heilum stéttum manna. Kommúnismi er þúsundáraríkishugsjón, hugmynd um að hægt sé að skapa fyrirmyndarríki á jörð, jarðneska paradís, án þess að guðleg máttarvöld komi nærri. Maðurinn er settur í miðju alheimsins. Samt ber þetta svip trúarbragða. Undanfarið hef ég verið að lesa rit eftir John Gray, breskan heimspeking sem rekur tengslin milli þúsundáraríkishugsjóna og kristindóms. Hann álítur að þær séu meira eða minna sprottnar úr kristninni - það sé bara búið að setja guð út úr myndinni. Gray rekur þetta í gegnum húmanisma nítjándu aldar yfir í kommúnisma, nasisma - haldið ykkur fast - frjálshyggju síðustu áratuga. Nú ætla ég ekki að leggja lesti frjálshyggjunnar að jöfnu við grimmdaræði kommúnismans og nasismans. En Gray færir rök fyrir því að hugmyndafræðin sé af svipuðum toga: Ofsafengin trú á framfarir. Að sagan stefni í einhvern endapunkt þar sem allir eru hamingjusamir. Öll togstreita hefur endað, öll vandamál eru leyst, við blasir sæluríki, jafnvel nýtt mannkyn. Á árunum eftir fall Múrsins talaði Francis Fukuyama um endalok mannkynssögunnar - nú vekur sú hugmynd varla annað en kátínu. Markaðshyggjubókstafstrú var miskunnarlaust boðuð á árunum eftir að kalda stríðinu lauk. Það var látið eins og frjáls markaður væri eina módelið sem gæti hugsast fyrir mannkynið, hann myndi ryðja öllu úr veginum - það væri beinlínis söguleg nauðsyn, vísindaleg staðreynd, rétt eins og þegar allar flækjur sögunnar áttu að leysast í díalektískri efnishyggju marxismans. En svo dagaði þetta uppi í skuggalegu þjófræði í Rússlandi þar sem auði heillar þjóðar var stolið - peningarnir meðal annars notaðir til að gera út fótboltalið í Evrópu. Ráðgjafar Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins komu heilu ríkjunum á hausinn. Hinir veiku gátu ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Heimildarmynd sem heitir The Corporation var sýnd hér um daginn og fjallaði um fyrirtækjasamsteypur nútímans. Þar var meðal annars farið í verksmiðjur (e. sweatshops) þriðja heimsins; stórfyrirtækið var sálgreint og niðurstaðan var að það væri sýkópati - gráðugt, siðlaust og ábyrgðarlaust. Tilraunir til að koma á ameríska bisnessmódelinu í Miðausturlöndum eru líklegri til að enda í klerkastjórn en Starbuck´s á hverju horni. Teikn eru líka um að umhverfið í heiminum þoli ekki að markaðshyggjan sigri, að jörðin setji takmörk - segi einfaldlega stopp. Það er ekki til næg olía, ekki nægt vatn, ekki nægar auðlindir. Skógar eru á stöðugu undanhaldi, á fimmtíu árum hefur dýrategundum verið útrýmt eins og á milljón árum áður, háskalega hraðar loftslagsbreytingar af manna völdum virðast vera blákaldur veruleiki. Framfaratrúin var líka leiðarljós kommúnista þegar þeir eyðilögðu umhverfið - við það voru þeir álíka stórtækir og í manndrápunum. Þeir höfðu að leiðarljósi blinda fullvissu efnishyggjumanna um að iðnvæðing væri leiðin til hamingju, allt væri hægt að leysa með verkfræði - rithöfundar voru kallaðir "verkfræðingar sálarinnar" Þetta er reyndar titillinn á bók sem ég las í sumar, eftir Hollendinginn Frank Westerman, og fjallar um hvernig ógnarstór landflæmi í Miðasíulýðveldum Sovétríkjanna voru eyðilögð vegna þess að þar átti að rækta bómull. Þessa vöru mátti ekki flytja inn - verkamannaríkið átti að vera sjálfu sér nógt um það. Grafnir voru gríðarlegir skurðir og settar upp áveitur. Afleiðingin var sú að náttúrulegt vatnsflæði á stórum svæðum við Aralvatn og Kaspíahaf eyðilagðist; nú gnauða þarna óblíðir vindar af eyðimörkum og saltsléttum. Þetta er ein mesta umhverfiskatastrófa sögunnar. En á sínum tíma sungu blaðamenn og rithöfundar þessu lof og prís. Framfarir kunna að vera óstöðvandi, en þær fara oft í allt aðra átt en við höldum - líka þótt þær séu byggðar á einhverju sem talið er vera vísindi. Arthur Koestler segir þá sögu af franska rithöfundinum André Malraux að hann hafi á fjórða áratug síðustu aldar setið á ógnarlöngum fundi í Moskvu þar sem kostir hins vísindalega sósíalisma voru mærðir út í eitt. Nýr heimur var í burðarliðnum. Malraux leiddist þetta og spurði af eðlislægri óþolinmæði: "En hvað þá með manninn sem lendir undir sporvagni?" Það sló felmtri á salinn við þessa goðgá en svo kom rétthugsandi flokksfélagi til bjargar með því að segja: "Í fullkomnu sósíalísku samgöngukerfi verða engin slys." Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Blaðagreinar Silfur Egils Mest lesið Samfélag án Pírata Lenya Rún Taha Karim Skoðun Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Helvítis fokking fokk!! Er ekki nóg komið? Maríanna H. Helgadóttir Skoðun Borgið lausnargjaldið Ólafur Hauksson Skoðun Þegar Skagamenn glöddu lítið hjarta María Rut Kristinsdóttir Skoðun Flokkur fólksins ræðst gegn hagsmunum eldra fólks og komandi kynslóða Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Íslenski fasteignamarkaðurinn: spilavíti þar sem húsið vinnur alltaf Ingvar Þóroddsson Skoðun
Birtist í DV 9. október 2004 Einn af mörgum veikleikum mínum er lestur bóka um kommúnismann. Vinur minn sem er sjálfur ekki fráhverfur svona fræðum kom í heimsókn og tók andköf yfir því hvað ég á mikið af svona ritum. Og þau bætast enn í safnið, að minnsta kosti tugur síðan í fyrrasumar. Ég lagði fyrir sjálfan mig lítið próf og komst að því að á svipstundu gat ég nefnt nöfn hátt í níutíu sovéskra bolsévíka: Abakumov, Anand, Allilujev, Andrejev, Antonov Ovseenko, Bedny, Beria, Berman, Blumkin, Borodin, Bresnev, Budjonny, Bukharin, Bulganin, Charkviani, Choibalsang, Chubar... Æ, nei, stopp! Ég velti því stundum fyrir mér af hverju ég er að lesa þetta, hvort það sé bara saklaust áhugamál eða hvort þetta sé jafnvel ígildi einhvers konar kláms? Er ég svona heillaður af þessu innst inni? Ég hef meira að segja lagst svo lágt að lesa bækur um einkalíf forystumanna í Þýska alþýðulýðveldinu. Það er í raun afar merkilegt hvað pakk getur komist langt áfram í veröldinni. Stundum lofa ég sjálfum mér að lesa ekki fleiri svona bækur. Þetta er náttúrlega tímasóun - hvað þarf ég að vita meira um þetta lið? En þá koma út rit eins og Koba the Dread eftir Martin Amis, Gulag eftir Anne Applebaum, Stalin´s Henchmen eftir Donald Reyfield og In the Court of the Red Tsar eftir Simon Seabag Montefiore. Ég hef ekki undan að bera þetta með mér í þungum töskum frá útlöndum. En kannski er líka jafngott að svona bækur koma út og að til er fólk sem fer á kaf í skjalasöfn Sovéttímans. Það eru varla neinir opinberir minnisvarðar um fórnarlömb kommúnismans í Rússlandi; forsetanum þar er ekki sýnt um að minnast þessa tíma með klökku hjarta, heldur byggir hann á arfleifð gömlu leyniþjónustunnar - hann er það sem kallast "chekisti". Svo ég veit hefur ekki einn einasti maður verið dæmdur fyrir glæpi Sovéttímans - það eru engar sannleiksnefndir að störfum. Það sem mér finnst einna athyglisverðast úr þessum bókum sem ég hef lesið að undanförnu er tvennt: Annars vegar Georgíumaðurinn Beria. Hann var gáfaðastur í valdaklíku Stalínstímans (að undanskildum Stalín sjálfum), afskaplega dugmikill maður, en grimmur og öfughneigður. Við lát Stalíns afhjúpar Bería sig. Hann reynist alls ekki vera neinn kommúnisti, langt í frá, vill ná sáttum við Vesturlönd, opna Gúlagið, endurreisa einhvers konar markaðsbúskap, sameina Þýskaland. Undir lokin kemur hann næstum fyrir sjónir eins og einhvers konar Gorbatsjov. Það er sagt um hann að hann hefði alveg eins getað verið forstjóri General Motors. En Beria var auðvitað skepna og hlaut makleg málagjöld þegar hann var drepinn af klíkubræðrum sínum - Stalín talaði um hann sem "sinn Himmler". Maður getur samt spurt sig hvort sagan hefði orðið öðruvísi ef Beria hefði orðið ofan á í valdabaráttunni 1953 - eða allavega velt því aðeins fyrir sér. Hins vegar er það Stalín sjálfur. Myndin af honum er orðin miklu fyllri en hún var áður en menn fóru að komast í skjalasöfn ráðstjórnarinnar. Stalín var mikill skjalakarl; það eru til ótrúlega nákvæmar heimildir um einkalíf hans og líka um morð og grimmdarverk. Sebag Montefiore segir í riti sínu um rauða tsarinn að Stalín hafi alla tíð verið fanatískur marxisti, hann hafi tekið þessa trú sem ungur maður og aldrei bilað í henni. Það sé mikil einföldun að afgeiða hann sem ofsóknaróðan harðstjóra að austrænum hætti. Það sem dreif hann áfram voru vestrænar kenningar. Sú afsökun sem hefur margsinnis verið sett fram að Sovétríkin hafi verið einhvers konar afbökun kommúnismans er heldur ekki marktæk. Þar var komið á sameignarskipulagi líkt og kveðið er á um í fræðunum, einkaeign var afnumin bæði í borgum og sveitum; til þess þurfti að útrýma öllum sem stóðu í veginum - þar á meðal heilum stéttum manna. Kommúnismi er þúsundáraríkishugsjón, hugmynd um að hægt sé að skapa fyrirmyndarríki á jörð, jarðneska paradís, án þess að guðleg máttarvöld komi nærri. Maðurinn er settur í miðju alheimsins. Samt ber þetta svip trúarbragða. Undanfarið hef ég verið að lesa rit eftir John Gray, breskan heimspeking sem rekur tengslin milli þúsundáraríkishugsjóna og kristindóms. Hann álítur að þær séu meira eða minna sprottnar úr kristninni - það sé bara búið að setja guð út úr myndinni. Gray rekur þetta í gegnum húmanisma nítjándu aldar yfir í kommúnisma, nasisma - haldið ykkur fast - frjálshyggju síðustu áratuga. Nú ætla ég ekki að leggja lesti frjálshyggjunnar að jöfnu við grimmdaræði kommúnismans og nasismans. En Gray færir rök fyrir því að hugmyndafræðin sé af svipuðum toga: Ofsafengin trú á framfarir. Að sagan stefni í einhvern endapunkt þar sem allir eru hamingjusamir. Öll togstreita hefur endað, öll vandamál eru leyst, við blasir sæluríki, jafnvel nýtt mannkyn. Á árunum eftir fall Múrsins talaði Francis Fukuyama um endalok mannkynssögunnar - nú vekur sú hugmynd varla annað en kátínu. Markaðshyggjubókstafstrú var miskunnarlaust boðuð á árunum eftir að kalda stríðinu lauk. Það var látið eins og frjáls markaður væri eina módelið sem gæti hugsast fyrir mannkynið, hann myndi ryðja öllu úr veginum - það væri beinlínis söguleg nauðsyn, vísindaleg staðreynd, rétt eins og þegar allar flækjur sögunnar áttu að leysast í díalektískri efnishyggju marxismans. En svo dagaði þetta uppi í skuggalegu þjófræði í Rússlandi þar sem auði heillar þjóðar var stolið - peningarnir meðal annars notaðir til að gera út fótboltalið í Evrópu. Ráðgjafar Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins komu heilu ríkjunum á hausinn. Hinir veiku gátu ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Heimildarmynd sem heitir The Corporation var sýnd hér um daginn og fjallaði um fyrirtækjasamsteypur nútímans. Þar var meðal annars farið í verksmiðjur (e. sweatshops) þriðja heimsins; stórfyrirtækið var sálgreint og niðurstaðan var að það væri sýkópati - gráðugt, siðlaust og ábyrgðarlaust. Tilraunir til að koma á ameríska bisnessmódelinu í Miðausturlöndum eru líklegri til að enda í klerkastjórn en Starbuck´s á hverju horni. Teikn eru líka um að umhverfið í heiminum þoli ekki að markaðshyggjan sigri, að jörðin setji takmörk - segi einfaldlega stopp. Það er ekki til næg olía, ekki nægt vatn, ekki nægar auðlindir. Skógar eru á stöðugu undanhaldi, á fimmtíu árum hefur dýrategundum verið útrýmt eins og á milljón árum áður, háskalega hraðar loftslagsbreytingar af manna völdum virðast vera blákaldur veruleiki. Framfaratrúin var líka leiðarljós kommúnista þegar þeir eyðilögðu umhverfið - við það voru þeir álíka stórtækir og í manndrápunum. Þeir höfðu að leiðarljósi blinda fullvissu efnishyggjumanna um að iðnvæðing væri leiðin til hamingju, allt væri hægt að leysa með verkfræði - rithöfundar voru kallaðir "verkfræðingar sálarinnar" Þetta er reyndar titillinn á bók sem ég las í sumar, eftir Hollendinginn Frank Westerman, og fjallar um hvernig ógnarstór landflæmi í Miðasíulýðveldum Sovétríkjanna voru eyðilögð vegna þess að þar átti að rækta bómull. Þessa vöru mátti ekki flytja inn - verkamannaríkið átti að vera sjálfu sér nógt um það. Grafnir voru gríðarlegir skurðir og settar upp áveitur. Afleiðingin var sú að náttúrulegt vatnsflæði á stórum svæðum við Aralvatn og Kaspíahaf eyðilagðist; nú gnauða þarna óblíðir vindar af eyðimörkum og saltsléttum. Þetta er ein mesta umhverfiskatastrófa sögunnar. En á sínum tíma sungu blaðamenn og rithöfundar þessu lof og prís. Framfarir kunna að vera óstöðvandi, en þær fara oft í allt aðra átt en við höldum - líka þótt þær séu byggðar á einhverju sem talið er vera vísindi. Arthur Koestler segir þá sögu af franska rithöfundinum André Malraux að hann hafi á fjórða áratug síðustu aldar setið á ógnarlöngum fundi í Moskvu þar sem kostir hins vísindalega sósíalisma voru mærðir út í eitt. Nýr heimur var í burðarliðnum. Malraux leiddist þetta og spurði af eðlislægri óþolinmæði: "En hvað þá með manninn sem lendir undir sporvagni?" Það sló felmtri á salinn við þessa goðgá en svo kom rétthugsandi flokksfélagi til bjargar með því að segja: "Í fullkomnu sósíalísku samgöngukerfi verða engin slys."