Fastir pennar

Nóg komið af hátíðarræðum

Ein er sú ræða á alþingi, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, sem litla sem enga athygli hefur fengið í fjölmiðlum. Það var ræða Jónínu Bjartmarz sem var þó sú ræða sem kveikti mest í mér, og fylgdist ég með umræðunum til enda. Allt of oft hefur það verið stefna stjórnarinnar, þegar rætt er um jafnrétti kynjanna, að hæla sér fyrir nýju fæðingarorlofslögin og láta þar við sitja. Ég gat ekki betur heyrt en að Jónína væri að gagnrýna eigin ríkisstjórn og samflokksmann sinn, sem ber ábyrgð á málaflokki jafnréttis, þegar hún sagði að nú væri fátt eitt sem alþingi gæti gert til að bæta jafnrétti í landinu. Því hljóta spjótin nú að standa að framkvæmdavaldinu. Það er þeirra að tryggja að sjónarmið jafnréttis sé ávallt á lofti í öllu sem það tekur sér fyrir hendur. Eins og Jónína benti á er sagt að núverandi ríkisstjórn sé fylgjandi hugmyndafræði sem byggir á samþættingu kynjasjónarmiða; þeirri flóknu aðgerð að gera sér grein fyrir því á öllum stigum stefnumótunar og ákvarðana hvaða áhrif þær hafa, jafnt á líf kvenna og karla í landinu. Þeir sem fylgjast með umræðum á alþingi hafa þó ekki orðið varir við að hugmyndafræði samþættingar sé meira en hugmynd, því um þetta er ekki rætt, nema af örfáum konum sem minna á að hugmyndafræði samþættingar hafi gleymst þegar mál eru lögð fram. Það gera sér allir grein fyrir að lög um fæðingarorlof og lög um mansal hafi áhrif á líf að minnsta kosti sumra kvenna og karla. Þegar kemur að "karllægari" málum, eins og lögum um fiskveiðistjórnun, er ekki eins sjálfsagt að einhvern reki minni í að slík stefnumótun ríkisstjórnarinnar hafi mismunandi áhrif á kynin. Að framfylgja stefnumótun sem byggir á hugmyndafræði samþættingar er alls ekki einfalt. Hættan er sú að til að einfalda ferlið verði búin til einhvers konar meðalkona og meðalkarl sem miðað er við. Þetta eru einstaklingar sem fáir þekkja því þrátt fyrir að talað sé um einsleitni Íslendinga erum við yndislega fjölbreytt. Það er því hætt við að áhrif stefnumótunar og ákvarðana ríkisvaldsins verði ekki þau sömu á allar konur eða alla karlmenn. Þrátt fyrir að samþætting sé ekki auðvelt verk sem grunnforsenda ákvarðana er það ekki forsenda fyrir því að gefast upp og það er jákvætt að heyra að ríkisstjórnin sé fylgjandi slíkri hugmyndafræði. Það þarf ekki að finna upp hjólið að nýju. Hugmyndafræði samþættingar hefur verið mikilvægur hluti norræns jafnréttissamstarfs. Fyrir fjórum árum var skipuð nefnd til að kanna hvort opinber stefnumótun taki mið af jafnrétti kynjanna. Sú nefnd hefur skilað af sér skýrslu og fylgir henni gátlisti handa ríkisstofnunum og ráðuneytum til að fylgjast með á öllum stigum hvort samþættingu hafi verið framfylgt. Þetta er gátlisti sem á að vera hægt að hafa aðgang að til að fylgja þessari yfirlýstu stefnu ríkisstjórnarinnar eftir með verkum en ekki bara orðum, því af hátíðarræðum er komið nóg.





×