Fastir pennar

Krossmark á hvítum vegg

Í vikunni rakst ég á nýlega útgáfu í ritröðinni Lærdómsrit bókmenntafélagsins þar sem birtar eru þýðingar Þórðar Kristinssonar á nokkrum köflum úr höfuðriti heilags Tómasar frá Aquino, sem uppi var um miðja 13.öldina. Bókin heitir Um lög og auk þýðinganna sjálfra er þarna að finna stórskemmtilegan inngang eftir Garðar Gíslason hæstaréttardómara. Á einum stað segir Garðar frá því að fjölskylda Tómasar var að reyna að forða honum ungum frá því að ganga í stranga munkareglu Dóminíkana. Höfðu bræður hans því "rænt" honum og lokað hann inni í kastalanum Monte San Giovanni, sem var í eigu fjölskyldunnar. Hugmyndin var að freista þess að taka drenginn undan áhrifavaldi munkanna og vita hvort hann kæmi ekki til sjálfs sín. Ýmislegt var reynt þarna í kastalanum til að koma vitinu fyrir drenginn og segir Garðar m.a. eftirfarandi sögu: "Segir sagna að fáklædd léttúðardrós hafi verið send inn til þess að freista hans en hann brugðist hart við, tekið logandi lurk úr arninum og hrakið stúlkuna út og dregið síðan krossmark á hvítan vegginn með sviðnum viðnum. Haft er fyrir satt að hann hafi alla tíð síðan umgengist konur af skyldurækni einni saman og þá með mikilli varúð, en getið sér til um eðli þeirra með bóklegum rannsóknum og ályktunum". Í formála Garðars er hlaupið á fjölmörgum æviatriðum heilags Tómasar, og þar kemur skýrt fram hvernig hann stóð árum og áratugum saman í fræðilegu stappi og rökræðum við aðra fræðimenn m.a. úr hópi Averroista og Fransiskana um hver væri hin kórrétta túlkun og útlegging á Aristotelesi og á kristindómnum. Er greinilegt að heilagur Tómas hvikaði hvergi í trú sinni og sannfæringu og umbar engar málamiðlanir, enda var það fyrir þessa stefnufestu sína að hann uppskar virðingu og vegsemd hjá páfanum í Róm. Í dag skoða menn þetta með fræðilegum áhuga og dást að rökfimi og lærdómi heilags Tómasar, þó væntanlega telji eitthvað færri nú en á miðöldum að hann hafi haft efnislega rétt fyrir sér. Raunar er freistandi að velta fyrir sér hvort sumir þeir kostir sem lyftu honum til virðingar, eins og staðfestan, myndu ekki í dag verða flokkaðir undir galla og taldir til marks um að maðurinn væri almennt vanhæfur til mannlegra samskipta. Í fjölþættu nútímasamfélagi hagsmunaárekstra og skoðanaskipta á þvermóðskuleg trúarsannfæring og þrætubókarlist henni tengd ekki eins miklum skilningi að fagna og í stöðnuðu léns- og kirkjuveldi miðalda. Það kemur því alltaf jafn mikið á óvart að í samtímanum er víða að finna sveitir manna, sem virðast telja það sitt helsta hlutskipti að líkjast sem mest heilögum Tómasi þegar kemur að staðfestu og "katagorískri" höfnun málamiðlana. Þessa menn er víða að finna, m.a. við samningaborðið í kennaradeilunni og þá er að finna í stjórnmálunum. Af þessum toga eru foringjastjórnmálin, sem mikið hefur verið rætt um hin síðari misseri og eru að plaga alla íslensku stjórnmálaflokkana í misríkum mæli. Ráðuneyti Davíðs Oddssonar einkenndist af þessari sérkennilegu stefnufestu og foringjar stjórnarflokkanna hikuðu ekki við að rífa logandi lurk úr arninum til að hrekja stjórnarandstöðu og hinn almenna kjósanda burt, ef útlit var fyrir að þessir aðilar ætluðu að blanda sér í mál og ögra valdi þeirra hvort heldur sem það var í gegnum þjóðaratkvæði eða umræður á þinginu. Segja má að valdsmenn hafi umgengist kjósendur og stjórnarandstöðu af "skyldurækni einni saman og þá með mikilli varúð, en getið sér til um eðli þeirra með bóklegum rannsóknum og ályktunum". Takmörk þessar miðaldarlegu staðfestu í íslenskum stjórnmálum verða æpandi í ljósi nýlegra stjórnarathafna Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur bæði gagnvart heyrnarlausum og varðandi skipan nýrrar nefndar um hugsanleg fjölmiðlalög. Í báðum þessum málum kemur menntamálaráðherra til móts við gagnrýnisraddir og styrkir sig í sessi og skapar ríkisstjórninni allri margfalt geðfelldara yfirbragð en áður þekktist. Það er hins vegar hlálegt að Þorgerður skuli geta slegið sig til riddara með þessum tiltölulega saklausu tilslökunum. Í raun eru þetta sjálfsagðir hlutir - ekkert er eðlilegra í venjulegum mannlegum samskiptum. Og einmitt það hve eðlilegt og sjálfsagt þetta er, dregur fram hve óeðlilegt ástandið hefur verið. Öfugt við boðorð miðaldariddara stjórnarliðsins kemur í ljós að sveigjanleiki og samtal eru til vitnis um styrk, en ekki veikleika. Ríkisstjórnin lýtur nú nýrri forustu og eftir höfðinu dansa limirnir. Vonandi fela þessar fréttir vikunnar í sér fyrirheit um nýjan samskiptastíl í stjórnmálum.





×