Viðskipti innlent

Málið á forræði Bjarna

Bankaráð Íslandsbanka fundaði í gærmorgun um ákvörðun Bjarna Ármannssonar forstjóra um að víkja Jóni Þórissyni aðstoðarforstjóra úr starfi. "Bjarni gerði grein fyrir málinu og við ræddum það. Niðurstaða okkar er sú að forræði Bjarna í þessu máli er ótvírætt. Hann ber ábyrgð á því að ráða starfsmenn til bankans og sjá um starfslok þeirra. Þetta var því rætt okkur til upplýsingar en ekki til ákvörðunar," segir Einar Sveinsson formaður bankaráðs Íslandsbanka. Innan stjórnarinnar er ekki einhugur um ákvörðun Bjarna en töluverður meirihluti er sáttur við þessa ráðstöfun. Komið hefur fram að ráðning Sveins Hannessonar í stöðu útibússtjóra hafi haft úrslitaþýðingu um ákvörðun Bjarna en ráðningin var ekki borin undir forstjórann. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er ástæða þess að sú ráðning fór illa í Bjarna ekki síst sú að Sveinn hefði í gegnum starf sitt hjá Samtökum iðnaðarins stutt setu Víglundar Þorsteinssonar í stjórn Íslandsbanka. Litlir kærleikar hafa verið milli Víglundar og Bjarna en Víglundur vék úr stjórn bankans fyrir skemmstu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×