Menning

Ísbjarnarkjöt og þverskorin ýsa

"Það jafnast ekkert á við heimabökuðu pitsuna okkar Massimos," segir Hörður Torfason tónlistarmaður, en í matargerðarlistinni opnaðist fyrir honum nýr heimur þegar hann kynntist ítölskum eiginmanni sínum. "Þá hækkaði gæðastaðallinn í minni matarmenningu verulega. Það var svo gaman að kynnast því hvernig menn leggja sig alla fram við matargerðina, setja upp svuntu, lesa uppskriftir og gefa sér svo þann tíma sem þarf til að elda matinn og ekki síst að njóta hans án þess að glápa á sjónvarp eða lesa blöð á meðan." Hörður og Massimo eru nýfluttir til Íslands frá London en Massimo er enn í útlandinu að ganga frá. Það hindrar þó ekki Hörð í að elda kvöldmat fyrir sig einan. "Ég myndi aldrei panta mér skyndimat," segir hann og bendir á að himinn og haf séu á milli heimagerðrar pitsu og hinnar sem maður pantar. Hann segist heldur ekkert sérstaklega djarfur að smakka óhefðbundinn mat. "Þegar við bjuggum í London, þar sem allt er til, vorum við duglegir að heimsækja veitingastaði og eltast við skemmtilegan mat og uppskriftir. Á framandi veitingastöðum fylgist ég með því sem hinir eru að panta og er óhræddur við að spyrja og fá útskýringar. En ég byrja alltaf á að skoða salernin," segir Hörður og hlær. "Ef þau eru illa þrifin fer ég út." Það óvenjulegasta sem Hörður hefur borðað er ísbjörn sem hann fékk í Finnlandi og það leiðinlegasta þverskorin ýsa. "Mig minnir að björninn hafi verið meyr og fínn, en ýsunni fékk ég nóg af í æsku eftir að hafa borðað hana fimm sinnum í viku í áraraðir." Nú er Hörður að undirbúa hausttónleikana sína í september sem verða þeir 28. í röðinni. "Það er líka ný plata á leiðinni," segir hann, "með svokölluðum I-land söngvum. Þeir fjalla um það sem gerist á mörkum heilahvelanna í sérhverjum manni, skapgerðarbrestina og fýlupokaganginn sem mér finnst alltaf svo gaman að gera góðlátlegt grín að. Sérviska mannanna er eilífðaruppspretta að nýjum og grátbroslegum textum," segir listamaðurinn og snýr sér við svo búið að matargerðinni á ný." edda@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.