Hraðbraut í miðri höfuðborg 28. júní 2004 00:01 Brussel, höfuðborg Belgíu, er falleg borg. Í jaðri gamla miðbæjarins er mikið skrifstofuhverfi, þar eru höfuðstöðvar Evrópusambandsins, hús Evrópuþingsins (höfuðstöðvar þess eru í Strassborg) og skrifstofur allskonar samtaka sem telja sig hafa hag af því að vera í nágrenni við stjórnsýslu Evrópusambandsins. Margir sem koma til Brussel eiga bara erindi í þetta hverfi. Við þá sýn er Brussel allt annað en falleg eða aðlaðandi borg. Ekki vegna þess að skrifstofubyggingarnar eða þinghúsið eru stórar og miklar, það eru skiptar skoðanir, eins og gengur, um hvort þær eru augnayndi eða ekki, heldur vegna þess að í gegnum þetta hverfi liggur hraðbraut með samtals átta akreinum, að vísu skipt í tvennt en það gerir engan reginmun. Þar er ryk, stybba, hávaði og annar sá ófögnuður sem fylgir hraðbrautum. Það er leitt til þess að hugsa að samgönguyfirvöld ætli að kalla samskonar leiðindi yfir litla og fallega höfuðborg Íslands. Ennþá verra er að kjörnir fulltrúar borgaranna í borgarstjórn samþykki aðgerðina og hlusti ekki á almenning. Alþingi og fulltrúar okkar Reykvíkinga á þeirri samkundu geta reyndar líka haft áhrif í þessum efnum og skilst mér reyndar að sumir þeirra hafi lýst sig andsnúna framkvæmdinni, en það hefur ekki dugað hingað til. Á Morgunblaðsvefnum (mbl.is) er að finna fróðlegar og myndrænar upplýsingar um þessa framkvæmd alla (Áhugavert efni - Færsla Hringbautar), þar eru m.a. upplýsingar frá Vegagerð ríkisins þar sem segir: "Megintilgangur framkvæmdarinnar er að sameina Landspítalalóðina og færa meginstrauma umferðar frá Landspítalanum - háskólasjúkrahúsi". Engin ástæða er til að ætla annað en að þetta sé rétt. Á hinn bóginn eru aðrar leiðir til að ná þessu markmiði, leiðir sem ekki eyðleggja mannlíf í borginni til framtíðar. Þessi framsetning Vegagerðarinnar er hins vegar alveg í takt við aðra opinbera umræðu hér á landi. Úrlausnaratriðum og/eða ágreiningsatriðum er stillt þannig upp að ef þú samþykkir ekki aðferðir stjórnvalda hvort heldur þær eru ríkisins eða borgarinnar þá ert þú á móti einhverjum þjóðþrifamálum sem í rauninni koma málinu lítið eða ekkert við. Á mannamáli heitir þetta að snúa út úr, og við eigum vissulega menn sem gætu unnið heimsmeistarakeppni í þeirri íþrótt. Það er umhugsunarvert að þetta mál er á oddinum nú þegar þjóðinni allri hefur verið gefið tækifæri til að tjá sig milliliðalaust um mál af allt öðru tagi, sem er fjölmiðlafumvarpið. Án þess að ætla mér að verða einhver sérstakur þjóðfélagsrýnir eða stjórnmálaskýrandi þá virðist sem þau sem fagna því að forsetinn tók tímamótaákvörðun og skaut miklu ágreiningsatriði til þjóðarinnar séu einmitt fólk af því tagi sem borgarstjórnarmeirhlutinn sækir styrk sinn til. Hvers vegna eru þau sem þar ráða þá svo ósveigjanleg - af hverju má fólkið ekki segja álit sitt um þessa framkvæmd? Hún er í rauninni miklu endanlegri en fjölmiðlafumvarpið. Nýtt þing gæti breytt lögum, en ný borgarstjórn þyrfti að sprengja, í orðsins fyllstu merkingu. Frú Vigdís talar um umhverfisslys og nefnir Kárahnjúka. Hún hefur rétt fyrir sér, röskun á umhverfinu verður ekki aftur tekin. Hlustum á það og hugsum um hraðbrautina sem er verið að leggja í gegnum höfuðborgina. Auðvitað er sagt: framkvæmdir eru byrjaðar, það er ekki hægt að snúa við. Það er tómt kjaftæði! Mér er sagt að þessi "lausn", eins og framkvæmdir af þessi tagi eru kallaðar, sé tuttugu ára gömul. Við þurfum ekki tuttugu ára gamlar lausnir, við eigum slíkar lausnir alls ekki skilið. Mikið væri það skemmtilegt ef borgaryfirvöld leyfðu borgarbúum að segja sitt um þessa framkvæmd um leið og landsmenn allir greiða atkvæði um fjölmiðlafumvarpið. Borgarstjórnin hefur einstakt tækifæri til að nota lýðræðislega stjórnarhætti og um leið sýna fólkinu í landinu að hofmóðugheitin sem einkenna landstjórnina eru gærdagsins, að valdhafar geti líka hlustað, ekki bara gert það sem þeim sýnist. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Valgerður Bjarnadóttir Mest lesið Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Heimatilbúið „tjón“ Landsvirkjunar Vala Árnadóttir Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Holur í malbiki og tannlækningar Sigþór Sigurðsson Skoðun Sparnaður án aðgreiningar Davíð Már Sigurðsson Skoðun Öðruvísi, fordæmd, útskúfuð en einnig ósigrandi Arna Magnea Danks Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Sorg barna - leit að merkingu Matthildur Bjarnadóttir Skoðun
Brussel, höfuðborg Belgíu, er falleg borg. Í jaðri gamla miðbæjarins er mikið skrifstofuhverfi, þar eru höfuðstöðvar Evrópusambandsins, hús Evrópuþingsins (höfuðstöðvar þess eru í Strassborg) og skrifstofur allskonar samtaka sem telja sig hafa hag af því að vera í nágrenni við stjórnsýslu Evrópusambandsins. Margir sem koma til Brussel eiga bara erindi í þetta hverfi. Við þá sýn er Brussel allt annað en falleg eða aðlaðandi borg. Ekki vegna þess að skrifstofubyggingarnar eða þinghúsið eru stórar og miklar, það eru skiptar skoðanir, eins og gengur, um hvort þær eru augnayndi eða ekki, heldur vegna þess að í gegnum þetta hverfi liggur hraðbraut með samtals átta akreinum, að vísu skipt í tvennt en það gerir engan reginmun. Þar er ryk, stybba, hávaði og annar sá ófögnuður sem fylgir hraðbrautum. Það er leitt til þess að hugsa að samgönguyfirvöld ætli að kalla samskonar leiðindi yfir litla og fallega höfuðborg Íslands. Ennþá verra er að kjörnir fulltrúar borgaranna í borgarstjórn samþykki aðgerðina og hlusti ekki á almenning. Alþingi og fulltrúar okkar Reykvíkinga á þeirri samkundu geta reyndar líka haft áhrif í þessum efnum og skilst mér reyndar að sumir þeirra hafi lýst sig andsnúna framkvæmdinni, en það hefur ekki dugað hingað til. Á Morgunblaðsvefnum (mbl.is) er að finna fróðlegar og myndrænar upplýsingar um þessa framkvæmd alla (Áhugavert efni - Færsla Hringbautar), þar eru m.a. upplýsingar frá Vegagerð ríkisins þar sem segir: "Megintilgangur framkvæmdarinnar er að sameina Landspítalalóðina og færa meginstrauma umferðar frá Landspítalanum - háskólasjúkrahúsi". Engin ástæða er til að ætla annað en að þetta sé rétt. Á hinn bóginn eru aðrar leiðir til að ná þessu markmiði, leiðir sem ekki eyðleggja mannlíf í borginni til framtíðar. Þessi framsetning Vegagerðarinnar er hins vegar alveg í takt við aðra opinbera umræðu hér á landi. Úrlausnaratriðum og/eða ágreiningsatriðum er stillt þannig upp að ef þú samþykkir ekki aðferðir stjórnvalda hvort heldur þær eru ríkisins eða borgarinnar þá ert þú á móti einhverjum þjóðþrifamálum sem í rauninni koma málinu lítið eða ekkert við. Á mannamáli heitir þetta að snúa út úr, og við eigum vissulega menn sem gætu unnið heimsmeistarakeppni í þeirri íþrótt. Það er umhugsunarvert að þetta mál er á oddinum nú þegar þjóðinni allri hefur verið gefið tækifæri til að tjá sig milliliðalaust um mál af allt öðru tagi, sem er fjölmiðlafumvarpið. Án þess að ætla mér að verða einhver sérstakur þjóðfélagsrýnir eða stjórnmálaskýrandi þá virðist sem þau sem fagna því að forsetinn tók tímamótaákvörðun og skaut miklu ágreiningsatriði til þjóðarinnar séu einmitt fólk af því tagi sem borgarstjórnarmeirhlutinn sækir styrk sinn til. Hvers vegna eru þau sem þar ráða þá svo ósveigjanleg - af hverju má fólkið ekki segja álit sitt um þessa framkvæmd? Hún er í rauninni miklu endanlegri en fjölmiðlafumvarpið. Nýtt þing gæti breytt lögum, en ný borgarstjórn þyrfti að sprengja, í orðsins fyllstu merkingu. Frú Vigdís talar um umhverfisslys og nefnir Kárahnjúka. Hún hefur rétt fyrir sér, röskun á umhverfinu verður ekki aftur tekin. Hlustum á það og hugsum um hraðbrautina sem er verið að leggja í gegnum höfuðborgina. Auðvitað er sagt: framkvæmdir eru byrjaðar, það er ekki hægt að snúa við. Það er tómt kjaftæði! Mér er sagt að þessi "lausn", eins og framkvæmdir af þessi tagi eru kallaðar, sé tuttugu ára gömul. Við þurfum ekki tuttugu ára gamlar lausnir, við eigum slíkar lausnir alls ekki skilið. Mikið væri það skemmtilegt ef borgaryfirvöld leyfðu borgarbúum að segja sitt um þessa framkvæmd um leið og landsmenn allir greiða atkvæði um fjölmiðlafumvarpið. Borgarstjórnin hefur einstakt tækifæri til að nota lýðræðislega stjórnarhætti og um leið sýna fólkinu í landinu að hofmóðugheitin sem einkenna landstjórnina eru gærdagsins, að valdhafar geti líka hlustað, ekki bara gert það sem þeim sýnist.