Fastir pennar

Var tekið tillit til leiðinda?

Tímaritið virta, Economist, kemst að þeirri niðurstöðu að Ísland sé sjöunda besta land í heimi til að eiga heima í. Best er að vera á Írlandi. Það kemur nokkuð á óvart, því þegar ég ferðaðist um Írland á árunum 1977-78 var það ennþá fátækrabæli. En síðan hafa Írar að miklu leyti kastað kaþólskri trú, mjólkað Evrópusambandið og laðað til sín fjármagn úr öllum áttum - svo sjálfsagt er lífið bara gott á eyjunni grænu. Ég spurði mig samt hvort tillit hefðu verið tekin til leiðinda í þessari könnun. Ríkin fyrir neðan Írland voru Sviss, Noregur, Luxembourg, Svíþjóð, Ástralía og svo Ísland. Sum þessara landa eru talin með leiðinlegustu stöðum í heiminum. Alveg örugglega Luxembourg þar sem er ekkert við að vera nema að drekka súrt hvítvín, líklega líka Sviss og Noregur. Maður spyr sig líka um Ísland. Góður kunningi minn sló gjarnan Íslandi, Noregi og Færeyjum saman og kallaði "leiðindaþríhyrninginn". En vissulega hefur margt breyst síðan þá - allavega komnar mörg hundruð knæpur í miðbæinn og svo Kringlan og Smáralind. Lönd eins og Frakkland, Þýskaland og Bretland lenda svo mjög neðarlega á listanum - í 25ta, 26ta og 29da sæti. Samt þykir af einhverjum ástæðum eftirsóknarvert að búa á þessum stöðum - þangað liggur stöðugur straumur fólks sem vill fá landvist. Nokkuð takmarkað er hins vegar hversu margir vilja setjast að á Íslandi. Frakkland er stundum talið hámark lífsnautnarinnar, tákn fyrir lífsgæði - gott veður, góðan mat, menningu, þægilegan lífsstíl. Enda er það oft nefnt "la douce France" - hið blíða Frakkland. Maður spyr sig næstum hvort þetta sé einhver brandari hjá Economist, svona eins og um árið þegar þeir kváðu upp úr um að Norðurlandaráð væri þarflausasta samkoma í heimi og hefði ekkert annað að gera en að taka saman skýrslur um hvernig skuli bæsa húsgögn. --- --- --- Um daginn sá ég í sjónvarpi mynd af manni sem stóð á lestarstöð og barði sér til hita í miklum kulda. Lestin lét bíða eftir sér, maðurinn var ekki með húfu. Tilgangurinn með þessu myndskeiði var að sýna að maðurinn ætti á hættu að fá blóðtappa vegna kuldans. Hann hefði þau áhrif að blóðið þykknaði og gæti myndast stífla í fótum eða höfði. Svona er alltaf verið að hræða mann í fjölmiðlunum. Ég veit að á sumum fréttastofum eru beinlínis reglur um að ákveðið hlutfall frétta skuli fjalla um heilsuna og ógnir við hana. Samt erum við öruggari hér á Norðurlöndum en nokkuð fólk hefur nokkurn tíma verið á jörðinni. Lífinu fylgir náttúrlega ákveðin kvíðatilfinning, en fyrir henni er minni ástæða hér og nú en oftast í mannkynssögunni. Um daginn trúði ég því í nokkrar vikur að drengurinn minn myndi fá lifrarbólgu A af því að drekka vatn úr gosbrunni í London. Ég hafði lesið grein þar sem stóð að allar líkur bentu til þess. Var sífellt að horfa í augun á honum til að athuga hvort þau hefðu fengið gula slikju. En ég varð náttúrlega mjög skelkaður yfir blóðtappanum sem getur orsakast af mishitnun líkamans í köldu veðri - hafði aldrei velt þessu fyrir mér. Nú er ég í fyrsta skipti síðan ég var barn kominn með húfu á hausinn. Ég er með frekar stórt höfðuð (eins og Beethoven og Jónas) og mikinn hárlubba svo húfan fer mér illa. Erlend afgreiðslustúlka á kaffihúsi skellti upp í morgun þegar hún sá mig með hana. Ég hló á móti til að leyna því að ég var móðgaður. Og til að vera nokkurn veginn viss um að fá ekki blóðtappa er ég líka kominn í síðar nærbuxur - þurfti að fara alla leið í Kringluna til að kaupa þær. Ekki man ég til þess að hafa klæðst slíkum fatnaði síðan ég var í barnaskóla.





×