Á matarslóðum 18. desember 2004 00:01 Fyrir mörgum árum kom út bók sem hét Á matarslóðum. Skáld í bænum sem ég átti samtal við taldi þetta afar vondan titil; maður sæi fyrir sér mann sem rekur sig í gegnum borgir Evrópu og étur upp úr öskutunnum. Síðan þá hefur matarslóðunum fjölgað mikið. Engin sjónvarpsstöð er svo aum að hún bjóði ekki upp á marga matarþætti; í fréttatengdum útsendingum eru matreiðslumenn gestir - það er alltaf einhver að elda í bakgrunninum og svo er sest yfir krásirnar. Það eru meira að segja til heilar sjónvarpsstöðvar sem eru eingöngu helgaðar mat. Samfylkingarþingmenn leggja fram tillögu um að banna að auglýsa óhollan mat - sætan og feitan - þegar börn eru vakandi. Í þessu felst hugsjónin um að ala þegnana rétt upp, að reka samfélagið eins og heimili þar sem stjórnar mamma sem aldrei sefur og allt veit betur. Þessi þráður er sterkur í jafnaðarstefnunni og ekki síður meðal femínistanna sem koma úr Kvennalistanum gamla. Flestum verður á að hlæja að þessu - þetta hljómar eins og grín. Líkt og þingmennirnir séu að skopstæla sjálfa sig. Á bara að banna auglýsingar frá McDonalds eða á líka að meina Tomma að auglýsa góðu hamborgarana sem fást í Hamborgarabúllunni? Hvar á að draga mörkin? Ef menn ætluðu að vera sjálfum sér samkvæmir væri kannski ástæða til að setja stórar viðvaranir á öll sjónvarpstæki heimsins: Hér streymir út óhollusta, ofbeldi, ómennska, þetta mun leiða til offitu, andlegs doða, þunglyndis - jafnvel ótímabærs dauða. Mjög hefur heimurinn breyst á stuttum tíma. Í einhverju jólablaðinu - fullu af gourmetfæðu - var ég að lesa viðtal við einhvern sem ég man ekki hver var. Viðkomandi var að rifja það upp að þegar hann var lítill hefði verið tómatsúpa með eggi á borðum á jólunum. Manni fannst þetta hálf brjóstumkennanlegt - hefur fólk engan klassa? En svo fór ég að rifja upp að hafa ekið um bæinn með fjölskyldu minni - þetta var sirka 1970 og við sjálfsagt ennþá á skodanum - í leit að Heinz fremur en Campbell uxahalasúpu. Það var semsagt dósasúpa á jólunum - goumetmennskan fólst í muninum á Heinz og Campbells. Fjölskyldan fór í Naustið að borða í hádeginu á sunnudegi og móðir mín fékk sér körfukjúkling. Það þótti afskaplega fínt - hálfur kjúklingur í bastkörfu. Mátti borða með puttunum, en samt ekki rífa í sig, heldur átti að halda pent á lærinu með fingurgómunum. Ég sá í gær að hægt er að kaupa svipaðan skammt af þessari fæðutegund í Melabúðinni fyrir 250 krónur. Matarmenningin hérna var vissulega fábrotin - kannski að sumu leyti ógeðsleg. Kjötbollur og fars, löðrandi í gerlum, brún sósa, soðin ýsa. Ég var í sveit þar sem var á borðum til skiptist saltkjöt og saltfiskur, nýmeti sást sjaldan. Ég lifði á frónkexi hálft sumar - var farinn að ganga um í svefni af næringarskorti. Nú er farið að tala um nýja norræna eldhúsið - það er markaðssett út um allan heim sem tákn um ferskleika og gott hráefni. Meira að segja í Noregi hefur orðið matarbylting. Þar var til skamms tíma versti matur í heimi - líklega verri en á Íslandi. Norðmenn borðuðu kvöldmatinn klukkan fjögur á daginn, annað hvort hrökkbrauð eða ólystugt jukk, hnoðað saman úr hakki, sem þeir kalla carbonade. Síðast þegar ég snæddi á veitingahúsi í Noregi skeit mávur í pizzuna hjá mér - gúanóið kom fljótandi langt ofan úr háloftunum þar sem ég sat á veitingahúsi við höfnina í Osló. En það gerði svosem ekki mikið til - það voru dósasveppir á pizzunni. Fyrir fáum árum var ég gestur yfir helgi á sveitahóteli og veitingahúsi í Provence í Frakklandi - á stað sem heitir Hostellerie Le Phébus. Ég get hiklaust mælt með þessu. Staðurinn fékk góða umsögn í Gault Millau matarbiblíunni og eina stjörnu hjá Michelin. Umhverfið var draumfagurt. Matreiðslumeistarinn var ungur maður, siðhærður en farinn að grána furðu mikið, Xavier Mathieu er nafn hans. Eftir mikla gourmetmáltíð, sex rétti að minnsta kosti, gekk hann meðal gestanna og ræddi við þá. Við vorum jú öll stödd í húsi langt upp í sveit. Mathieu komst fljótt að því að ég og kona mín vorum fullkomlega óintressant, höfðum sama og ekkert til málanna að leggja - lukum bara lofsorði á matinn með einhverjum almennum, illa völdum orðum. Við næsta borð staðnæmdist Mathieu hins vegar og var þar allt kvöldið. Konan sem þar sat hóf að tala við hann um sósu, bara eina tegund af sósu. Þau héldu áfram að skeggræða sósuna. Við fórum út í göngutúr, komum aftur og þau voru enn í hrókasamræðum um sósuna. Ég fór að álykta sem svo að Mathieu væri nú mesti bábjáni sem ég hefði nokkurn tíma vitað - að nenna þessu hjali. Svo hugsaði ég aðeins betur og þóttist sjá að það væri pínu aðdáunarvert að geta haldið uppi svona löngum samræðum um svo afmarkað efni - þóttist skilja að það útheimti ákveðinn andlegan aga. Nú mætti skrifa langt mál um leiðann sem gegnsýrir heiminn. Að annars vegar skuli vera þettta matarfargan, eilíft snakk um hvað maður lætur ofan í sig - og svo á hinum endanum megrunaræðið: megrunarbækurnar, megrunarþættirnir, megrunarefnin. Það er eitthvað geldingslegt við þetta. Einhver skerandi tómleiki. Verður lífið þá svona tilgangslaust þegar fólk þarf ekki lengur að hugsa bara um frumþarfir sínar? Eða á maður að kannski læra að gleðjast yfir matnum eins og bláma himinsins, sólarlaginu, tónlistinni? Skynja nærveru guðs á matardiski. Samt er einhver ávæningur af synd sem fylgir öllu þessu áti. Ein dauðasyndin heitir græðgi: Hún felst tæplega í því einu að troða sig út af mat, heldur líka í öllu umstanginu - að vera sífellt að hugsa um skrokkinn á sér og það sem fer ofan í hann eða út úr honum. Manni verður hugsað um kvikmynd sem heitir La Grande Bouffe - Átveislan mikla. Hún fjallar um fjóra miðaldra karlmenn sem leiðist svo mikið að þeir ákveða að loka sig inni í húsi og éta og drekka sig í hel. En það er auðvitað jafn leiðinlegt og annað. Margir hafa orðið til þess að lofsyngja neyslubyltinguna sem hefur orðið hérna síðustu áratugina - sagt er að það sé engu líkara en fólk hafi losnað úr fjötrum. Gunnar Smári hefur í mörgum greinum dregið upp mynd af íslensku kommúnistaríki sem hér hafi verið um og eftir miðbik aldarinnar. Allt var skammtað, alls staðar átti að hafa vit fyrir fólki. Síðan hafi komið tími frelsunar. Fyrir þrjátíu árum var Mackintosh sælgæti selt undir borðið í sjoppum í Reykjavík.Nú erum við þjóð sem vafrar um verslunarkringlur helgi eftir helgi í leit að einhverju til að kaupa. Hvenær fær fólkið nóg? Við vitum ekki lengur hvað við eigum að gefa í jólagjafir - allir eiga allt. Ekki annað úr? Þetta árið kannski lófatölvu, stafræna myndavél eða ipod? Á jólum er tíska að bera þetta saman við hörmungar og skort annars staðar í heiminum. Hvernig mörg hundruð milljón börn svelta - deyja úr sjúkdómum sem mætti auðveldlega koma í veg fyrir með smá tilkostnaði á meðan sköpunarkraftur vísindanna og fjármagnsins fer í að treina líf fólks á Vesturlöndum. Til að það geti haldið áfram að éta og megra sig. Mitt í sturlaðri efnishyggjunni verður manni á að hugsa að við getum kannski lært af þjóðum sem búa við þrengri kost - jafnvel af múslimunum sem okkur er svo gjarnt að líta niður á - tileinkað okkur ögn meira af sjálfsafneitun, sjálfsaga, sjálfsvirðingu. Í nokkur ár eldaði ég jólamat ofan í frænkur mínar sem eru orðnar fullorðar konur. Báðar eru þær aldar upp í kristinni trú. Ég matreiddi ofan í þær alls konar fínerí, endur og rjúpur, súpur og sósur, en fór svo smátt og smátt að komast að því að þetta skipti þær engu máli. Þeim var alveg sama. Ég verð að viðurkenna að ég hálfpartinn skammaðist mín. Núna hef ég náð því stigi að mér er líka alveg sama um hvað ég borða um jólin - mér finnst það vera eins og frelsun. Gleðileg jól. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Blaðagreinar Silfur Egils Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Fyrir mörgum árum kom út bók sem hét Á matarslóðum. Skáld í bænum sem ég átti samtal við taldi þetta afar vondan titil; maður sæi fyrir sér mann sem rekur sig í gegnum borgir Evrópu og étur upp úr öskutunnum. Síðan þá hefur matarslóðunum fjölgað mikið. Engin sjónvarpsstöð er svo aum að hún bjóði ekki upp á marga matarþætti; í fréttatengdum útsendingum eru matreiðslumenn gestir - það er alltaf einhver að elda í bakgrunninum og svo er sest yfir krásirnar. Það eru meira að segja til heilar sjónvarpsstöðvar sem eru eingöngu helgaðar mat. Samfylkingarþingmenn leggja fram tillögu um að banna að auglýsa óhollan mat - sætan og feitan - þegar börn eru vakandi. Í þessu felst hugsjónin um að ala þegnana rétt upp, að reka samfélagið eins og heimili þar sem stjórnar mamma sem aldrei sefur og allt veit betur. Þessi þráður er sterkur í jafnaðarstefnunni og ekki síður meðal femínistanna sem koma úr Kvennalistanum gamla. Flestum verður á að hlæja að þessu - þetta hljómar eins og grín. Líkt og þingmennirnir séu að skopstæla sjálfa sig. Á bara að banna auglýsingar frá McDonalds eða á líka að meina Tomma að auglýsa góðu hamborgarana sem fást í Hamborgarabúllunni? Hvar á að draga mörkin? Ef menn ætluðu að vera sjálfum sér samkvæmir væri kannski ástæða til að setja stórar viðvaranir á öll sjónvarpstæki heimsins: Hér streymir út óhollusta, ofbeldi, ómennska, þetta mun leiða til offitu, andlegs doða, þunglyndis - jafnvel ótímabærs dauða. Mjög hefur heimurinn breyst á stuttum tíma. Í einhverju jólablaðinu - fullu af gourmetfæðu - var ég að lesa viðtal við einhvern sem ég man ekki hver var. Viðkomandi var að rifja það upp að þegar hann var lítill hefði verið tómatsúpa með eggi á borðum á jólunum. Manni fannst þetta hálf brjóstumkennanlegt - hefur fólk engan klassa? En svo fór ég að rifja upp að hafa ekið um bæinn með fjölskyldu minni - þetta var sirka 1970 og við sjálfsagt ennþá á skodanum - í leit að Heinz fremur en Campbell uxahalasúpu. Það var semsagt dósasúpa á jólunum - goumetmennskan fólst í muninum á Heinz og Campbells. Fjölskyldan fór í Naustið að borða í hádeginu á sunnudegi og móðir mín fékk sér körfukjúkling. Það þótti afskaplega fínt - hálfur kjúklingur í bastkörfu. Mátti borða með puttunum, en samt ekki rífa í sig, heldur átti að halda pent á lærinu með fingurgómunum. Ég sá í gær að hægt er að kaupa svipaðan skammt af þessari fæðutegund í Melabúðinni fyrir 250 krónur. Matarmenningin hérna var vissulega fábrotin - kannski að sumu leyti ógeðsleg. Kjötbollur og fars, löðrandi í gerlum, brún sósa, soðin ýsa. Ég var í sveit þar sem var á borðum til skiptist saltkjöt og saltfiskur, nýmeti sást sjaldan. Ég lifði á frónkexi hálft sumar - var farinn að ganga um í svefni af næringarskorti. Nú er farið að tala um nýja norræna eldhúsið - það er markaðssett út um allan heim sem tákn um ferskleika og gott hráefni. Meira að segja í Noregi hefur orðið matarbylting. Þar var til skamms tíma versti matur í heimi - líklega verri en á Íslandi. Norðmenn borðuðu kvöldmatinn klukkan fjögur á daginn, annað hvort hrökkbrauð eða ólystugt jukk, hnoðað saman úr hakki, sem þeir kalla carbonade. Síðast þegar ég snæddi á veitingahúsi í Noregi skeit mávur í pizzuna hjá mér - gúanóið kom fljótandi langt ofan úr háloftunum þar sem ég sat á veitingahúsi við höfnina í Osló. En það gerði svosem ekki mikið til - það voru dósasveppir á pizzunni. Fyrir fáum árum var ég gestur yfir helgi á sveitahóteli og veitingahúsi í Provence í Frakklandi - á stað sem heitir Hostellerie Le Phébus. Ég get hiklaust mælt með þessu. Staðurinn fékk góða umsögn í Gault Millau matarbiblíunni og eina stjörnu hjá Michelin. Umhverfið var draumfagurt. Matreiðslumeistarinn var ungur maður, siðhærður en farinn að grána furðu mikið, Xavier Mathieu er nafn hans. Eftir mikla gourmetmáltíð, sex rétti að minnsta kosti, gekk hann meðal gestanna og ræddi við þá. Við vorum jú öll stödd í húsi langt upp í sveit. Mathieu komst fljótt að því að ég og kona mín vorum fullkomlega óintressant, höfðum sama og ekkert til málanna að leggja - lukum bara lofsorði á matinn með einhverjum almennum, illa völdum orðum. Við næsta borð staðnæmdist Mathieu hins vegar og var þar allt kvöldið. Konan sem þar sat hóf að tala við hann um sósu, bara eina tegund af sósu. Þau héldu áfram að skeggræða sósuna. Við fórum út í göngutúr, komum aftur og þau voru enn í hrókasamræðum um sósuna. Ég fór að álykta sem svo að Mathieu væri nú mesti bábjáni sem ég hefði nokkurn tíma vitað - að nenna þessu hjali. Svo hugsaði ég aðeins betur og þóttist sjá að það væri pínu aðdáunarvert að geta haldið uppi svona löngum samræðum um svo afmarkað efni - þóttist skilja að það útheimti ákveðinn andlegan aga. Nú mætti skrifa langt mál um leiðann sem gegnsýrir heiminn. Að annars vegar skuli vera þettta matarfargan, eilíft snakk um hvað maður lætur ofan í sig - og svo á hinum endanum megrunaræðið: megrunarbækurnar, megrunarþættirnir, megrunarefnin. Það er eitthvað geldingslegt við þetta. Einhver skerandi tómleiki. Verður lífið þá svona tilgangslaust þegar fólk þarf ekki lengur að hugsa bara um frumþarfir sínar? Eða á maður að kannski læra að gleðjast yfir matnum eins og bláma himinsins, sólarlaginu, tónlistinni? Skynja nærveru guðs á matardiski. Samt er einhver ávæningur af synd sem fylgir öllu þessu áti. Ein dauðasyndin heitir græðgi: Hún felst tæplega í því einu að troða sig út af mat, heldur líka í öllu umstanginu - að vera sífellt að hugsa um skrokkinn á sér og það sem fer ofan í hann eða út úr honum. Manni verður hugsað um kvikmynd sem heitir La Grande Bouffe - Átveislan mikla. Hún fjallar um fjóra miðaldra karlmenn sem leiðist svo mikið að þeir ákveða að loka sig inni í húsi og éta og drekka sig í hel. En það er auðvitað jafn leiðinlegt og annað. Margir hafa orðið til þess að lofsyngja neyslubyltinguna sem hefur orðið hérna síðustu áratugina - sagt er að það sé engu líkara en fólk hafi losnað úr fjötrum. Gunnar Smári hefur í mörgum greinum dregið upp mynd af íslensku kommúnistaríki sem hér hafi verið um og eftir miðbik aldarinnar. Allt var skammtað, alls staðar átti að hafa vit fyrir fólki. Síðan hafi komið tími frelsunar. Fyrir þrjátíu árum var Mackintosh sælgæti selt undir borðið í sjoppum í Reykjavík.Nú erum við þjóð sem vafrar um verslunarkringlur helgi eftir helgi í leit að einhverju til að kaupa. Hvenær fær fólkið nóg? Við vitum ekki lengur hvað við eigum að gefa í jólagjafir - allir eiga allt. Ekki annað úr? Þetta árið kannski lófatölvu, stafræna myndavél eða ipod? Á jólum er tíska að bera þetta saman við hörmungar og skort annars staðar í heiminum. Hvernig mörg hundruð milljón börn svelta - deyja úr sjúkdómum sem mætti auðveldlega koma í veg fyrir með smá tilkostnaði á meðan sköpunarkraftur vísindanna og fjármagnsins fer í að treina líf fólks á Vesturlöndum. Til að það geti haldið áfram að éta og megra sig. Mitt í sturlaðri efnishyggjunni verður manni á að hugsa að við getum kannski lært af þjóðum sem búa við þrengri kost - jafnvel af múslimunum sem okkur er svo gjarnt að líta niður á - tileinkað okkur ögn meira af sjálfsafneitun, sjálfsaga, sjálfsvirðingu. Í nokkur ár eldaði ég jólamat ofan í frænkur mínar sem eru orðnar fullorðar konur. Báðar eru þær aldar upp í kristinni trú. Ég matreiddi ofan í þær alls konar fínerí, endur og rjúpur, súpur og sósur, en fór svo smátt og smátt að komast að því að þetta skipti þær engu máli. Þeim var alveg sama. Ég verð að viðurkenna að ég hálfpartinn skammaðist mín. Núna hef ég náð því stigi að mér er líka alveg sama um hvað ég borða um jólin - mér finnst það vera eins og frelsun. Gleðileg jól.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun