Viðskipti innlent

Verðbólgan hækkar

Verðbólgan fer vaxandi á Íslandi og nálgast nú þolmörk Seðlabankans. Ný vísitala neysluverðs sýnir að verðbólga á ársgrundvelli er nú 3,7 prósent en á sama tíma í fyrra var hún 2,2 prósent á ársgrundvelli. Að sögn Tryggva Eiríkssonar hjá Hagstofu Íslands vegur þyngst í hækkuninni að verð á fötum og skóbúnaði hækkaði um 6,2 prósent milli mánaða. "Það má segja að útsölulokin hafi ekki verið komin alla leið til baka í síðasta mánuði," segir Tryggvi. Verð á matvælum er nánast óbreytt á milli mánaða en rekja má um níutíu prósent hækkunarinnar nú til hækkunar á fötum, húsnæði og kostnaði við rekstur bíls. Greiningardeild Íslandsbanka segir í Morgunkorni í gær að vísitöluhækkunin sé nokkuð meiri en spáð var. Það skýrist að stærstum hluta með hækkunum á húsnæðisverði að mati Íslandsbanka. Íslandsbanki telur að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti um 0,5 til 0,7 prósentustig á næstunni og að um miðbik næsta árs verði stýrivextir komnir í átta prósent. Þeir eru nú 6,75 prósent.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×