Sport

Haukar þurfa að eiga toppleik

"Þetta er mjög grimmt lið og þeir eru fljótir að refsa fyrir hver einustu mistök, skora mikið úr hraðaupphlaupum. Það er ljóst að við verðum að eiga toppleik til að eiga möguleika á móti þeim. Ég sá þá spila gegn þessu ítalska liði og þar unnu þeir öruggan sigur," sagði Páll Ólafsson þjálfari Hauka sem leika í Meistaradeildinni í dag gegn Gorenje Velenje í Slóveníu en leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Sýn. "Það er alveg ljóst að við þurfum að leika mun betur en við gerðum í síðasta leik gegn Arhus og ná að stjórna hraðanum betur. Handboltinn sem þetta slóvenska lið spilar er mjög harður og er í svipuðum stíl og boltinn sem spilaður var í gömlu Júgóslavíu en þó með smá dönsku ívafi," sagði Páll en hann segir að leikmenn sínir séu vel stefndir í leikinn og engin meiðsli séu að hrjá hópinn. Haukar töpuðu fyrsta leik riðilsins á heimavelli gegn danska liðinu Arhus en þá er ítalska liðið Torggler Group Meran í riðli þeirra. "Það fer vel um okkur hérna í Slóveníu og allt í góðu lagi, allur aðbúnaður til fyrirmyndar," sagði Páll. Gorenje Velenje er í efsta styrkleikaflokki og því líklegt að á brattann verði að sækja fyrir Hafnarfjarðarliðið í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×