Tækifæri - ekki ógn 16. nóvember 2005 06:00 Stundum hefur verið haft við orð að fjarlægðin hafi löngum verið Íslendingum vernd gegn ásælni erlendra þjóða. Þegar saga landsins er skoðuð er ekkert fjær sanni. Íslendingar gengu undir norskan kóng 1262, aðallega að því er virðist til að tryggja siglingar nokkurra skipa árlega til landsins. Jafnvel það reyndist Noregskonungum um megn langtímum saman. Eftir að skreið varð eftirsótt í Evrópu skorti hins vegar ekkert á siglingar til landsins og ruddu Englendingar þar brautina. Eftir það litu evrópskir verndarar okkar - fyrst Noregskóngar, síðan danskir - á það sem meginhlutverk sitt að hindra frjálsar siglingar til landsins. Jafnvel það var þeim um megn, þar til þeir síðarnefndu fengu því framgengt að hérlendir gengust undir danska einokun - og var eftir það skammtaður skítur úr hnefa um aldir. Þegar til hernaðarátaka kom á Atlantshafi á tíma Napóleonsstyrjaldanna reyndist okkur engin vörn í kóngsins megt í Kaupmannahöfn og átti þó svo að heita að ríki hans teygði anga sína um fjórar heimsálfur. Samt heyrðust þær raddir hér á landi á tíma sjálfstæðisbaráttunnar að vörnum landsins væri stefnt í óvissu með sambandsslitum við Dani. Fyrri heimsstyrjöldin leiddi glögglega í ljós að í því sambandi var okkur ekkert hald. Röksemdina um að sjálfstæð þjóð þyrfti að geta varið sig afgreiddum við með þeirri kokhreysti að lýsa einhliða yfir ævarandi hlutleysi þjóðarinnar. Í síðari heimsstyrjöldinni varð það endanlega skýrt að ekki var sambandið við Dani okkur aðeins haldlaus vörn heldur okkur beinlínis hættulegt. Þrátt fyrir formleg mótmæli sættum við okkur við hernám Breta. Við nýttum okkur hins vegar sjálfstæði okkar til að semja um að hlutlaus þjóð - Bandaríkjamenn - leysti þá af hólmi og tæki við vörnum landsins, enda hyrfu þeir brott að styrjöldinni lokinni. Það var áreiðanlega ekki af neinni góðsemi í okkar garð, sem Bandaríkin tóku að sér þetta hlutverk. Þeir litu á þetta sem hluta af sínu heimavarnarkerfi og þannig þjóna sínum hagsmunum fyrst og fremst. Bæði við inngönguna í NATO og gerð varnarsamningsins nokkrum árum síðar var það yfirlýst stefna Íslendinga - og um það voru allir stjórnmálaflokkar sammála - að hér yrði ekki her á friðartímum. Með öðrum orðum var litið á þetta sem tímabundið ástand sem varaði einungis svo lengi sem það þjónaði hagsmunum beggja aðila. Sú afstaða hefur hvað eftir annað verið ítrekuð af Alþingi síðan. Sú stefna hlýtur því enn að vera í fullu gildi þar til Alþingi hefur samþykkt annað. Nú eru senn fimmtán ár liðin síðan kalda stríðinu lauk með hruni Sovétríkjanna. Þá þegar vildu Bandaríkjamenn stórminnka umsvif sín hér, sýndu jafnvel á sér fararsnið. Þá brá svo við, eftir áratuga karp meðal þjóðarinnar um það hvenær þeir friðartímar væru upprunnir, að herinn mætti fara og ætti að fara, þá sneru stjórnvöld okkar við blaðinu og fóru bónarveg að Bandaríkjamönnum að fara hvergi. Tvívegis hefur varnarsamningurinn verið framlengdur til fimm ára í senn og nú erum við búnir að vera samningslausir í næstum fimm ár. Pukur og leynd hvílir yfir þessum samningaviðræðum - liggur við að þær séu feimnismál. Engin rök hafa komið fram fyrir því að þeir dvelji hér áfram - nauðugir viljugir. Engin rök hafa komið fram um þá ógn sem steðji að landi og þjóð og útheimti að hér sé trúverðugur varnarviðbúnaður. Engin haldbær rök hafa komið fram fyrir þeirri kröfu Íslendinga að hér séu ávallt til taks fjórar herþotur - sem Bandaríkjamenn telja sig hafa meira brúk fyrir annars staðar. Er ekki varnarsamningur við Bandaríkjamenn og aðild að NATO okkur nægileg trygging fyrir því að ekki verði á okkur ráðist? Er okkur ekki nóg að vera aðili að varnar- og öryggissamstarfi vestrænna þjóða sem nú teygir sig frá landamærum Rússlands að ströndum Kína? Það er ekki eins og við verðum einir í heiminum þótt Bandaríkjaher hverfi héðan og hefðum ekki annað en gömlu haldlausu hlutleysisyfirlýsinguna að styðjast við í viðsjárverðum heimi. Og hvers konar vináttuvottur er það við Bandaríkjamenn að krefjast þess að þeir haldi hér uppi starfsemi, sem þeir sjálfir telja tilgangslausa og gagnslausa - og beri af því verulegan kostnað? Bandaríski sendiherrann hér á landi benti nýlega á það í skynsamlegri grein í Morgunblaðinu, að hér vantaði sárlega stofnun, hugveitu, sem stundaði rannsóknir á utanríkis- og öryggismálum landsins. Með því móti gætum við kannski lagt fram rök fyrir málstað okkar í samningaviðræðum við erlend ríki í stað þess að mæta til þeirra eins og álfar út úr hól og ætla að treysta á kunningsskap eða "vináttu" okkar manna við einstaka framámenn þeirra. Mér er ekki kunnugt um neina þjóð sem byggir utanríkisstefnu sína á svo veikum grunni. Snúum okkur svo að því að ræða hiklaust og djarflega hvað við á að taka þegar hersetunni lýkur. Það er ekki seinna vænna. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Hannibalsson Skoðanir Mest lesið Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson Skoðun
Stundum hefur verið haft við orð að fjarlægðin hafi löngum verið Íslendingum vernd gegn ásælni erlendra þjóða. Þegar saga landsins er skoðuð er ekkert fjær sanni. Íslendingar gengu undir norskan kóng 1262, aðallega að því er virðist til að tryggja siglingar nokkurra skipa árlega til landsins. Jafnvel það reyndist Noregskonungum um megn langtímum saman. Eftir að skreið varð eftirsótt í Evrópu skorti hins vegar ekkert á siglingar til landsins og ruddu Englendingar þar brautina. Eftir það litu evrópskir verndarar okkar - fyrst Noregskóngar, síðan danskir - á það sem meginhlutverk sitt að hindra frjálsar siglingar til landsins. Jafnvel það var þeim um megn, þar til þeir síðarnefndu fengu því framgengt að hérlendir gengust undir danska einokun - og var eftir það skammtaður skítur úr hnefa um aldir. Þegar til hernaðarátaka kom á Atlantshafi á tíma Napóleonsstyrjaldanna reyndist okkur engin vörn í kóngsins megt í Kaupmannahöfn og átti þó svo að heita að ríki hans teygði anga sína um fjórar heimsálfur. Samt heyrðust þær raddir hér á landi á tíma sjálfstæðisbaráttunnar að vörnum landsins væri stefnt í óvissu með sambandsslitum við Dani. Fyrri heimsstyrjöldin leiddi glögglega í ljós að í því sambandi var okkur ekkert hald. Röksemdina um að sjálfstæð þjóð þyrfti að geta varið sig afgreiddum við með þeirri kokhreysti að lýsa einhliða yfir ævarandi hlutleysi þjóðarinnar. Í síðari heimsstyrjöldinni varð það endanlega skýrt að ekki var sambandið við Dani okkur aðeins haldlaus vörn heldur okkur beinlínis hættulegt. Þrátt fyrir formleg mótmæli sættum við okkur við hernám Breta. Við nýttum okkur hins vegar sjálfstæði okkar til að semja um að hlutlaus þjóð - Bandaríkjamenn - leysti þá af hólmi og tæki við vörnum landsins, enda hyrfu þeir brott að styrjöldinni lokinni. Það var áreiðanlega ekki af neinni góðsemi í okkar garð, sem Bandaríkin tóku að sér þetta hlutverk. Þeir litu á þetta sem hluta af sínu heimavarnarkerfi og þannig þjóna sínum hagsmunum fyrst og fremst. Bæði við inngönguna í NATO og gerð varnarsamningsins nokkrum árum síðar var það yfirlýst stefna Íslendinga - og um það voru allir stjórnmálaflokkar sammála - að hér yrði ekki her á friðartímum. Með öðrum orðum var litið á þetta sem tímabundið ástand sem varaði einungis svo lengi sem það þjónaði hagsmunum beggja aðila. Sú afstaða hefur hvað eftir annað verið ítrekuð af Alþingi síðan. Sú stefna hlýtur því enn að vera í fullu gildi þar til Alþingi hefur samþykkt annað. Nú eru senn fimmtán ár liðin síðan kalda stríðinu lauk með hruni Sovétríkjanna. Þá þegar vildu Bandaríkjamenn stórminnka umsvif sín hér, sýndu jafnvel á sér fararsnið. Þá brá svo við, eftir áratuga karp meðal þjóðarinnar um það hvenær þeir friðartímar væru upprunnir, að herinn mætti fara og ætti að fara, þá sneru stjórnvöld okkar við blaðinu og fóru bónarveg að Bandaríkjamönnum að fara hvergi. Tvívegis hefur varnarsamningurinn verið framlengdur til fimm ára í senn og nú erum við búnir að vera samningslausir í næstum fimm ár. Pukur og leynd hvílir yfir þessum samningaviðræðum - liggur við að þær séu feimnismál. Engin rök hafa komið fram fyrir því að þeir dvelji hér áfram - nauðugir viljugir. Engin rök hafa komið fram um þá ógn sem steðji að landi og þjóð og útheimti að hér sé trúverðugur varnarviðbúnaður. Engin haldbær rök hafa komið fram fyrir þeirri kröfu Íslendinga að hér séu ávallt til taks fjórar herþotur - sem Bandaríkjamenn telja sig hafa meira brúk fyrir annars staðar. Er ekki varnarsamningur við Bandaríkjamenn og aðild að NATO okkur nægileg trygging fyrir því að ekki verði á okkur ráðist? Er okkur ekki nóg að vera aðili að varnar- og öryggissamstarfi vestrænna þjóða sem nú teygir sig frá landamærum Rússlands að ströndum Kína? Það er ekki eins og við verðum einir í heiminum þótt Bandaríkjaher hverfi héðan og hefðum ekki annað en gömlu haldlausu hlutleysisyfirlýsinguna að styðjast við í viðsjárverðum heimi. Og hvers konar vináttuvottur er það við Bandaríkjamenn að krefjast þess að þeir haldi hér uppi starfsemi, sem þeir sjálfir telja tilgangslausa og gagnslausa - og beri af því verulegan kostnað? Bandaríski sendiherrann hér á landi benti nýlega á það í skynsamlegri grein í Morgunblaðinu, að hér vantaði sárlega stofnun, hugveitu, sem stundaði rannsóknir á utanríkis- og öryggismálum landsins. Með því móti gætum við kannski lagt fram rök fyrir málstað okkar í samningaviðræðum við erlend ríki í stað þess að mæta til þeirra eins og álfar út úr hól og ætla að treysta á kunningsskap eða "vináttu" okkar manna við einstaka framámenn þeirra. Mér er ekki kunnugt um neina þjóð sem byggir utanríkisstefnu sína á svo veikum grunni. Snúum okkur svo að því að ræða hiklaust og djarflega hvað við á að taka þegar hersetunni lýkur. Það er ekki seinna vænna.
Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson Skoðun
Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson Skoðun