Fastir pennar

Til vansæmdar

Það er stjórnum Læknafélags Íslands og Læknafélags Reykjavíkur til vansæmdar að hafa vikið Vilhjálmi Rafnssyni prófessor úr starfi ritstjóra Læknablaðsins fyrir þá sök að ritið birti ádeilugrein á Kára Stefánsson forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar.

Stjórnir læknafélaganna hafa að vísu ekki staðfest að ádeilan á Kára sé ástæðan fyrir brottvikningunni en það blasir við og ritstjórinn fyrrverandi segir það berum orðum í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér á þriðjudaginn. Með ákvörðuninni er vegið að starfsheiðri ritstjórans sem verið hefur við Læknablaðið í tólf ár og átt þátt í að gera það að alþjóðlega viðurkenndu riti á sínu sérsviði. Hitt er þó enn alvarlegra að vegið er að ritfrelsi sem er stjórnarskrárvarin réttindi.

Í grein Jóhanns Tómassonar læknis, "Nýi sloppur keisarans", sem birtist í septemberhefti Læknablaðsins var fundið að því að Kári Stefánsson skyldi ráðinn til afleysinga á taugasjúkdómadeild Landspítalans. Greinarhöfundur hélt því fram að Kári hefði skilyrt, takmarkað lækningaleyfi og að hann hefði ekki stundað lækningar í um áratug. Hann fullyrti að yfirlæknir deildarinnar og yfirstjórn sjúkrahússins hefðu gert mistök með því að fallast á ráðninguna.

Ekki eru forsendur til að taka afstöðu til þess hvað hæft er í þessum ásökunum. Full ástæða er hins vegar til þess að greint verði frá því opinberlega hvort rétt sé að lækningaleyfi Kára Stefánssonar sé takmarkað og hvort stjórnendum á Landspítala hafi þá orðið á mistök þegar þeir fengu hann til að annast sjúklinga tímabundið. Landlæknir og lækningaforstjóri spítalans hljóta að geta upplýst þetta.

Nokkru eftir að greinin birtist í Læknablaðinu sögðu allir ritstjórnarmenn tímaritsins, fimm að tölu, af sér vegna óánægju með birtingu greinarinnar. Hafði þá Kári Stefánsson mótmælt henni harðlega og krafist afsökunarbeiðni. Fyrrverandi ritstjóri segir að hann hafi jafnframt krafist brottvikningar sinnar úr starfi.

Fram hefur komið að fjórir fimmmenninganna, sem voru í ritstjórninni, eru í rannsóknarsamstarfi við Íslenska erfiðagreiningu og Kára Stefánsson og tveir þeirra hafa skrifað með honum fræðilegar greinar. Þessi tengsl kunna að skýra af hverju þeir kusu að víkja úr ritstjórninni. Grein Jóhanns Tómassonar hefur einnig verið að finna í vefútgáfu Læknablaðsins. Samkvæmt ákvörðun stjórna læknafélaganna voru hins vegar fjarlægðar tvær setningar í þeirri útgáfu og Kári Stefánsson beðinn afsökunar á innihaldi þeirra. Nú er gengið mun lengra með því að reka ritstjórann úr starfi fyrir það eitt að hafa leyft birtingu ádeilugreinar.

Kári Stefánsson er merkilegur brautryðjandi í vísindum og atvinnulífi. Séu ásakanir Jóhanns Tómassonar fullkomlega tilhæfulausar hlýtur það að vera auðvelt fyrir hann að hrekja þær í eitt skipti fyrir öll. Kári er ekki frekar en aðrir menn yfir það hafinn að svara gagnrýni efnislega. Kára er einnig opin sú leið að höfða mál og óska eftir því ummæli Jóhanns Tómassonar verði dæmd dauð og ómerk. Hin leiðin, sem nú hefur verið farin, að reka ritstjóra Læknablaðsins úr starfi fyrir að virða ritfrelsi er algjörlega óviðunandi. Félagsmenn í læknafélögunum geta ekki látið þetta viðgangast.






×