Fastir pennar

Að kjósa sér ríkisstjórn

Stundum hefur verið vikið að því hér í þessum dálkum hversu lýðræðinu hér á landi er í mörgu áfátt. Í manna minnum hefur það ekki gerst að ríkisstjórn leggi verk sín óhikað undir dóm kjósenda og óski eftir endurkosningu út á verk sín. Þvert á móti hafa flokkar stjórnarsamsteypunnar lagt áherslu á að þeir gangi óbundnir til kosninga, afsakað flest sín verk með því að þau séu niðurstaða málamiðlunar og hrossakaupa en ekki árangur af stefnu flokksins; séu tilbúnir að vinna með hverjum sem er að kosningum loknum; biðja hæstvirta kjósendur þess eins að veita sér fylgi og traust til góðrar stöðu í hrossakaupum um stjórnarsetu og ráðherrastóla eftir kosningar.

Stjórnarandstöðuflokkar hafa sama háttinn á; fjargviðrast í kosningabaráttu yfir ýmsum gerðum fráfarandi stjórnar, en eru tilbúnir til að slá striki yfir stóru orðin eftir kosningar og ganga til samstarfs við einhvern fyrri stjórnarflokka án teljandi stefnubreytingar. Komi til stjórnarskipta er stundum engu líkara en stjórn og stjórnarandstaða skiptist á ræðum á þingi. Fyrrum stjórnarandstæðingar flytja nú sömu tuggurnar og fyrrverandi ráðherrar, sem fyrir sitt leyti fara að flytja gömlu tuggurnar stjórnarandstöðunnar og finna þeirri stefnu allt til foráttu sem þeir studdu hvað ákafast meðan þeir voru innan veggja stjórnarráðsins. Ræður ráðherra eru auðvitað mestan part samdar af embættismönnum, sem flestir voru æviráðnir af fráfarandi stjórnum og þær taka því litlum breytingum þótt nýir og óvanir menn komi í bestikkið.

Kosningafyrirkomulagið og kjördæmaskipunin gera það svo að verkum að kjósendur geta harla litlu áorkað til að refsa eða umbuna þingmönnum eftir frammistöðu þeirra. Kjördæmaskipunin lögfestir verulegt misvægi atkvæða eftir búsetu og flokkum. En þar að auki gerir listafyrirkomulagið í tiltölulega stórum kjördæmum það að verkum að í raun er ekki kosið um nema örfáa þingmenn í hinum almennu lögbundnu kosningum; úrslit þeirra gefa aðens til kynna hlutföllin milli flokkanna, sem þeir geta notfært sér til fyrrgreindra hrossakaupa um aðild að stjórn landsins. Hinar raunverulegu kosningar fara fram innan flokkanna í prófkjörum eða með ákvörðunum fulltrúaráða, þar sem fáar reglur gilda og þessar fáu eru mjög sveigjanlegar. Og þeir sem telja sig órétti beitta hafa fá - eða engin - úrræði til að fá leiðréttingu sinna mála. Þarna er í raun úthlutað í hin "öruggu sæti". Sennilega eru þau þingsæti sem ráðast í almennum kosningum ekki fleiri en 6 til 7, oftast færri. Harkan sem oft fylgir stjórnmálum er nú fremur milli pólitískra samflokksmanna en andstæðinga.

Sagt er að kosningabarátta snúist um atkvæði þeirra sem staðsetja sig á miðjunni milli hægri og vinstri sjónarmiða. Þessir kjósendur eru taldir svo vandfýsnir að þá verði að nálgast af stökustu varkárni. Því verður æ algengara að kosningabarátta flokkanna er fengin í hendur auglýsingastofum í einskonar alútboði: þær hanna bæði stefnumálin, sem sett eru fram og framvindu kosningabaráttunnar sjálfrar, láta litgreina frambjóðendur og klæða þá í samræmi við það, ákveða markhópa á grunni neytendakannana, svo og kjörorð til brúks í baráttunni. Þannig hefur verið fullyrt að auglýsingastofa nokkur hafi unnið nokkrar síðustu kosningar fyrir Framsókn, urgað upp fylgið úr ca. 7 prósentum í upphafi kosningabaráttu í ca. 17 prósent, sem nægði sem aðgöngumiði að kjötkötlum valdsins.

Það er til mikils að vinna fyrir Framsókn því að þorri landsmanna hefur skynjað allt frá falli SÍS fyrir meira en áratug að sá flokkur á ekkert erindi við kjósendur dagsins í dag. Hins vegar var flokknum nauðsyn að ná því að verða "skiptaráðendur" í þrotabúi SÍS og koma eignum þess á hendur réttra arftaka forkólfa kaupfélaganna. Verður ekki annað séð en að þessu meginmarkmiði hafi verið náð í góðri samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn með þeim hætti að varla ætti flokkinn að skorta fé til reksturs umsvifamikillar kosningabaráttu í fyrirsjáanlegri framtíð.

Eina leiðin til þess að komast út úr þessari eilífðarvél, sem tryggir Sjálfstæðisflokknum undirtök í öllum ríkisstjórnum með aðstoð smáflokka á vinstri væng á víxl, er sú að Samfylkingin taki af skarið og bjóði upp á trúverðuga stjórnarstefnu undir sinni forystu og gefi þannig kjósendum kost á því í fyrsta sinn um áratugi að kjósa yfir sig ríkisstjórn líkt og Verkamannaflokkurinn norski gerði í nýafstöðnum kosningum þar í landi og Reykvíkingar hafa raunar getað í undanförnum þrennum borgarstjórnarkosningum. Það er í þessu ljósi, sem verður að skoða ákaft ákall Morgunblaðsins undanfarið um að eðalkratar kljúfi nú Samfylkinguna og myndi hækjulið, sem verði til taks, ef og þegar framsóknarhækjan bregst. Það væri mikið óþurftarverk í íslenskum stjórnmálum, ef þessi draumur Morgunblaðsins gengi eftir.






×