Skotglaðir Íslendingar og björgunarsveitir 27. desember 2005 03:13 Þá er daginn tekið að lengja á nýjan leik. Enn höfum við þraukað svartasta skammdegið - eða að minnsta kosti stysta daginn og nú lengjast þeir um hænufet, hver af öðrum. Fyrr en varir verður komið vor og svo sumar og að því liðnu haustar á ný og þannig höldum við áfram, hring eftir hring. Vonandi hefur jólahátíðin sjálf fært landsmönnum gleði og frið í hjarta. Vonandi hafa fjölskyldur fagnað saman og fundið kærleikann sem býr innra með hverjum og einum. Og framundan eru áramótin. Þessi undarlega stund milli vita, þegar við lítum til baka, flest vonandi með nokkrum söknuði en einhverjir eru fegnir að sjá erfitt ár að baki. Þannig er lífið. Og flestir horfa fram á veginn með von í hjarta, von um gott og gæfuríkt ár. Margir eru fullir fagurra fyrirheita fyrir nýtt ár. Ætla að bæta sig á ýmsum sviðum, væntanlega ætla allir að gera sitt besta - enda gerir enginn betur en það. Það var nokkurt áfall að heyra að nýr útvarpsstjóri ætlaði ekki að flytja þjóðinni áramótaávarp en sjálfsagt tákn nýrra tíma. Ég vænti þess þó að Ríkisútvarpið ætli áfram að lofa okkur að horfa á árið hverfa hægt og hægt síðustu mínútuna fyrir tólf og sjá svo nýja árið fæðast á áramótum. Fjölmargir láta flugeldasýningar áramótanna ekki trufla sig frá þeirri klökku stund. En það er þetta með flugeldasýningarnar. Þetta er víst séríslenskur siður. Reyndar skjóta fleiri þjóðir upp flugeldum á hátíðarstundum, ekki síst um áramót. Magnið er hinsvegar séríslenskur siður eins og varðandi svo margt annað. Við kunnum okkur ekki alltaf hóf, Íslendingar. Við erum svo skotglöð á áramótum að innflutningur ferðamanna á þessum tímamótum er drjúg tekjulund, sem er auðvitað bara besta mál. En hingað kemur sem sagt sístækkandi hópur ferðamanna ár hvert til að horfa á ósköpin - eða dýrðina, eftir því hvernig á það er litið. Ég horfi hinsvegar til himins með blendnum tilfinningum þessa stund. Það er ótrúlegt að sjá hversu mikil fjárráð fólk hefur til að lýsa upp himininn eina kvöldstund. Reyndar er þetta bara afar skemmtilegt, eina kvöldstund. Þegar fólk er hinsvegar byrjað að skjóta upp flugeldum á þriðja í jólum, ef ekki fyrr, skothríðin er orðin linnulítil síðasta dag ársins og heldur sleitulítið áfram fram á morgun nýársdags og síðan mætti halda að við byggjum í stríðshrjáðu landi allt fram yfir þrettánda þá er mér eiginlega nóg boðið. Það skal viðurkennt að mér finnst þetta mjög þreytandi nema í 2-3 klukkustundir um áramótin sjálf. Það er þó huggun harmi gegn að bróðurpartur fjármagnsins sem kemur inn fyrir flugeldasölu fer til góðs málefnis. Án björgunar- og hjálparsveitanna okkar væri mun erfiðara um vik í landinu. Sjálfboðaliðar á öllum aldri og af báðum kynjum eru reiðubúnir að hlaupa út fyrirvaralaust hvenær sólarhringsins sem er og hvenær ársins sem er. Við sátum á aðfangadagskvöld fyrir ári síðan yfir steikinni, fjölskyldan, þegar viðstaddur tengdasonur var beðinn um að vera í viðbragðsstöðu. Ekki kom til þess að hann færi sjálfur út þetta kvöld en fjölmargir félagar hans leituðu drykklanga stund að týndum landa okkar. Sú leit bar góðan árangur, sem betur fer. Menn hlaupa út frá fjölskyldunni, út úr fjölskylduboðum, afmælum barnanna sinna, rjúka út frá jólasteikinni og jafnvel út úr jólamessunni. Komi útkall er einskis spurt. Hvort sem um er að ræða týnda rjúpnaskyttu eða strandað skip, snjóflóð eða börn á villigötum. Fleiri hundruð manns um allt land eru viðbúin að hlaupa undir bagga og bjarga náunganum. Oftar en ekki hefur náunginn komið sér sjálfur í klemmu með gáleysi af einhverju tagi. Hann leggur af stað vanbúinn, án fjarskiptamöguleika og lætur ekki vita af sér. Og hjálparsveitarmenn fara af stað. Eftir að hafa fylgst nokkuð grannt með störfum þessara manna um árabil ber ég ótakmarkaða virðingu fyrir þeim. Þess vegna sætti ég mig betur við flugeldafár áramótanna en ella. Þegar ég lít yfir upplýstan himininn hugsa ég um mannslífin sem björgunarsveitarmenn eiga eftir að bjarga á nýju ári vegna þess að við keyptum af þeim flugelda. Þess vegna geta þeir átt nauðsynlegan búnað, sinnt æfingum og hlaupið til þegar við þurfum á þeim að halda. Það er ekki öðrum til að dreifa og ekki nema sjálfsagt að við sýnum þessu fólki þakklæti okkar í verki og kaupum af þeim flugelda ¿ allt í hófi samt. Gleðileg áramót. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Inga Rósa Þórðardóttir Skoðanir Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun
Þá er daginn tekið að lengja á nýjan leik. Enn höfum við þraukað svartasta skammdegið - eða að minnsta kosti stysta daginn og nú lengjast þeir um hænufet, hver af öðrum. Fyrr en varir verður komið vor og svo sumar og að því liðnu haustar á ný og þannig höldum við áfram, hring eftir hring. Vonandi hefur jólahátíðin sjálf fært landsmönnum gleði og frið í hjarta. Vonandi hafa fjölskyldur fagnað saman og fundið kærleikann sem býr innra með hverjum og einum. Og framundan eru áramótin. Þessi undarlega stund milli vita, þegar við lítum til baka, flest vonandi með nokkrum söknuði en einhverjir eru fegnir að sjá erfitt ár að baki. Þannig er lífið. Og flestir horfa fram á veginn með von í hjarta, von um gott og gæfuríkt ár. Margir eru fullir fagurra fyrirheita fyrir nýtt ár. Ætla að bæta sig á ýmsum sviðum, væntanlega ætla allir að gera sitt besta - enda gerir enginn betur en það. Það var nokkurt áfall að heyra að nýr útvarpsstjóri ætlaði ekki að flytja þjóðinni áramótaávarp en sjálfsagt tákn nýrra tíma. Ég vænti þess þó að Ríkisútvarpið ætli áfram að lofa okkur að horfa á árið hverfa hægt og hægt síðustu mínútuna fyrir tólf og sjá svo nýja árið fæðast á áramótum. Fjölmargir láta flugeldasýningar áramótanna ekki trufla sig frá þeirri klökku stund. En það er þetta með flugeldasýningarnar. Þetta er víst séríslenskur siður. Reyndar skjóta fleiri þjóðir upp flugeldum á hátíðarstundum, ekki síst um áramót. Magnið er hinsvegar séríslenskur siður eins og varðandi svo margt annað. Við kunnum okkur ekki alltaf hóf, Íslendingar. Við erum svo skotglöð á áramótum að innflutningur ferðamanna á þessum tímamótum er drjúg tekjulund, sem er auðvitað bara besta mál. En hingað kemur sem sagt sístækkandi hópur ferðamanna ár hvert til að horfa á ósköpin - eða dýrðina, eftir því hvernig á það er litið. Ég horfi hinsvegar til himins með blendnum tilfinningum þessa stund. Það er ótrúlegt að sjá hversu mikil fjárráð fólk hefur til að lýsa upp himininn eina kvöldstund. Reyndar er þetta bara afar skemmtilegt, eina kvöldstund. Þegar fólk er hinsvegar byrjað að skjóta upp flugeldum á þriðja í jólum, ef ekki fyrr, skothríðin er orðin linnulítil síðasta dag ársins og heldur sleitulítið áfram fram á morgun nýársdags og síðan mætti halda að við byggjum í stríðshrjáðu landi allt fram yfir þrettánda þá er mér eiginlega nóg boðið. Það skal viðurkennt að mér finnst þetta mjög þreytandi nema í 2-3 klukkustundir um áramótin sjálf. Það er þó huggun harmi gegn að bróðurpartur fjármagnsins sem kemur inn fyrir flugeldasölu fer til góðs málefnis. Án björgunar- og hjálparsveitanna okkar væri mun erfiðara um vik í landinu. Sjálfboðaliðar á öllum aldri og af báðum kynjum eru reiðubúnir að hlaupa út fyrirvaralaust hvenær sólarhringsins sem er og hvenær ársins sem er. Við sátum á aðfangadagskvöld fyrir ári síðan yfir steikinni, fjölskyldan, þegar viðstaddur tengdasonur var beðinn um að vera í viðbragðsstöðu. Ekki kom til þess að hann færi sjálfur út þetta kvöld en fjölmargir félagar hans leituðu drykklanga stund að týndum landa okkar. Sú leit bar góðan árangur, sem betur fer. Menn hlaupa út frá fjölskyldunni, út úr fjölskylduboðum, afmælum barnanna sinna, rjúka út frá jólasteikinni og jafnvel út úr jólamessunni. Komi útkall er einskis spurt. Hvort sem um er að ræða týnda rjúpnaskyttu eða strandað skip, snjóflóð eða börn á villigötum. Fleiri hundruð manns um allt land eru viðbúin að hlaupa undir bagga og bjarga náunganum. Oftar en ekki hefur náunginn komið sér sjálfur í klemmu með gáleysi af einhverju tagi. Hann leggur af stað vanbúinn, án fjarskiptamöguleika og lætur ekki vita af sér. Og hjálparsveitarmenn fara af stað. Eftir að hafa fylgst nokkuð grannt með störfum þessara manna um árabil ber ég ótakmarkaða virðingu fyrir þeim. Þess vegna sætti ég mig betur við flugeldafár áramótanna en ella. Þegar ég lít yfir upplýstan himininn hugsa ég um mannslífin sem björgunarsveitarmenn eiga eftir að bjarga á nýju ári vegna þess að við keyptum af þeim flugelda. Þess vegna geta þeir átt nauðsynlegan búnað, sinnt æfingum og hlaupið til þegar við þurfum á þeim að halda. Það er ekki öðrum til að dreifa og ekki nema sjálfsagt að við sýnum þessu fólki þakklæti okkar í verki og kaupum af þeim flugelda ¿ allt í hófi samt. Gleðileg áramót.