Sport

Mæta sænsku meisturunum í dag

Valsstúlkur mæta í dag sænsku meisturunum í Djurgården/Älvsjö í fyrsta leik sínum í 2. umferð í evrópukeppni félagsliða en leikurinn hefst klukkan 18.00 að íslenskum tíma. Sænska liðið er fyrirfram talið það sterkasta í riðlinum og státar auk þess af því að vera á heimavelli í öllum leikjum sínum. Með Val og Djurgården/Älvsjö í riðlinum eru lið ZFK Masinac-Classic Nis frá Serbíu/Svartfjallalandi og Alma KTZH frá Kasakstan en fyrri leikur dagsins er einmitt á milli þessarra tveggja liða. Líkt og hjá Valssliðinu hefur sænsku meisturunum ekki gengið nægilega vel á heimavígstöðunum þar sem liðið er nú í 3. sæti á eftir fyrrum evrópumeisturum í Umeå og Ásthildi Helgadóttur og félögum hennar í Malmö. Valsstúlkur mæta serbneska liðinu á fimmtudaginn og lokaleikurinn er síðan á laugardaginn. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt félagslið kemst í 2. umferð keppninnar, en í raun er um 16-liða úrslit að ræða, þar sem keppt er í fjórum fjögurra liða riðlum og efstu tvö lið hvers riðils um sig komast áfram í 8-liða úrslit. Valur vann alla leikina í sínum riðli í 1. umferð með markatölunni 14-3 vann þá norsku meistarana 4-1 og þá finnsku 2-1 auk þess að bursta eistneska liðið Parnu, 8-1, í lokaleiknum. Margrét Lára Viðarsdóttir, markadrottning Landsbankadeildar kvenna annað árið í röð, skoraði fjögur mörk í tveimur fyrstu leikjunum en hvíldi síðan í lokaleiknum. Margrét Lára hefur skorað 28 mörk í 18 deildar, bikar og evrópuleikjum á tímabilinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×