Fastir pennar

Samfylkingin þarf endurnýjun

Guðmundur Árni Stefánsson gerir upp feril sinn í pólitík í Morgunblaðsviðtali við gamlan félaga sinn úr blaðamennsku, Árna Þórarinsson. Ég vann reyndar stutta hríð með þeim báðum á Helgarpóstinum, þá var Árni ritstjóri en Guðmundur skrifaði hraðsoðna pistla um pólitík í ógurlegum barningi við skilafrestinn. Mig minnir að stundum hafi þurft að nota eitt leyndardómsfyllsta tæki blaðamannsins við greinar Guðmundar - sjálfan dálkastrekkjarann. Nú er Guðmundur orðinn diplómati og fínn maður. Hann fer í eitt viðhafnarviðtal áður en hann hverfur inn í þagnarbindindi sendiherrans. --- --- --- En í þetta sinn leyfir hann sér að senda skot í ýmsar áttir, ekki síst til félaga sinna í Samfylkingunni. Guðmundur gagnrýnir Össur og Ingibjörgu fyrir að hafa ekki tekist að koma flokknum í stjórn í síðustu kosningum, segir að það hafi verið mikil vonbrigði. Össur fær ádrepu fyrir að hafa borið víurnar í Halldór Ásgrímsson strax morguninn eftir kosningar, Ingibjörg fyrir að hafa skemmt fyrir möguleikum á samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Sjálfur segir Guðmundur að hann hefði gjarnan viljað fara í stjórn með Sjálfstæðismönnum. Og jú, það eru áreiðanlega margir á þeirri skoðun að slík ríkisstjórn hefði verið fyllilega tímabær. En hvers vegna sagði Guðmundur þetta ekki á sínum tíma? Hefði það ekki verið miklu hreinlegra í staðinn fyrir að þessi áhrifamikli stjórnmálamaður, foringi í sínu kjördæmi, væri að pukrast með þessa skoðun sína en lauma henni svo út um það bil að hann er að hætta í pólitík? Trúði hann því kannski ekki að þetta myndi fá hljómgrunn hjá kjósendum Samfylkingarinnar? --- --- --- Annars er þetta ágætt dæmi um hugsunarháttinn sem er ríkjandi í kringum kosningar á Íslandi. Almenningur má kjósa, en það er einkamál stjórnmálamanna hvernig farið er með kosningaúrslitin - hvernig þau eru túlkuð morguninn eftir kosningar. --- --- --- Samfylkingin hefði þurft að komast í þá stöðu að leiða ríkisstjórn eftir síðustu kosningar - tilboð um að setjast í stjórn undir forystu helmingi minni Framsóknarflokks var að sönnu veikleikamerki. Hins vegar hræða sporin. Alþýðuflokkurinn var við það að þurrkast út í tvígang eftir stjórnarsamstarf við Sjálfstæðismenn og aldrei hefur fylgi Framsóknarflokksins verið minna en nú, þótt hann eigi sjálfan forsætisráðherrann í samstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Svo er náttúrlega spurningin um kjósendur Samfylkingarinnar. Hver er hugur þeirra gagnvart samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn? Er þeim ekki tamara að líta á flokkinn sem erkiandstæðinginn? --- --- --- Kosning nýs formanns hefur ekki skilað sér í skoðanakönnunum fyrir Samfylkinguna. Kannski skiptir það ekki öllu máli - það er enn sumar, ekkert að gerast í pólitíkinni. Hins vegar virðist ljóst að formaðurinn nýi þarf að fara í mikla tiltekt. Sjálf hefur Ingibjörg Sólrún langt í frá endurheimt traustið sem hún hafði áður en hún fór í hið vanhugsaða þingframboð - það er vafamál hvort hún gerir það nokkurn tíma. Nýr varaformaður flokksins, Ágúst Ólafur Ágústsson, er veiklaður eftir ásakanir um svindl á landsfundinum í vor. Unnvörpum eru líka að hverfa á brott sterkir þingmenn: Guðmundur Árni, Bryndís Hlöðversdóttir og kannski lætur Össur slag standa og fer í borgarstjóraframboð. Þetta er að veikja flokkinn mikið. Samfylkinguna sárvantar öfluga þingmenn - flokkurinn hefur til dæmis varla neinn innan sinna raða sem getur fjallað með trúverðugum hætti um efnahagsmál. Það er mikill veikleiki á þeim tímum sem við lifum á. Varaþingmennirnir sem hafa fyllt skörðin virka fjarska litlausir. Maður er í raun ekki enn farinn að vita hvaða menn þetta eru - gerðu þeir nokkurn tíma ráð fyrir að enda á þingi? Margir af gömlu þingmönnunum virka eins og tími þeirra sé kominn, fólk eins og Rannveig Guðmundsdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Jóhann Ársælsson og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Margrét Frímannsdóttir hefur setið á þingi fyrir ýmsa flokka og hlýtur að fara að spyrja sig hversu mikið lengur það kærir sig um að lafa í stjórnarandstöðu? En líklega stendur þessu fólki ekki sendiherraembætti til boða eins og Guðmundi Árna, útgönguleiðin er varla eins greið? --- --- --- Þegar við þetta bætist að það er nokkuð óljóst fyrir hvað Samfylkingin stendur - gagnvart einkavæðingu, miklum uppgangi auðvaldsins, jöfnuði í samfélaginu, skattamálum, utanríkismálum - sér maður ekki betur en að flokkurinn þurfi að fara í stórfellda endurnýjun. Það er eiginlega óhugsandi að nýi formaðurinn beiti sér ekki fyrir því.





×