Lausn umferðarvandans? 11. júní 2005 00:01 Það er í tísku að gera samanburð á Bretlandi annars vegar og Þýskalandi og Frakklandi hins vegar – Bretlandi í hag. Þá vill gleymast hversu mikið af innviðum bresks samfélags eru lélegir. Tökum til dæmis samgöngurnar. Frakkar hafa frábært samgöngukerfi, bestu lestir í heimi, Þjóðverjar heimsfræga vegi, mjög góðar almenningssamgöngur í borgum. Í þessu felast mikil lífsgæði. Í Bretlandi er þetta allt komið að fótum fram. Lestirnar hafa verið einkavæddar með hörmulegum afleiðingum; þjónustan er afspyrnu léleg, enginn skilur hversu dýrt er að ferðast með þeim, það hriktir í gömlum og ógeðslegum lestarvögnum. Verkamannaflokkurinn hefur til þessa ekki þorað að leggja til atlögu við samgöngukerfið. Alltof mikið af stefnu hans verður til í fókushópum – einn hópur sem ekki má styggja eru bílaeigendur. --- --- --- Samgönguráðherrann núna er heldur litlaus blairisti sem nefnist Alistair Darling. Það hefur verið talið eitt af afrekum hans að komast hjá því að vera í fjölmiðlunum, ólíkt fyrirrennara hans Stephen Byers sem var sífellt verið að skamma í blöðunum. En nú beinast allra augu að Darling – hann hefur lagt fram tillögur sem verða að teljast byltingarsinnaðar. Þær felast í því að settir verði skynjarar í bifreiðar og síðan lögð gjöld á ökumenn eftir notkun bílanna. Darling segir að þetta verði komið í gagnið að fullu eftir tíu ár – margir vildu raunar sjá það gerast fyrr. Ástandið á vegum Bretlands er mjög vont. Þessi hugmynd hefur tvo meginkosti. Hún ætti að stuðla að því að minnka notkun einkabíla – veitir ekki af, því Bretland er mjög þröngbýlt og umferðarteppurnar magnast stöðugt. Og þetta er ný aðferð við skattlagningu – á tíma þegar kröfur um bætta þjónustu eru háværar en skattahækkanir eru nánast bannorð. Afraksturinn má svo nota til að bæta samgöngurnar. Margir hafa orðið til að fagna hugmyndinni – loksins djarft útspil frá Verkamannaflokknum segja stjórnmálaskýrendur. En það heyrast líka gagnrýnisraddir. Það er sagt að þarna sé eftirlitssamfélagið endanlega að kasta grímunni – það verði hægt að fylgjast linnulaust með stórum hópum fólks. Einnig sé hætta á að talsverður hluti þegnanna verði gerður að eins konar sakamönnum, þeir sem ekki borga gjöldin á réttum tíma og lenda í skuld við það mikla kerfi sem þetta óneitanlega verður. --- --- --- Nefnd sem starfaði á vegum samgönguráðuneytisins hérna á Íslandi tæpti á svipuðum hugmyndum í skýrslu sem birtist í vor. Það vakti ekki sérlega mikla athygli. Meðal þeirra sem sátu í nefndinni voru frjálshyggjumaðurinn Birgir Ármannsson – þessi hugmynd telst varla neinn sósíalismi. Fyrsta skrefið hér á Íslandi er þó að fara að beita veggjöldum í auknum mæli. Slík gjöld tíðkast á hraðbrautum út um alla Evrópu og þykja sjálfsögð. Ökumenn þurfa að greiða gjald til að komast inn í Osló; nú er verið að taka upp svipað fyrirkomulag í Lundúnum. Það er almennt góð hugmynd að þeir sem nota hlutina borgi fyrir þá en aðrir þurfi ekki að koma nálægt því. --- --- --- Guðmundur Árni, Sigríður Dúna og Markús Örn sendiherrar – manni verður flökurt. Spurning hvort Samfylkingin mótmælir, eða var nóg að láta einn úr hennar röðum fá feitt djobb til að kaupa þögn hennar? Til hvers er Davíð Oddsson eiginlega í utanríkisráðuneytinu? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pistlar Silfur Egils Mest lesið Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Nýtanleg verðmætasköpun um allt land Jóhann Frímann Arinbjarnarson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Gerum betur Hilmar Björnsson Skoðun Dýrkeyptur aðgangur Stella Guðmundsdóttir Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Íslenskufræðingurinn Sigmundur Davíð Hákon Darri Egilsson Skoðun Geðrænn vandi barna og ungmenna Eldur S. Kristinsson Skoðun
Það er í tísku að gera samanburð á Bretlandi annars vegar og Þýskalandi og Frakklandi hins vegar – Bretlandi í hag. Þá vill gleymast hversu mikið af innviðum bresks samfélags eru lélegir. Tökum til dæmis samgöngurnar. Frakkar hafa frábært samgöngukerfi, bestu lestir í heimi, Þjóðverjar heimsfræga vegi, mjög góðar almenningssamgöngur í borgum. Í þessu felast mikil lífsgæði. Í Bretlandi er þetta allt komið að fótum fram. Lestirnar hafa verið einkavæddar með hörmulegum afleiðingum; þjónustan er afspyrnu léleg, enginn skilur hversu dýrt er að ferðast með þeim, það hriktir í gömlum og ógeðslegum lestarvögnum. Verkamannaflokkurinn hefur til þessa ekki þorað að leggja til atlögu við samgöngukerfið. Alltof mikið af stefnu hans verður til í fókushópum – einn hópur sem ekki má styggja eru bílaeigendur. --- --- --- Samgönguráðherrann núna er heldur litlaus blairisti sem nefnist Alistair Darling. Það hefur verið talið eitt af afrekum hans að komast hjá því að vera í fjölmiðlunum, ólíkt fyrirrennara hans Stephen Byers sem var sífellt verið að skamma í blöðunum. En nú beinast allra augu að Darling – hann hefur lagt fram tillögur sem verða að teljast byltingarsinnaðar. Þær felast í því að settir verði skynjarar í bifreiðar og síðan lögð gjöld á ökumenn eftir notkun bílanna. Darling segir að þetta verði komið í gagnið að fullu eftir tíu ár – margir vildu raunar sjá það gerast fyrr. Ástandið á vegum Bretlands er mjög vont. Þessi hugmynd hefur tvo meginkosti. Hún ætti að stuðla að því að minnka notkun einkabíla – veitir ekki af, því Bretland er mjög þröngbýlt og umferðarteppurnar magnast stöðugt. Og þetta er ný aðferð við skattlagningu – á tíma þegar kröfur um bætta þjónustu eru háværar en skattahækkanir eru nánast bannorð. Afraksturinn má svo nota til að bæta samgöngurnar. Margir hafa orðið til að fagna hugmyndinni – loksins djarft útspil frá Verkamannaflokknum segja stjórnmálaskýrendur. En það heyrast líka gagnrýnisraddir. Það er sagt að þarna sé eftirlitssamfélagið endanlega að kasta grímunni – það verði hægt að fylgjast linnulaust með stórum hópum fólks. Einnig sé hætta á að talsverður hluti þegnanna verði gerður að eins konar sakamönnum, þeir sem ekki borga gjöldin á réttum tíma og lenda í skuld við það mikla kerfi sem þetta óneitanlega verður. --- --- --- Nefnd sem starfaði á vegum samgönguráðuneytisins hérna á Íslandi tæpti á svipuðum hugmyndum í skýrslu sem birtist í vor. Það vakti ekki sérlega mikla athygli. Meðal þeirra sem sátu í nefndinni voru frjálshyggjumaðurinn Birgir Ármannsson – þessi hugmynd telst varla neinn sósíalismi. Fyrsta skrefið hér á Íslandi er þó að fara að beita veggjöldum í auknum mæli. Slík gjöld tíðkast á hraðbrautum út um alla Evrópu og þykja sjálfsögð. Ökumenn þurfa að greiða gjald til að komast inn í Osló; nú er verið að taka upp svipað fyrirkomulag í Lundúnum. Það er almennt góð hugmynd að þeir sem nota hlutina borgi fyrir þá en aðrir þurfi ekki að koma nálægt því. --- --- --- Guðmundur Árni, Sigríður Dúna og Markús Örn sendiherrar – manni verður flökurt. Spurning hvort Samfylkingin mótmælir, eða var nóg að láta einn úr hennar röðum fá feitt djobb til að kaupa þögn hennar? Til hvers er Davíð Oddsson eiginlega í utanríkisráðuneytinu?