Um þreytu stjórnmálamanna 1. febrúar 2005 00:01 "Mamma þvoði og þvoði. Mamma varð þreytt á að þvo". Þetta var mamma Stubbs. Nú er svona komið fyrir mörgum stjórnmálamönnum; þeir eru ákaflega þreyttir á stjórnmálaumræðunni. Forsætisráðherrann er voða þreyttur á Íraksmálinu og segir að svo sé einnig með alla aðra. Ég veit ekki hverjir þessir allir eru, en það skiptir ekki máli. Blaðamenn leggja forsætisráðherrann í einelti segja fylgismenn hans. Blaðamennirnir eru að reyna að fá réttar frásagnir af því hvernig staðið var að ákvörðuninni um að vera á lista yfir staðfastar og viljugar þjóðir þegar Bandaríkin réðust á Írak. Enginn virðist vita hvernig þetta var allt saman. Fyrrverandi ráðherra man ekki hvort hún var á fundinum þar sem þetta var rætt eða hvort þetta hafi verið rætt. Hún þurfti meira að segja að fletta upp á heimasíðunni sinni hvort hún hefði verið á landinu eða hvort fundurinn hefði verið haldinn; ég skildi ekki af hvorri ástæðunni hún fór inn á heimasíðuna. En það er náttúrlega svo oft sem ákveðið er að fara í stríð, að það er ekki furða þó fólk sé ekki að leggja slík smáatriði á minnið. Forsætisráðerrann segir í tímamótaviðtali í Mogga að hann hafi ákveðið að benda á staðreyndir máls. "En það gera menn ekki nema menn telji sig knúna til þess," segir hann. Kannski ekki furða þó almenningur sé svolítið og jafnvel voða þreyttur ef menn skýra ekki frá staðreyndum máls fyrr en í lengstu lög. Ögmundur Jónasson er voða þreyttur á því að Samfylkingin ætli að kjósa sér formann og vonast til að það taki af sem fyrst. Ég átta mig nú ekki alveg á hvað það kemur Ögmundi við því hann er ekki í Samfylkingunni, en svona geta konur nú verið skilningssljóar. Ég hitti líka ágætan sjálfstæðismann sem haldinn er þessari þreytu og telur það lýsa hroka Ingibjargar Sólrúnar að vilja vera formaður Samfylkingarinnar. Í Samfylkingunni er hins vegar fullt af fólki sem er bara alls ekkert þreytt og ætlar að taka sér sinn tíma til að kjósa sér formann án afskipta frá öðrum. Það lýsir kannski hroka þeirra sem eru í Samfylkingunni en hvorki þingmenn né sveitarstjórnarmenn að þeir hafa skoðun á því hver á að vera formaður flokksins. Sumir þeirra knýja á Ingibjörgu Sólrúnu um að bjóða fram krafta sína til þeirra starfa, aðrir hvetja Össur til að halda áfram; bæði verða þau við kallinu og þá er bara að kjósa. Það er nú ekki flóknara en það. Almennir flokksmenn eru kannski bara orðnir þreyttir á því að kjörnir fulltrúar halda að stjórnmál snúist fyrst og fremst um þá og þeirra andlegu líðan en ekki vilja kjósenda. Sumir þingmenn eru líka orðnir ákaflega þreyttir á því að fólk skilur ekki að ef þeir komast einu sinni á þing, hvað þá ef þeir verða ráðherrar, þá geta þeir aldrei eftir það unnið almenna vinnu. Þess vegna þarf að sjá til þess að þeir komist á eftirlaun svo ekki þurfi að vera að útvega mönnum sporslur úti um allt. Autðvitað, segir voða þreyttur þingmaður Sjálfstæðisflokksins, eiga þingmenn ekki að hlíta sömu lögmálum og annað fólk, það er löngu ákveðið. Hins vegar var ekki til þess ætlast að upp um það kæmist að menn fara á eftirlaun á meðan þeir eru á fullum launum annars staðar. Voru það ekki þessir þreytandi blaðamenn sem komust að því? Svo þá verður því bara breytt, óþarfi að kalla þetta mistök, segir þreytti þingmaðurinn. Hann og Moggi hrósa þreytta forsætisráðherranum fyrir að ætla að breyta lögunum sem hann lagði fram fyrir ári síðan. Væri ekki nær að nema þessi hneykslanlegu lög frá því í fyrra úr gildi? Hvernig stendur á því að þeim dettur það ekki í hug? Ég er alveg viss um að þjóðin mundi fagna slíkri hugmynd og kjörnir fulltrúar nytu meiri virðingar eftir að þeir hefðu samþykkt slíkt frumvarp en þeir hafa lengið notið hér á landi og þreyta kjósenda ryki út í verður og vind. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Valgerður Bjarnadóttir Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun
"Mamma þvoði og þvoði. Mamma varð þreytt á að þvo". Þetta var mamma Stubbs. Nú er svona komið fyrir mörgum stjórnmálamönnum; þeir eru ákaflega þreyttir á stjórnmálaumræðunni. Forsætisráðherrann er voða þreyttur á Íraksmálinu og segir að svo sé einnig með alla aðra. Ég veit ekki hverjir þessir allir eru, en það skiptir ekki máli. Blaðamenn leggja forsætisráðherrann í einelti segja fylgismenn hans. Blaðamennirnir eru að reyna að fá réttar frásagnir af því hvernig staðið var að ákvörðuninni um að vera á lista yfir staðfastar og viljugar þjóðir þegar Bandaríkin réðust á Írak. Enginn virðist vita hvernig þetta var allt saman. Fyrrverandi ráðherra man ekki hvort hún var á fundinum þar sem þetta var rætt eða hvort þetta hafi verið rætt. Hún þurfti meira að segja að fletta upp á heimasíðunni sinni hvort hún hefði verið á landinu eða hvort fundurinn hefði verið haldinn; ég skildi ekki af hvorri ástæðunni hún fór inn á heimasíðuna. En það er náttúrlega svo oft sem ákveðið er að fara í stríð, að það er ekki furða þó fólk sé ekki að leggja slík smáatriði á minnið. Forsætisráðerrann segir í tímamótaviðtali í Mogga að hann hafi ákveðið að benda á staðreyndir máls. "En það gera menn ekki nema menn telji sig knúna til þess," segir hann. Kannski ekki furða þó almenningur sé svolítið og jafnvel voða þreyttur ef menn skýra ekki frá staðreyndum máls fyrr en í lengstu lög. Ögmundur Jónasson er voða þreyttur á því að Samfylkingin ætli að kjósa sér formann og vonast til að það taki af sem fyrst. Ég átta mig nú ekki alveg á hvað það kemur Ögmundi við því hann er ekki í Samfylkingunni, en svona geta konur nú verið skilningssljóar. Ég hitti líka ágætan sjálfstæðismann sem haldinn er þessari þreytu og telur það lýsa hroka Ingibjargar Sólrúnar að vilja vera formaður Samfylkingarinnar. Í Samfylkingunni er hins vegar fullt af fólki sem er bara alls ekkert þreytt og ætlar að taka sér sinn tíma til að kjósa sér formann án afskipta frá öðrum. Það lýsir kannski hroka þeirra sem eru í Samfylkingunni en hvorki þingmenn né sveitarstjórnarmenn að þeir hafa skoðun á því hver á að vera formaður flokksins. Sumir þeirra knýja á Ingibjörgu Sólrúnu um að bjóða fram krafta sína til þeirra starfa, aðrir hvetja Össur til að halda áfram; bæði verða þau við kallinu og þá er bara að kjósa. Það er nú ekki flóknara en það. Almennir flokksmenn eru kannski bara orðnir þreyttir á því að kjörnir fulltrúar halda að stjórnmál snúist fyrst og fremst um þá og þeirra andlegu líðan en ekki vilja kjósenda. Sumir þingmenn eru líka orðnir ákaflega þreyttir á því að fólk skilur ekki að ef þeir komast einu sinni á þing, hvað þá ef þeir verða ráðherrar, þá geta þeir aldrei eftir það unnið almenna vinnu. Þess vegna þarf að sjá til þess að þeir komist á eftirlaun svo ekki þurfi að vera að útvega mönnum sporslur úti um allt. Autðvitað, segir voða þreyttur þingmaður Sjálfstæðisflokksins, eiga þingmenn ekki að hlíta sömu lögmálum og annað fólk, það er löngu ákveðið. Hins vegar var ekki til þess ætlast að upp um það kæmist að menn fara á eftirlaun á meðan þeir eru á fullum launum annars staðar. Voru það ekki þessir þreytandi blaðamenn sem komust að því? Svo þá verður því bara breytt, óþarfi að kalla þetta mistök, segir þreytti þingmaðurinn. Hann og Moggi hrósa þreytta forsætisráðherranum fyrir að ætla að breyta lögunum sem hann lagði fram fyrir ári síðan. Væri ekki nær að nema þessi hneykslanlegu lög frá því í fyrra úr gildi? Hvernig stendur á því að þeim dettur það ekki í hug? Ég er alveg viss um að þjóðin mundi fagna slíkri hugmynd og kjörnir fulltrúar nytu meiri virðingar eftir að þeir hefðu samþykkt slíkt frumvarp en þeir hafa lengið notið hér á landi og þreyta kjósenda ryki út í verður og vind.