Sport

Risinn í dvala

Það er ljóst að Risinn í Hafnarfirði er ennþá í dvala í handboltanum en FH tapaði í gær fyrir Stjörnunni í Kaplakrika. Þar með hefur liðið tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í mótinu, en ljóst er að þeirra bíður mikið verk ef liðið ætlar sér að vera í toppbaráttunni í vetur. Jafnræði var með liðunum í byrjun en um miðjan fyrri hálfleik náðu gestirnir tökum á leiknum sem þeir slepptu aldrei. Kristján Halldórsson var ekki upplitsdjarfur í leikslok: " Við vorum að elta allan tímann eftir ágætis byrjun en gerðum mistök á mikilvægum augnablikum í leiknum þegar við áttum þess kost að komast inn í leikinn", sagði Kristján.Það sem varð FH að falli í þessum leik var dapur sóknarleikur og Kristján tók undir það: " Sóknarleikurinn var alls ekki nægilega góður. Við fengum nýjan leikmann í gærmorgun og liðið á eftir að slípast betur til. En það er ljóst að okkar bíður mikið verk og við getum gert mikið betur". Varnarleikur Stjörnunnar var góður í gær og flotið á sóknarleiknum var gott og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Ljóst er að liðið hefur alla burði til þess að vera í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í vetur. Jóna Margrét Ragnarsdóttir skoraði 10 mörk í leiknum og átti góðan dag: " Þetta var sigur liðsheildarinnar, vörnin var góð og í kjölfarið fengum við hraðaupphlaup og það skóp sigurinn í dag".



Fleiri fréttir

Sjá meira


×