Sport
Ruiz hættur að boxa
Ameríski hnefaleikakappinn John Ruiz, hefur ákveðið að leggja hanskana á hilluna eftir að hann tapaði WBC titli sínum til James Toney í New York um helgina. Ruiz vann á ferlinum 41 bardaga, gerði eitt jafntefli og tapaði sex sinnum, en var afar bitur eftir tapið um helgina og segist hata íþróttina. "Ég kom fram við alla af virðingu, en ég fékk það ekki endurgoldið," sagði hann. "Það er mér sárt að kveðja íþróttina með þessu móti, en ég elskaði að berjast í hnefaleikum og nú hata ég þá." Hnefaleikasambandið tjáði Ruiz fyrir bardagann að hann yrði að raka af sér alskeggið sem hefur verið hans aðalmerki og þetta litla atriði fyllti mælinn hjá Ruiz. "Þegar þeir skipuðu mér að raka mig, vissi ég að þetta væri búið fyrir mig. Þá kveikti ég á perunni að þeir ætluðu að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að losna við mig úr íþróttinni. Þeir héldu aldrei að ég gæti sigrað menn eins og Holyfield og Rahman. Ég var alltaf með útrétta hendi, en það eina sem samböndin gerðu var að níða af mér skóna," sagði Ruiz sár. "Ég er góður maður og er hættur. Ég hef fengið nóg af hnefaleikaheiminum," sagði hann að lokum.