Sport

Góð byrjun Hauka í Evrópukeppninni

Haukastúlkur spiluðu í gærkvöld sinn fyrsta leik í Evrópukeppni þegar þær mættu ítalska liðinu Pelplast og ekki er hægt að segja annað en Haukaliðið hafi byrjað með glæsibrag, því þær unnu stórsigur 38-19 og eru því í mjög góðri stöðu fyrir síðari leik liðanna. "Þetta var nú aðeins auðveldara en við bjuggumst við," sagði Harpa Melsted, fyrirliði Hauka í samtali við Vísi í morgun. "Við vissum ekki mikið um þetta lið, en héldum nú að það væri sterkara en kom á daginn. Það var dálítið einkennilegt að fylgjast með  þeim í upphituninni, því manni fannst á þeim að þær annað hvort nenntu þessu ekki eða að þær ætluðu bara að taka okkur létt," sagði Harpa. "Við vorum mjög vel stemmdar fyrir þennan leik og það var ljóst strax í upphafi að við myndum vinna og í raun var sigurinn í höfn fljótlega í fyrri hálfleiknum. Við slökuðum kannski aðeins á í síðari hálfleik, en ég trúi ekki að nítján marka forysta nægi okkur ekki fyrir síðari leikinn úti á laugardaginn," sagði fyrirliði Hauka, sem fara með glæsibrag af stað í sinni fyrstu Evrópukeppni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×