Sport

Bowyer ekki óvinsæll í Birmingham

Nú hefur komið á daginn að stuðningsmenn Birmingham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, eru ekki eins mikið á móti því að Lee Bowyer gangi til liðs við félagið og leit út fyrir í fyrstu. Steve Bruce, knattspyrnustjóri liðsins, varð æfur á dögunum, þegar ekkert varð að fyrirhuguðum samningaviðræðum hans við leikmanninn vegna þess að skoðanakönnun á heimasíðu stuðningsmanna liðsins sýndi að góður meirihluti fólks vildi ekki sjá vandræðagemlinginn í Birmingham liðinu. Nú hefur komið í ljós við nánari athuganir, ýmist símleiðis eða á öðrum heimasíðum þar sem stuðningsmenn liðsins tjá skoðanir sínar, að svo virðist sem flestir séu einmitt æstir í að fá hann til liðsins. Þetta gæti gefið samningaviðræðum Bowyer og Bruce byr undir báða vængi, en ljóst er að leikmaðurinn verður alltaf umdeildur, enda hefur hann ítrekað lent í vandræðum út af skapofsa sínum á vellinum - nú síðast þegar honum og félaga hans í liði Newcastle var vikið af leikvelli fyrir að slást innbyrðis í leik í ensku úrvalsdeildinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×