Brestir og brak 3. mars 2005 00:01 Atburðir sumarsins 2004 afhjúpuðu bresti í innviðum okkar unga lýðveldis. Það er hollt að reifa rás þessara atburða annað veifið, svo að það fenni síður yfir þá. Þetta gerðist: ríkisstjórnin lét Alþingi samþykkja frumvarp til laga, sem var í reyndinni stefnt að því að loka óþægum fjölmiðlum, þar á meðal þessu blaði og Stöð 2. Ríkisstjórnin ætlaði sér bersýnilega að afhenda Morgunblaðinu og Ríkisútvarpinu, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn þykist hafa öll ráð í hendi sér, yfirburðastöðu á fjölmiðlamarkaði. Þáverandi forsætisráðherra sótti málið af miklu kappi. Þessu áhlaupi hans og ríkisstjórnarinnar var hrundið með því, að forseti Íslands neytti í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins réttar síns skv. stjórnarskránni til þess að synja frumvarpinu staðfestingar og vísa því til þjóðarinnar til samþykktar eða synjunar. Stjórnarskráin býður ekki upp á neinar undankomuleiðir: það bar að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna. Það var þó ekki gert. Stjórnarskráin var brotin. Hver braut hana? Það gerði forsætisráðherrann, sem átti að sjá um atkvæðagreiðsluna skv. stjórnarskránni, en ákvað að gera það ekki. Alþingi getur skv. lögum ákært ráðherra fyrir brot á stjórnarskránni og dregið hann fyrir Landsdóm. Það var ekki gert. Nú er það að vísu til í dæminu, að Alþingi hafi verið heimilt að fella fjölmiðlalögin úr gildi eins og gert var og við það hafi ákvæði stjórnarskrárinnar um þjóðaratkvæðagreiðslu orðið óvirkt. Ýmsir lögfræðingar, t.d. hæstaréttarlögmennirnir Hróbjartur Jónatansson og Ragnar Aðalsteinsson, eru á öðru máli og telja, að skýra skyldu hafi borið til að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Þennan ágreining hefði þurft að leiða til lykta fyrir dómstólum. Það var ekki gert. Kæruleysið keyrði um þverbak: menn virtust leika sér að því að brjóta stjórnarskrána í þeirri vissu, að þeir slyppu við þau viðurlög, sem lögin í landinu kveða þó á um. Það vakti athygli, að hvorki þáverandi forsætisráðherra né núverandi eyddu orði að þessum atburðum – við erum m.a. að tala um refsivert brot gegn æðstu lögum lýðveldisins – í áramótaávörpum sínum, og það gerði forseti Íslands ekki heldur. En nú á Ísland blaðamenn og rithöfunda, sem rennur blóðið til skyldunnar, og Ólafur Hannibalsson og Hallgrímur Helgason hafa m.a. haldið málinu til haga, hinn síðar nefndi í áramótagrein, sem hann birti hér í blaðinu. Atburðir sumarsins 2004 afhjúpuðu ekki einn brest, heldur ýmsa. Í fyrsta lagi var framkvæmdarvaldið í forustu fyrir fjölmiðlafrumvarpinu og barði þingmeirihluta sinn til fylgis við málið án rækilegrar umræðu. Í öðru lagi leyfðu forustumenn stjórnarflokkanna sér að halda fram fráleitum fullyrðingum um stjórnarskrána og rétt forseta Íslands skv. henni – fullyrðingum, sem hefðu sennilega leitt til afsagnar þeirra í öðrum löndum. Í þriðja lagi er Alþingi svo hallt undir framkvæmdarvaldið, að það hvarflaði varla að neinum þar, a.m.k. ekki í stjórnarliðinu, að nauðsyn bæri til að kveðja saman Landsdóm. Hér birtist alvarleg afleiðing ófullgerðrar aðgreiningar löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds og þá um leið ónógs gagnkvæms aðhalds og eftirlits í stjórnkerfi landsins. Ef Alþingi sýnir því engan áhuga að kanna, hvort stjórnarskrá lýðveldisins hefur verið brotin, þegar málsmetandi lögfræðingar hafa fært skýr rök að því, að svo sé, hvers er þá að vænta af því aðhaldi, sem aðgreiningu framkvæmdarvalds og löggjafarvalds er ætlað að gera Alþingi kleift að veita ríkisstjórninni? Og nú býst þetta sama Alþingi til þess að setja landinu nýja stjórnarskrá þrátt fyrir augljóst vanhæfi til verksins. Annað nýlegt dæmi bregður frekari birtu á vandann. Í alþingiskosningunum 2003 náði Árni Magnússon félagsmálaráðherra kjöri með svo litlum mun, að endurtalning atkvæða hefði hæglega getað snúið úrslitunum við. Frjálslyndi flokkurinn kærði. Og hver skyldi nú hafa verið fenginn til að skera úr ágreiningnum? Alþingi. Alþingi sker sjálft úr slíkum ágreiningi skv. stjórnarskránni, enda þótt ágreiningi um úrslit sveitastjórnarkosninga megi vísa til dómstóla. Alþingi hefði getað vísað málinu frá sér eða a.m.k. leitað óvilhallrar umsagnar, en þingið kaus heldur að gerast dómari í eigin sök. Þannig tryggðu ríkisstjórnarflokkarnir sér fimm atkvæða meiri hluta í þinginu, 34 gegn 29. Ella hefði aflsmunurinn verið aðeins þrjú atkvæði, 33 gegn 30. Það gekk ekki. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Þorvaldur Gylfason Mest lesið Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Holur í malbiki og tannlækningar Sigþór Sigurðsson Skoðun Heimatilbúið „tjón“ Landsvirkjunar Vala Árnadóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Strætó fær sérakrein á Kringlumýrarbraut Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun
Atburðir sumarsins 2004 afhjúpuðu bresti í innviðum okkar unga lýðveldis. Það er hollt að reifa rás þessara atburða annað veifið, svo að það fenni síður yfir þá. Þetta gerðist: ríkisstjórnin lét Alþingi samþykkja frumvarp til laga, sem var í reyndinni stefnt að því að loka óþægum fjölmiðlum, þar á meðal þessu blaði og Stöð 2. Ríkisstjórnin ætlaði sér bersýnilega að afhenda Morgunblaðinu og Ríkisútvarpinu, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn þykist hafa öll ráð í hendi sér, yfirburðastöðu á fjölmiðlamarkaði. Þáverandi forsætisráðherra sótti málið af miklu kappi. Þessu áhlaupi hans og ríkisstjórnarinnar var hrundið með því, að forseti Íslands neytti í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins réttar síns skv. stjórnarskránni til þess að synja frumvarpinu staðfestingar og vísa því til þjóðarinnar til samþykktar eða synjunar. Stjórnarskráin býður ekki upp á neinar undankomuleiðir: það bar að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna. Það var þó ekki gert. Stjórnarskráin var brotin. Hver braut hana? Það gerði forsætisráðherrann, sem átti að sjá um atkvæðagreiðsluna skv. stjórnarskránni, en ákvað að gera það ekki. Alþingi getur skv. lögum ákært ráðherra fyrir brot á stjórnarskránni og dregið hann fyrir Landsdóm. Það var ekki gert. Nú er það að vísu til í dæminu, að Alþingi hafi verið heimilt að fella fjölmiðlalögin úr gildi eins og gert var og við það hafi ákvæði stjórnarskrárinnar um þjóðaratkvæðagreiðslu orðið óvirkt. Ýmsir lögfræðingar, t.d. hæstaréttarlögmennirnir Hróbjartur Jónatansson og Ragnar Aðalsteinsson, eru á öðru máli og telja, að skýra skyldu hafi borið til að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Þennan ágreining hefði þurft að leiða til lykta fyrir dómstólum. Það var ekki gert. Kæruleysið keyrði um þverbak: menn virtust leika sér að því að brjóta stjórnarskrána í þeirri vissu, að þeir slyppu við þau viðurlög, sem lögin í landinu kveða þó á um. Það vakti athygli, að hvorki þáverandi forsætisráðherra né núverandi eyddu orði að þessum atburðum – við erum m.a. að tala um refsivert brot gegn æðstu lögum lýðveldisins – í áramótaávörpum sínum, og það gerði forseti Íslands ekki heldur. En nú á Ísland blaðamenn og rithöfunda, sem rennur blóðið til skyldunnar, og Ólafur Hannibalsson og Hallgrímur Helgason hafa m.a. haldið málinu til haga, hinn síðar nefndi í áramótagrein, sem hann birti hér í blaðinu. Atburðir sumarsins 2004 afhjúpuðu ekki einn brest, heldur ýmsa. Í fyrsta lagi var framkvæmdarvaldið í forustu fyrir fjölmiðlafrumvarpinu og barði þingmeirihluta sinn til fylgis við málið án rækilegrar umræðu. Í öðru lagi leyfðu forustumenn stjórnarflokkanna sér að halda fram fráleitum fullyrðingum um stjórnarskrána og rétt forseta Íslands skv. henni – fullyrðingum, sem hefðu sennilega leitt til afsagnar þeirra í öðrum löndum. Í þriðja lagi er Alþingi svo hallt undir framkvæmdarvaldið, að það hvarflaði varla að neinum þar, a.m.k. ekki í stjórnarliðinu, að nauðsyn bæri til að kveðja saman Landsdóm. Hér birtist alvarleg afleiðing ófullgerðrar aðgreiningar löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds og þá um leið ónógs gagnkvæms aðhalds og eftirlits í stjórnkerfi landsins. Ef Alþingi sýnir því engan áhuga að kanna, hvort stjórnarskrá lýðveldisins hefur verið brotin, þegar málsmetandi lögfræðingar hafa fært skýr rök að því, að svo sé, hvers er þá að vænta af því aðhaldi, sem aðgreiningu framkvæmdarvalds og löggjafarvalds er ætlað að gera Alþingi kleift að veita ríkisstjórninni? Og nú býst þetta sama Alþingi til þess að setja landinu nýja stjórnarskrá þrátt fyrir augljóst vanhæfi til verksins. Annað nýlegt dæmi bregður frekari birtu á vandann. Í alþingiskosningunum 2003 náði Árni Magnússon félagsmálaráðherra kjöri með svo litlum mun, að endurtalning atkvæða hefði hæglega getað snúið úrslitunum við. Frjálslyndi flokkurinn kærði. Og hver skyldi nú hafa verið fenginn til að skera úr ágreiningnum? Alþingi. Alþingi sker sjálft úr slíkum ágreiningi skv. stjórnarskránni, enda þótt ágreiningi um úrslit sveitastjórnarkosninga megi vísa til dómstóla. Alþingi hefði getað vísað málinu frá sér eða a.m.k. leitað óvilhallrar umsagnar, en þingið kaus heldur að gerast dómari í eigin sök. Þannig tryggðu ríkisstjórnarflokkarnir sér fimm atkvæða meiri hluta í þinginu, 34 gegn 29. Ella hefði aflsmunurinn verið aðeins þrjú atkvæði, 33 gegn 30. Það gekk ekki.