Lífið

Fínlegir borðar í stað stórisa

"Þessir borðar koma í staðinn fyrir stórisa eða blúndugardínur og þykja mjög stílhreinir," segir Ragnheiður Valdimarsdóttir, verslunareigandi í Saumalist, en þar rákum við augun í þessa fínu fleka úti í gluggum. Þeir eru til með ýmsum mynstrum og auk þess er auðvelt að búa þá til úr ströngum. Borðarnir eða flekarnir eru settir upp með ýmsu móti, að sögn Ragnheiðar. Hægt er að festa þá með frönskum rennilás á gluggapósta ef þeir eru fyrir hendi. Einnig þræða þá upp á mjóar gluggatjaldastangir sem spenntar eru inn í gluggann og svo eru til sérstakar brautir fyrir þá, svipaðar Z-brautum sem margir kannast við. Á slíkum brautum er auðvelt að færa þá til þannig að þeir leggist hver aftan við annan ef fólk vill draga þá frá gluggunum. Sérstök lína er svo saumuð neðst á borðann til þyngingar. Nýjustu strangarnir í Saumalist eru í sumarlegum tónum. Efnin eru verkleg og vönduð og Ragnheiður sýnir meðal annars þunnt skinnlíki sem hún var að taka upp. Hún segir rjómagult og ljósbrúnt langvinsælustu litina í efnunum í ár.
Mynd/GVA





Fleiri fréttir

Sjá meira


×