Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,71 prósent frá fyrra mánuði og er 242,4 stig í júní samkvæmt tölum Hagstofunnar. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 228,2 stig en hækkaði um 0,35 prósent frá því í maí. Eigið húsnæði í vísitölunni hækkaði um 2,4 prósent, þar af voru áhrif af hækkun markaðsverðs á húsnæði 0,4 prósent en á móti vógu áhrif af lækkun meðalvaxta um 0,11 prósent. Verð á dagvöru hækkaði um 1,5 prósent þar sem áhrif af miklum verðlækkunum síðustu mánaða gengu að nokkru til baka. Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,8 prósent.