Fastir pennar

Mun þetta líta svona út?

Hvernig kemur háskólinn í Reykjavík til með að líta beint ofan í Reykjavíkurflugvelli? Það er ekki laust við að maður hafi illan grun. Altént á maður von á hinu versta miðað við byggingu Hringbrautarinnar og það sem á að fara að framkvæma á Valssvæðinu. Er virkilega of seint að hætta við það furðulega skipulagsklúður sem nánast enginn vill kannast við? Spurningin er hvort svæði Háskólans í Reykjavík verður nokkuð annað en bílastæðaflæmi með lágreistum húsum. Verður ekki gert ráð fyrir að allir sem vettlingi geta valdið, kennarar og nemendur, komi akandi á einkabílunum sínum? Kunningi minn sendi mér þessa mynd sem hann tók úr flugvél vestur í Bandaríkjunum - mun þetta kannski líta svona út? --- --- --- Arkitekt sem ég er stundum í sambandi við sagðist óttast að þetta myndi líta út eins og svæðið sem ég vinn á – þar á hann við Hálsana með sínu dapurlega iðnaðarhúsnæði. Hann benti á að það væri nánast sérstök fræðigrein hvernig á skipuleggja háskólasvæði. Gætum við ekki byrjað á því að skoða okkur um í Cambridge, Oxford, Lundi og Heidelberg áður en lengra verður haldið? Bara svona til að fá hugmyndir? --- --- --- Hins vegar er ótrúlegt rugl að fara að kalla þennan blett "friðland Reykvíkinga". Öskjuhlíðin er ágæt, Nauthólsvíkin sjálf útivistarsvæði, en það er ekki þar með sagt að stórir túnbleðlar allt þar í kring eigi líka að njóta friðunnar – staðir þar sem aldrei sést neinn nema fólk sem er að stelast til að láta hunda skíta. --- --- --- Össur og Ingibjörg Sólrún birtu svör um málefnastöðu sína í Fréttablaðinu á föstudaginn. Svörin voru hérumbil nákvæmlega eins; það verður ekki hægt að efna til mikillar umræðu um málefnamun milli þeirra. Á spjallþráðum er mikið verið að pæla í hvort þeirra sé lengra til hægri eða vinstri. Ég treysti mér ekki til að dæma um það. Nokkurn veginn eini munurinn á svörum þeirra er að Ingibjörg segir að draga eigi úr miðstýringu skólakerfisins (stuðningur við einkaskóla?) og Össur heldur enn í hugmyndir um að fyrna kvótaeign sem Ingibjörg nefnir ekki. --- --- --- Útspilið með fjármál þingmanna þykir hafa heppnast vel; það hefur náðst góður spuni á þetta hjá Framsókn. Nú er bara spurning við hvað verður staðið af fyrirheitunum um að birta upplýsingar um fjárhagstengsl þingmanna? Mun þetta gleymast eins og til dæmis reglulegir blaðamannafundir forsætisráðherra? Þetta er líka svolítið tvíeggjað. Eins og stendur eru þingmenn mjög einsleitur hópur; það er mikið af heimaöldum atvinnumönnum sem ætla sér að vera í pólitík allt sitt líf. Það er þeirra karríer. Þetta ástand er varla til mikilla hagsbóta fyrir þjóðina; hættan er að við sitjum uppi með mýgrút af hugsjónaleysingjum sem hugsa bara um eigin skinn. Við þurfum að hafa fólk á þingi sem endurspeglar fjölbreyttari svið mannlifsins; líka ríka menn sem jafnvel eiga kvóta og hafa flókin fjárhagstengsl út um allar trissur. Satt að segja get ég ekki séð að þetta sé svo mikið vandamál. Kristján Jónsson blaðamaður skrifar ágæta grein um þetta í Moggann á fimmtudaginn. Þar segir hann meðal annars: "En samt get ég ekki stillt mig um að gagnrýna. Það er ekki endilega best að skylda þingmenn til að upplýsa allan almenning um hvert smáatriði í sambandi við eigin fjárhag. Við þurfum aðeins að geta verið sæmilega örugg um að ekki sitji á þingi lygnir fjárglæframenn. Þá er auðvitað átt við einkahagi þeirra. Erfitt verður að hindra bestu menn í að stuðla að ríkisreknum glæfrum sem allt of margir kjósendur virðast leggja blessun sína yfir. Oft hefur verið bent á þá ósvinnu að hér á skuli skattskrá vera lögð fram á almannafæri og öllum gefið færi á að rannsaka einkahagi annarra. Þetta er til að koma í veg fyrir að menn svíki undan skatti, segja menn fjálglega, þetta er aðhald af hálfu almennings. Hann á að fylgjast með því að þeir sem lifa eins og greifar geti ekki sleppt því að greiða skatta og látið duga að borga það sem einu sinni var kallað vinnukonuútsvar. En þá gleymist að við viljum líka samfélag þar sem menn geta lifað í friði ef þeir brjóta ekki lögin. Hvers vegna að gera ráð fyrir því að allir séu glæpamenn? "





×