Viðskipti innlent

Kaupþing bætir ímynd sína

Kaupþing hefur eytt milljónum króna í að bæta ímynd sína í Danmörku í þessari viku. Bankinn birti í gær heilsíðuauglýsingar í nokkrum dönskum dagblöðum þar sem afkoma bankans er kynnt.  Hver þessara auglýsinga sem bankinn birtir kostar að mati danskra blaðamanna rúmlega eina milljón íslenskra króna. Berlingske Tidende segir í grein sem birtist í blaðinu í dag að danskir bankar séu skyldugir að lögum til að auglýsa helstu niðurstöður ársreikninga sinna. Þeir geri það hins vegar flestir með litlum auglýsingum aftarlega í dagblöðum. Kaupþing fer öðruvísi að. Fyrirtækið birtir til að mynda heilsíðuauglýsingar á síðu fimm í Berlingske Tidende í gær og á síðu þrjú í Jótlandspóstinum. Sigurður Einarsson, stjórnarformaður bankans, dregur enga dul á tilgang auglýsinganna í samtali við blaðamann Berlingske; hann segir að með þessu geti almenningur fengið aðra mynd af bankanum en danskir blaðamenn hafi reynt að draga upp af honum á síðustu vikum. Þar vísar hann til gagnrýninnar umfjöllunar danskra fjölmiðla um útrás íslenskra fyrirtækja, þ.á m. Kaupþing, en í þessum greinum hefur því meðal annars verið haldið fram að íslensku efnahagslífi megi líkja við sápukúlu sem bíði þess að springa. Sigurður segist vona að kynning ársreikninga bankans, sem sýna 16 milljarða króna hagnað, með þessum áberandi hætti verði til þess að gagnrýni á bankann linni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×