Viðskipti innlent

Iceland endurskoði umsóknina

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra hefur óskað eftir því að breska verslanakeðjan Iceland endurskoði umsókn sína um að fá einkaleyfi á vörumerkinu Iceland. Formlegt erindi þessa efnist barst stjórnarfomanni Iceland í dag, eða sama dag og Baugur tók við stjórnartaumum í fyrirtækinu. Iceland hefur sótt um einkaleyfi á vörumerkinu Iceland í löndum Evrópusambandsins. Fái fyrirtækið einkaleyfið hefði það í för með sér að íslenskir framleiðendur, eða aðrir hagsmunaaðilar, gætu ekki notað ensku þýðinguna á landaheitinu Ísland. Baugur festi nýverið kaup á verslunarkeðjunni Iceland og tók við stjórn fyrirtækisins í dag. Samtök iðnaðarins hafa mótmælt því harðlega að nafn landsins verði einkaeign fyrirtækis og ljóst er að forsætisráðherra lítur málið einnig alvarlegum augum. Sama dag og Pálmi Haraldsson tók við stjórnarformennsku Iceland barst honum formlegt erindi frá Halldóri Ásgrímssyni þar sem hann biður fyrirtækið að endurskoða umsókn sína á einkaleyfinu. Pálmi segir að orðið verði við beiðni ráðherrans og málið tekið upp á stjórnarfundi strax á þriðjudaginn. Stjórnarformaðurinn segist því að svo stöddu ekki geta sagt til um hvort fyrirtækið muni draga umsóknina til baka eða halda henni til streitu. Spurður hvort hann sé sammála því sem sumir segi, að Baugur eigi orðið allt hér á landi og því sé kannski eðlilegt að fyrirtækið fái einkaleyfi á landaheitinu, segir Pálmi þetta broslegt og varla svaravert. „Og ég held að lífið sé aðeins flóknara en svo,“ segir Pálmi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×