Fastir pennar

Útlagi úr alþjóðasamfélaginu

Condoleezza Rice, hinn nýi utanríkisráðherra George W. Bush hefur að undanförnu farið eins og faraldur um löndin, rétt fram sáttarhönd í ríkjum Evrópu og átt fundi með leiðtogum Palestínu, ekki síður en Ísraels. Við yfirheyrslur í Öldungadeild bandaríkjaþings, sem verður að staðfesta tilnefningu forsetans í embætti utanríkisráðherra, hafði hún reyndar komið nokkuð á óvart með því að lýsa yfir að nú væri runninn upp tími diplómatískrar lipurðar og háttvísi í stað herskárrar ágengni. Rice hefur ávallt verið talin í hópi haukanna í föruneyti Bush. Á heimleið til Washington frétti Rice af yfirlýsingu Norður-Kóreustjórnar um að hún byggi yfir kjarnavopnum og gaf samstundis út tilkynningu um að hin diplómatíska háttvísi mundi ekki ná til Pyongyang. Norður-Kórea yrði einangruð frá alþjóðasamfélaginu sem aldrei fyrr og öllum samningaviðræðum við stjórnina þar samstundis slitið. Norður-Kórea er leyndardómsfyllsta samfélag í heiminum í dag. Svo langt er gengið í leyndinni að aðaljárnbrautarlína landsins er umlukt veggjum svo háum að einstaka erlendur ferðamaður sem leggur leið sína um landið fær ekki séð út yfir þá á landslagið í kring. Þar viðgengst meiri og grófari kúgun en í nokkru öðru landi í veröldinni. Fyrir hefur komið að heilar fjölskyldur hafa verið drepnar yrði einhverjum það á að "detta í það" og láta ógætileg orð falla um Leiðtogann Kæra. Þegar önnur kommúnistaríki snerust gegn persónudýrkun á óskeikulum leiðtogum eins og Stalín og Maó hertu Norður-Kóreumenn á leiðtogadýrkuninni hjá sér. Kim Il Sung var Leiðtoginn Mikli, allt, sem til framfara í landinu horfði var honum að þakka, auk þess sem hann fann tíma til að skrifa tugi skrautbundinna bóka um allt milli himins og jarðar. Öll þjóðin féll fram og tilbað hann í einlægri trú, og eins og gjarnan gerist með þá sem trúa, varð trú fólksins því heitari sem Hann lagði á það meiri þjáningar, skort og hungur. Norður-Kórea er líka fyrsta kommúnistaríkið þar sem æðsta valdið gengur að erfðum. Kim Jong Il varð einvaldur eftir pabba sinn með titlinum Leiðtoginn Kæri, sem upp á síðkastið hefur einnig orðið Mikli. Elsti sonur hans er Kim Jong Nam, menntaður í Sviss og talar ensku, frönsku og rússnesku reiprennandi. Hann hefur gegnt ábyrgðarstörfum í lögreglunni, hernum og Flokknum og er ávarpaður Félagi Hershöfðingi. Norður-Kórea er hinn fullkomni útlagi úr alþjóðasamfélaginu. Kóreustríðinu fyrir hálfri öld var aldrei formlega lokið, aðeins samið um vopnahlé, og enn standa herir gráir fyrir járnum hvor sínum megin vopnahléslínunnar milli Norður- og Suður-Kóreu. Tæknilega séð er Norður-Kórea því enn í stríði við Sameinuðu þjóðirnar, því að í þeirra nafni var Kóreustyrjöldin háð. Umræður á Vesturlöndum hafa því eðlilega snúist um líkurnar á því að N-Kórea hefji aðra Kóreustyrjöld. Þótt N-Kóreumenn ráði án efa yfir vopnabúnaði sem gæti valdið miklum usla í S-Kóreu og Japan leikur enginn vafi á hinu að í slíkri styrjöld yrði þeirra eigið land lagt gersamlega í rúst. Margir gera sér því vonir um að þeir feðgar séu nægri skynsemi gæddir til þess að vilja forðast slíkt sjálfsmorð. Bandaríkin hafa reynt að einangra og inniloka N-Kóreu um áratugi og margir álíta að einmitt það hafi haldið Kimunum við völd svo lengi, rétt eins og samskiptabann Bandaríkjanna við Kúbu hafi orðið til að halda stjórn Kastrós á floti hingað til þrátt fyrir efnahagslegar þrengingar. Þeir sem þessa kenningu aðhyllast benda á að viðskipti, fjárfestingar og túrismi hafi smám saman grafið undan veldi Sovétríkjanna. Slík samskipti geti einnig breytt viðhorfi leiðtoganna. Samskipti Bandaríkjamanna við maóistana í Kína á áttunda áratugnum hafi ýtt undir að leiðtogarnir þar hafi gefið kommúnismann upp á bátinn, nema sem tæki til að viðhalda einræðinu, og haft þannig stórfelldar umbætur í för með sér fyrir kínversku þjóðina. Því sé skásti kosturinn í stöðunni að aflétta viðskiptabanni og smeygja inn í landið erlendum fjárfestum. Kannski gætu S-Kóreumenn tekið að sér hlutverk Taivans gagnvart Kína, því að það er á allra vitorði, að þrátt fyrir opinberan fjandskap þar á milli eru Taivanar meðal stærstu fjárfesta á meginlandi Kína. Á hinn bóginn eru heitustu stuðningsmenn George W. Bush og Condoleezu Rice, sem telja sér trú um að ekki þurfi að hreyfa nema lítið eitt við einræðisherranum og þá muni þjóðfélagsbyggingin öll hrynja og fólkið fagna frelsinu. Því miður er ekkert sem bendir til þess að þessi skoðun sé nokkuð annað en óskhyggja. Evrópskur diplómat sem um árabil dvaldi í Pyongyang telur að 90% þjóðarinnar trúi enn á þá feðga og afgangurinn látist gera það. Kínverskur kommúnisti sem einnig átti langa dvöl í landinu telur viðhorf fólksins lík og í Kína um 1950 þegar langflestir trúðu í einlægni á Maó formann. Kínverjar hafa fyrir löngu séð í gegnum blekkinguna meðan N-Kóreumenn halda dauðahaldi í sína innrætingu. Í algerri einangrun sinni hafa þeir ekki annað haldreipi. Flest bendir því til að sú diplómatíska háttvísi og lipurð, sem Condoleezza Rice boðaði, ætti einnig að ná til utangarðsríkisins Norður-Kóreu.





×