Lopapeysur á þing! 14. febrúar 2005 00:01 Gott framtak hjá Gunnari Örlygssyni, þingmanni Frjálslyndra, að leggja fram tillögu um að þingmenn megi vera í þeim fötum sem þeim sýnist og afleggja þá kátlegu hirðsiði í orðræðu sem þeim er gert að viðhafa nú á hinu háa alþingi um háttvirtan eystri þingmann norðurkjördæmis syðra í stað þess að segja bara Sigrún eða Jóhann. Og svo er ræðutíminn búinn fyrr en varir og fór kannski meira og minna í þessa vitleysu. Það er gott að halda sambandi við fortíðina, halda henni vakandi. Sumt á að varðveita. Til dæmis hús. Alveg sérstaklega hús: timburhús sem fávísir menn nefna "hjalla byggða af vanefnum", eins og húsin séu verri fyrir það að hafa verið reist af fátæku fólki. Þar heyrum við nið aldanna eins og lesendur Þórbergs vita. Þar eru örlög skráð í gluggakistur. Þar eru hugsanir í þiljum. Og við eigum að læra gamlan kveðskap til að hafa á hraðbergi við ólíkar kringumstæður og við eigum að lesa gamlar skáldsögur – ekki síst þær gleymdu – því að þar sjáum við inn í hjörtu mannanna. Gamlar hljómplötur, gamlar ljósmyndir, gömul amboð, gamalt skart – allt hjálpar þetta okkur við að skynja sérleika okkar, gamlar kenndir sem fylgja okkur, gömul uppgjör, gömul augnablik... Strangar reglur um klæðaburð og orðafar á alþingi eru hins vegar ekki til vitnis um heilbrigða íhaldssemi. Til þess að þingmenn geti verið fulltrúar okkar þurfa þeir fyrst og fremst að fá að vera þeir sjálfir. Bindis- og jakkafataskylda karla á þessum vettvangi, og sá afkáralegi vandræðagangur sem viðhafa þarf hverju sinni sem minnst er á annan þingmann eða ráðherra, er hvort tveggja til þess fallið að gera þetta fólk að fulltrúum einhvers annars en okkar. Hvers veit ég ekki alveg – kannski Kristjáns tíunda? Hvor tveggja reglan hefur í sjálfu sér ámóta gildi og væri þingmönnum gert að dansa ævinlega menúett í þingveislum, ganga um með hárkollur og hvítt púður í andliti eða mæla bara á latínu: fyndið og fáránlegt í réttu samhengi en utan þess bara fáránlegt. Þessar reglur eru jafn óviðeigandi og sjálft orðalagið sem stundum heyrist "Hið háa alþingi". Allt virðist miða að því að gefa okkur þá tilfinningu að það fólk sé yfir okkur hafið sem situr þarna og kappræðir þjóðmál og ýtir á takka þess á milli til að formsatriðum sé fullnægt um setningu laga sem ýmist koma frá Brussel eða úr ráðuneytum hér. Það er svo sem eftir öðru í íslenska lýðræðiskerfinu sem býður okkur upp á forsætisráðherra úr stjórnmálaflokki sem 83 prósent þjóðarinnar kusu ekki – flokki sem leitar nú dyrum og dyngjum að inntaki og virðist ætla að enda sem kristilegur hægriflokkur. Væri allt með felldu þá myndi alþingi endurspegla okkur. Þar á ekki að vera einsleitur söfnuður sem talar meira og minna eins. Þar eiga ungu lagasnáparnir úr Sjálfstæðisflokknum að skera sig úr en ekki falla inn í hópinn. Hvers vegna á Steingrímur J. Sigfússon að þurfa að klæða sig eins og Sigurður Kári Kristjánsson? Af hverju má Steingrímur ekki tjá persónuleika sinn og líðan hverju sinni en þarf alltaf fara í búning Sigurðar Kára? Eða Mörður Árnason: hvers vegna þarf hann á hverjum morgni að breyta sér í Halldór Blöndal? Af hverju má hann ekki vera í peysunni sinni? Þetta er spurning um mannréttindi þessa fólks og tjáningarfrelsi þess. En ekki bara: á alþingi á að spranga um innan um jakkalakkana og dragtadömurnar fólk á gallabuxum, í flíspeysum og lopapeysum, fólk af holdi og blóði, ólitgreint fólk: hvers eiga til dæmis lopapeysukommar að gjalda? Af hverju fá þeir ekki sína fulltrúa á alþingi eins og tíðkast í Danmörku og Þýskalandi svo dæmi séu tekin? Þarna á að vera alls konar fólk úr alls konar áttum, ungt, gamalt, innfæddir og útfæddir, hávaxnir og lágvaxnir, rauðhærðir, örvhentir, kiðfættir, rangeygir, fríðir og ófríðir - spjátrungar og sóðar, fatarófur og fatablindir. Þetta eiga að vera verðugir og raunverulegir fulltrúar þjóðarinnar eins og hún er, alþingi á að endurspegla okkur og þessir fulltrúar eiga í kappræðum sínum að endurspegla þá rökræðu sem fer fram í þjóðfélaginu um hvaðeina. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Barnaskapur Bjarna Ben; Fjölmargar þjóðir með meiri kaupmátt en við! Ole Anton Bieltvedt Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Sigurður Ingi og óverðtryggingin Hjalti Þórisson Skoðun Jæja, ræðum þá þetta dásamlega Evrópusamband Haraldur Ólafsson Skoðun Varnarveggur gegn vonbrigðum Sanna Magdalena Mörtudóttir Skoðun Flokkur fólksins vill efla byggð um land allt! Lilja Rafney Magnúsdóttir Skoðun Hægri menn vega að heilbrigðiskerfinu Stefán Ólafsson Skoðun Kvikmyndagerð á Íslandi: Næstu skref Lilja Dögg Alfreðsdóttir Skoðun Þrælakistur samtímans? Gunnar Hólmsteinn Ársælsson Skoðun Hvað kostar vímuefnavandinn? Lilja Sif Þorsteinsdóttir Skoðun
Gott framtak hjá Gunnari Örlygssyni, þingmanni Frjálslyndra, að leggja fram tillögu um að þingmenn megi vera í þeim fötum sem þeim sýnist og afleggja þá kátlegu hirðsiði í orðræðu sem þeim er gert að viðhafa nú á hinu háa alþingi um háttvirtan eystri þingmann norðurkjördæmis syðra í stað þess að segja bara Sigrún eða Jóhann. Og svo er ræðutíminn búinn fyrr en varir og fór kannski meira og minna í þessa vitleysu. Það er gott að halda sambandi við fortíðina, halda henni vakandi. Sumt á að varðveita. Til dæmis hús. Alveg sérstaklega hús: timburhús sem fávísir menn nefna "hjalla byggða af vanefnum", eins og húsin séu verri fyrir það að hafa verið reist af fátæku fólki. Þar heyrum við nið aldanna eins og lesendur Þórbergs vita. Þar eru örlög skráð í gluggakistur. Þar eru hugsanir í þiljum. Og við eigum að læra gamlan kveðskap til að hafa á hraðbergi við ólíkar kringumstæður og við eigum að lesa gamlar skáldsögur – ekki síst þær gleymdu – því að þar sjáum við inn í hjörtu mannanna. Gamlar hljómplötur, gamlar ljósmyndir, gömul amboð, gamalt skart – allt hjálpar þetta okkur við að skynja sérleika okkar, gamlar kenndir sem fylgja okkur, gömul uppgjör, gömul augnablik... Strangar reglur um klæðaburð og orðafar á alþingi eru hins vegar ekki til vitnis um heilbrigða íhaldssemi. Til þess að þingmenn geti verið fulltrúar okkar þurfa þeir fyrst og fremst að fá að vera þeir sjálfir. Bindis- og jakkafataskylda karla á þessum vettvangi, og sá afkáralegi vandræðagangur sem viðhafa þarf hverju sinni sem minnst er á annan þingmann eða ráðherra, er hvort tveggja til þess fallið að gera þetta fólk að fulltrúum einhvers annars en okkar. Hvers veit ég ekki alveg – kannski Kristjáns tíunda? Hvor tveggja reglan hefur í sjálfu sér ámóta gildi og væri þingmönnum gert að dansa ævinlega menúett í þingveislum, ganga um með hárkollur og hvítt púður í andliti eða mæla bara á latínu: fyndið og fáránlegt í réttu samhengi en utan þess bara fáránlegt. Þessar reglur eru jafn óviðeigandi og sjálft orðalagið sem stundum heyrist "Hið háa alþingi". Allt virðist miða að því að gefa okkur þá tilfinningu að það fólk sé yfir okkur hafið sem situr þarna og kappræðir þjóðmál og ýtir á takka þess á milli til að formsatriðum sé fullnægt um setningu laga sem ýmist koma frá Brussel eða úr ráðuneytum hér. Það er svo sem eftir öðru í íslenska lýðræðiskerfinu sem býður okkur upp á forsætisráðherra úr stjórnmálaflokki sem 83 prósent þjóðarinnar kusu ekki – flokki sem leitar nú dyrum og dyngjum að inntaki og virðist ætla að enda sem kristilegur hægriflokkur. Væri allt með felldu þá myndi alþingi endurspegla okkur. Þar á ekki að vera einsleitur söfnuður sem talar meira og minna eins. Þar eiga ungu lagasnáparnir úr Sjálfstæðisflokknum að skera sig úr en ekki falla inn í hópinn. Hvers vegna á Steingrímur J. Sigfússon að þurfa að klæða sig eins og Sigurður Kári Kristjánsson? Af hverju má Steingrímur ekki tjá persónuleika sinn og líðan hverju sinni en þarf alltaf fara í búning Sigurðar Kára? Eða Mörður Árnason: hvers vegna þarf hann á hverjum morgni að breyta sér í Halldór Blöndal? Af hverju má hann ekki vera í peysunni sinni? Þetta er spurning um mannréttindi þessa fólks og tjáningarfrelsi þess. En ekki bara: á alþingi á að spranga um innan um jakkalakkana og dragtadömurnar fólk á gallabuxum, í flíspeysum og lopapeysum, fólk af holdi og blóði, ólitgreint fólk: hvers eiga til dæmis lopapeysukommar að gjalda? Af hverju fá þeir ekki sína fulltrúa á alþingi eins og tíðkast í Danmörku og Þýskalandi svo dæmi séu tekin? Þarna á að vera alls konar fólk úr alls konar áttum, ungt, gamalt, innfæddir og útfæddir, hávaxnir og lágvaxnir, rauðhærðir, örvhentir, kiðfættir, rangeygir, fríðir og ófríðir - spjátrungar og sóðar, fatarófur og fatablindir. Þetta eiga að vera verðugir og raunverulegir fulltrúar þjóðarinnar eins og hún er, alþingi á að endurspegla okkur og þessir fulltrúar eiga í kappræðum sínum að endurspegla þá rökræðu sem fer fram í þjóðfélaginu um hvaðeina.