Amstur við flutninga 15. febrúar 2005 00:01 Þegar fólk flyst til útlanda og þarf að sinna formsatriðunum sem því fylgir að koma sér fyrir á nýjum stað þá ber það "kerfið" í útlandinu gjarnan saman við hvernig hlutirnir eru heima. Ef útlandið er Belgía þá eru rekin upp ramakvein um skriffinnsku, seinagang og stirðbusahátt, það er nú eitthvað annað heima, segja menn og andvarpa. Svo flytur maður á Íslandi, ekki einu sinni á milli sveitarfélaga heldur á milli póstnúmera Reykjavík og kemst að því að það veldur alls konar óþægindum og er jafnvel meira vesen en að flytja á milli póstnúmera í höfuðborg skriffinnanna, Brussel. Þú borgar fasteignagjöld frá þeim degi sem þú tekur við nýju húsnæði, en íbúakort færð þú ekki fyrr en tveimur dögum eftir að þú tilkynnir vistaskipti. Íbúakort fá þeir sem búa í íbúðum sem ekki fylgja þau tvö bílastæði sem mér skilst að eigi að fylgja hverri íbúð og mega þá leggja bíl á ákveðnum gjaldskyldum bílastæðum fyrir 3.000 kr gjald á ári. Þegar sækja á íbúakortið þá er það auðvitað ekki tilbúið og fyrst er því haldið fram að þú hafir gert eitthvað vitlaust en svo kemur í ljós að svo var reyndar ekki heldur hafði erindinu einfaldlega ekki verið sinnt, gjöra svo vel að koma á morgun. Þá leggst maður náttúrlega í flensu, fær tvær sektir á bílinn og loks þegar manni tekst að ná í hið eftirsótta kort þarf maður að borga sektina samtals 1.900 kr. jafnvel þó augljóst sé að hún varð til eftir að rétturinn til íbúakortsins góða var kominn á. Allt þrennt í fullu gildi: skriffinnska, seinagangur og stirðbusaháttur. Þetta er samt hjóm eitt hjá því að trúa á frjálsa samkeppni og hafa þess vegna flutt öll fjarskiptin til OgVodafone. Það fyrirtæki þarf að leita til Símans til að flytja símanúmerið og þar með heimasímann og ADSL-ið. Það er út af grunnnetinu. Viðskiptavinum OgVodafone er sagt að það geti liðið fimm til sjö virkir dagar þangað til síminn fari að virka á nýja staðnum. Viðskiptavinir Símans fá aðgerðina hins vegar gerða á einum til þremur dögum. Já, sagði ágæt vinkona mín, maður getur náttúrlega ekki verið að færa viðskiptin og fá verri þjónustu. Fullkomlega eðlileg viðbrögð og einmitt þau sem þóknast Símanum. Þjóðin á Símann. Hann er rekinn sem einkafyrirtæki og er í harðri samkeppni við hitt símafyrirtækið, hann hefur einokunaraðstöðu yfir grunnnetinu og notar það blygðunarlaust sér til framdráttar og neytendum í landinu til óþæginda. Til eru sérstök fræði um hvernig megi fá fyrirtæki sem njóta náttúrlegrar einokunar af þessu tagi til að hegða sér öðruvísi. Sumir segja að ekkert geti komið í veg fyrir slíka hegðan og því geti jafnvel borgað sig að leggja í tvöfalda fjárfestingu á grunnkerfum til að samkeppni verði á markaðnum. Ekki veit ég um það, hitt er ég sannfærð um, að eitthvað þarf að gera til að fyrirtækjum og viðskiptavinum þeirra sé ekki mismunað eins og raun ber vitni. Síminn er til sölu. Davið vill byggja spítala fyrir andvirðið og ég held ég hafi séð í tímamótaviðtali við forsætisráðherrann í Mogga að einnig eigi að gera mislæg gatnamót og margt margt fleira fyrir peningana. Ég er að vísu þeirrar skoðunar að heilbrigðismál séu mikilvægari málaflokkur en svo að selja þurfi fjölskyldusilfrið til að tryggja stærsta sjúkrahúsinu það húsnæði sem leyfir hagkvæmastan rekstur þess. En ef stjórnarherrarnir eru á þeirri skoðun þá það og hvað gera á við peningana er auðvitað aukaatriði þegar rætt er um sölu Símans. Auðvitað verður grunnetið selt með, segir forsætisráðherrann, það hækkar verðið. Hafa menn ekki velt því fyrir sér að kannski skiptir verðið ekki mestu máli, heldur hvaða umhverfi fjarskiptafyrirtækjum og viðskiptavinum þeirra er búið í framtíðinni. Ríkisfyrirtæki í einkarekstrarleik vílar ekki fyrir sér að misnota aðstöðu sína, varla er við því að búast að alvöru einkafyrirtæki hagi sér öðruvísi. Þess vegna er full ástæða til að íhuga hvort ekki sé betra að fá lægra verð fyrir Símann og sjá um leið til þess að samkeppnisstaða fyrirtækjanna verði jöfn, þau geta þá keppt bæði í verði og þjónustu og viðskiptavinirnir, neytendur, munu hagnast. Það þarf ekki annað en að líta til flugsins til að sjá hvernig samkeppnin gagnast neytendum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Valgerður Bjarnadóttir Mest lesið Við þekkjum öll einn alkóhólista - hættum að stinga höfðinu í sandinn Bryndís Rós Morrison Skoðun KVISS BANG! - mætti lausnin sem bjargaði Svíum nýtast okkur ? Jakob Frímann Magnússon Skoðun Lítið að frétta í lífi án frétta á landsbyggðunum Skúli Bragi Geirdal Skoðun Mikilvægi samfélagslöggæslu Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir Skoðun Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á ekki að vera leikhús Hildur Sverrisdóttir Skoðun „Hvenær var þetta samtal við þjóðina tekið?“ spurði garðyrkjubóndinn Halla Hrund Logadóttir Skoðun Fær ESB Ísland í jólagjöf? Stefán Vagn Stefánsson Skoðun Náttúruspjöll í sveitarfélagi ársins Kjartan H. Ágústsson Skoðun Þetta er víst einkavæðing! Engilbert Guðmundsson Skoðun Að eta útsæði Sigríiður Á. Andersen Skoðun
Þegar fólk flyst til útlanda og þarf að sinna formsatriðunum sem því fylgir að koma sér fyrir á nýjum stað þá ber það "kerfið" í útlandinu gjarnan saman við hvernig hlutirnir eru heima. Ef útlandið er Belgía þá eru rekin upp ramakvein um skriffinnsku, seinagang og stirðbusahátt, það er nú eitthvað annað heima, segja menn og andvarpa. Svo flytur maður á Íslandi, ekki einu sinni á milli sveitarfélaga heldur á milli póstnúmera Reykjavík og kemst að því að það veldur alls konar óþægindum og er jafnvel meira vesen en að flytja á milli póstnúmera í höfuðborg skriffinnanna, Brussel. Þú borgar fasteignagjöld frá þeim degi sem þú tekur við nýju húsnæði, en íbúakort færð þú ekki fyrr en tveimur dögum eftir að þú tilkynnir vistaskipti. Íbúakort fá þeir sem búa í íbúðum sem ekki fylgja þau tvö bílastæði sem mér skilst að eigi að fylgja hverri íbúð og mega þá leggja bíl á ákveðnum gjaldskyldum bílastæðum fyrir 3.000 kr gjald á ári. Þegar sækja á íbúakortið þá er það auðvitað ekki tilbúið og fyrst er því haldið fram að þú hafir gert eitthvað vitlaust en svo kemur í ljós að svo var reyndar ekki heldur hafði erindinu einfaldlega ekki verið sinnt, gjöra svo vel að koma á morgun. Þá leggst maður náttúrlega í flensu, fær tvær sektir á bílinn og loks þegar manni tekst að ná í hið eftirsótta kort þarf maður að borga sektina samtals 1.900 kr. jafnvel þó augljóst sé að hún varð til eftir að rétturinn til íbúakortsins góða var kominn á. Allt þrennt í fullu gildi: skriffinnska, seinagangur og stirðbusaháttur. Þetta er samt hjóm eitt hjá því að trúa á frjálsa samkeppni og hafa þess vegna flutt öll fjarskiptin til OgVodafone. Það fyrirtæki þarf að leita til Símans til að flytja símanúmerið og þar með heimasímann og ADSL-ið. Það er út af grunnnetinu. Viðskiptavinum OgVodafone er sagt að það geti liðið fimm til sjö virkir dagar þangað til síminn fari að virka á nýja staðnum. Viðskiptavinir Símans fá aðgerðina hins vegar gerða á einum til þremur dögum. Já, sagði ágæt vinkona mín, maður getur náttúrlega ekki verið að færa viðskiptin og fá verri þjónustu. Fullkomlega eðlileg viðbrögð og einmitt þau sem þóknast Símanum. Þjóðin á Símann. Hann er rekinn sem einkafyrirtæki og er í harðri samkeppni við hitt símafyrirtækið, hann hefur einokunaraðstöðu yfir grunnnetinu og notar það blygðunarlaust sér til framdráttar og neytendum í landinu til óþæginda. Til eru sérstök fræði um hvernig megi fá fyrirtæki sem njóta náttúrlegrar einokunar af þessu tagi til að hegða sér öðruvísi. Sumir segja að ekkert geti komið í veg fyrir slíka hegðan og því geti jafnvel borgað sig að leggja í tvöfalda fjárfestingu á grunnkerfum til að samkeppni verði á markaðnum. Ekki veit ég um það, hitt er ég sannfærð um, að eitthvað þarf að gera til að fyrirtækjum og viðskiptavinum þeirra sé ekki mismunað eins og raun ber vitni. Síminn er til sölu. Davið vill byggja spítala fyrir andvirðið og ég held ég hafi séð í tímamótaviðtali við forsætisráðherrann í Mogga að einnig eigi að gera mislæg gatnamót og margt margt fleira fyrir peningana. Ég er að vísu þeirrar skoðunar að heilbrigðismál séu mikilvægari málaflokkur en svo að selja þurfi fjölskyldusilfrið til að tryggja stærsta sjúkrahúsinu það húsnæði sem leyfir hagkvæmastan rekstur þess. En ef stjórnarherrarnir eru á þeirri skoðun þá það og hvað gera á við peningana er auðvitað aukaatriði þegar rætt er um sölu Símans. Auðvitað verður grunnetið selt með, segir forsætisráðherrann, það hækkar verðið. Hafa menn ekki velt því fyrir sér að kannski skiptir verðið ekki mestu máli, heldur hvaða umhverfi fjarskiptafyrirtækjum og viðskiptavinum þeirra er búið í framtíðinni. Ríkisfyrirtæki í einkarekstrarleik vílar ekki fyrir sér að misnota aðstöðu sína, varla er við því að búast að alvöru einkafyrirtæki hagi sér öðruvísi. Þess vegna er full ástæða til að íhuga hvort ekki sé betra að fá lægra verð fyrir Símann og sjá um leið til þess að samkeppnisstaða fyrirtækjanna verði jöfn, þau geta þá keppt bæði í verði og þjónustu og viðskiptavinirnir, neytendur, munu hagnast. Það þarf ekki annað en að líta til flugsins til að sjá hvernig samkeppnin gagnast neytendum.