Viðskipti innlent

Hagnaður SPRON aldrei meiri

Afkoma Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis náði sögulegu hámarki á síðasta ári. Hagnaður af rekstri SPRON-samstæðunnar fyrir skatta nam 1.820 milljónum króna samanborið við 846 milljónir árið áður. Hagnaður eftir skatta var 1.465 milljónir króna og arðsemi eigin fjár var 32%. Hreinar rekstrartekjur SPRON jukust um 32% á milli ára og námu um 5 milljörðum króna. Rekstrarkostnaðarhlutfall án afskriftar viðskiptavildar og framlags í Menningar- og styrktarsjóð SPRON var 50% á árinu 2004, samanborið við 55% árið á undan. Framlag í afskriftareikning útlána lækkaði um 30% frá fyrra ári og nam alls 470 milljónum króna árið 2004. Vaxtamunur sparisjóðsins er 3,8% og er óbreyttur á milli ára. Útlán SPRON-samstæðunnar námu í árslok tæpum 50 milljörðum króna sem er um 33% aukning frá árinu á undan. Heildarinnlán jukust um 18% og sem hlutfall af útlánum námu þau í árslok 71%. Eigið fé sparisjóðsins jókst árið 2004 um ríflega 29% og var í lok ársins 5.947 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall (CAD) var 10,4%.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×