Viðskipti innlent

Stýrivextir hækkaðir í 8,75%

Seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti um 0,5 prósentustig í kjölfar þess að bankinn sendi ríkisstjórninni greinargerð í tilefni þess að verðbólgan mælist nú yfir þolmörkum peningamálastefnunar. Stýrivextirnir eru nú 8,75 prósent. Birgir Ísleifur Gunnarsson seðlabankastjóri segir að með aðgerðum Seðlabankans sé horft langt fram í tímann og að vaxtahækkun nú sé til þess gerð að draga úr verðbólguþrýstingi á næsta ári. Hann segir að nokkurn tíma taki þar til vaxtahækkanir Seðlabankans hafi áhrif á langtímavexti en áhrifin á skammtímavexti séu skjótvirkari. Þetta þýðir að skammtímalán eins og yfirdráttur og kreditkortalán verða dýrari. "Verðbólguhorfurnar eru enn þannig að við teljum að það þurfi að herða frekar að. Í fyrsta lagi til að ná verðbólgunni aftur niður fyrir þolmörkin, sem við gerum ráð fyrir að geti orðið í sumar, og svo að koma henni niður fyrir verðbólgumarkmiðið sem við vonum að geti gerst á næsta ári," segir Birgir Ísleifur. Helsta ástæða verðbólgunnar nú er mikil hækkun á verði íbúðarhúsnæðis. Innfluttar vörur, utan áfengis og tóbaks, hafa hins vegar lækkað lítillega í verði á síðustu tólf mánuðum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×