Viðskipti innlent

Ný bensínstöð við Sprengisand

Fyrsta bensínstöð Atlantsolíu í Reykjavík var opnuð í dag og fleiri eru á teikniborðinu. Markaðsstjóri fyrirtækisins segir áfangann stóran og hann geri fyrirtækið enn sterkara í samkeppni á olíumarkaði. Fyrsta stöð fyrirtækisins í Reykjavík er á mótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar á svokallaðri Sprengisandslóð. Félagið hefur um hríð rekið tvær stöðvar, eina í Kópavogi og aðra í Hafnarfirði. Það má því segja að í dag hafi stórum áfanga verið náð. Hugi Hreiðarsson, markaðasstjóri Atlantsolíu, segir áfangann einn þann stærsta í sögu fyrirtækisins. Að komast til Reykjavíkur sé fyrsta stoðin undir það að veita hinum olíufélögunum raunverulega samkeppni. Stöðvarnar í Kópavogi og Hafnarfirði séu ekki eins miðsvæðis og hann voni það og vænti þess að Reykvíkingar verði fyrirtækinu samtaka í samkeppnismálum og versli við það. Að sögn Huga er nýja stöðin af fullkomnustu gerð, meðal annars er engin loftmengun af henni og sérstakar sugur sjúga bensíngufurnar þannig að þær þéttast og verða að bensíni aftur. Næsta stöð sem opnuð verður í Reykjavík verður í Skeifunni en auk þeirrar stöðvar eru á teikniborðinu stöðvar á Dalvegi í Kópavogi og í Hafnarfirði en næsta stöð sem félagið opnar verður í Njarðvík. Þá eru uppi áform um stöðvar víðs vegar um landið. Hugi segir Atlantsolíu þakkláta borgaryfirvöldum fyrir lóðina sem félagið fékk en á brattann hafi verið að sækja þar sem keppinautarnir hafi í kjölfar þeirra sótt um lóðina líka og þar með tafið framkvæmdir þótt hann geti ekki tilgreint hversu miklar tafir hafi orðið á verkinu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×