Viðskipti innlent

Meiður kaupir 16% í VÍS

Meiður fjárfestingarfélag sem er í stærstum hluta í eigu bræðranna í Bakkavör og KB banka hefur keypt sextán prósenta hlut í Vátryggingafélagi Íslands. Meiður verður þar með fjórði stærsti hluthafi VÍS, en markmiðið er samkvæmt heimildum Fréttablaðsins að Meiður auki hlut sinn í 20 prósent. Nýtt hlutafé hefur verið gefið út í VÍS fyrir ríflega hundrað milljónir að nafnvirði og kaupir Meiður allt nýja hlutaféð. Síðasta gengi með hluti í VÍS var á genginu 49 og má því gera ráð fyrir að fjárfesting Meiðs nemi ríflega fimm milljörðum króna. VÍS og Meiður hafa starfað saman sem stórir eigendur í KB banka. Stærsti hluthafinn í VíS er Hesteyri sem er í eigu Skinneyjar, Þinganes á Hornafirði og Fisk Seafood á Sauðarkróki. Auk þeirra eru stærstu hluthafar Samvinnutryggingar og KB banki. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur verið unnið að innkomu Meiðs í hluthafahópinn um nokkurt skeið. VÍS hefur lengi verið í eigu fyrirtækja í samvinnurekstri og stendur hugurinn til þess að skerpa á eignarhaldinu með innkomu stórs einkafjárfestis. Auk samvinnu Meiðs og VÍS í eigendahópi KB banka er talið að þessir aðilar hafi hug á að kaupa, ásamt fleiri fjárfestum, kjölfestuhlut ríkisins í Símanum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×