Viðskipti innlent

Sóttvarnalæknir verðlaunaður

IcePro, samstarfsvettvangur um eflingu rafrænna samskipta, hefur ákveðið að sóttvarnalæknir hljóti IcePro-verðlaunin 2005 fyrir innleiðingu rafrænna skráninga bólusetninga frá heilsugæslustöðvum. Í tilkynningu segir að um sé að ræða fyrsta hluta verkefnis í samstarfi við íslenska hugbúnaðarfyrirtækið TM Software þar sem sjálfvirk skeytamiðlun er notuð til að koma bólusetningargögnum frá heilsugæslustöðvum í gagnagrunn Landlæknisembættisins. Um leið og bólusetning er skráð á hverjum stað flæða viðkomandi upplýsingar rafrænt til Landlæknisembættisins. Alls taka 13 heilsgæslustöðvar þátt í verkefninu. Útlit er fyrir að fyrsta hluta þessarar sjálfvirku skráningar muni ljúka á næstu mánuðum en stefnt er að því að innleiða kerfið á allar heilsugæslustöðvar og sjúkrahús í landinu. Jafnframt verður skoðað hvaða önnur gögn viðkomandi heilbrigðisstofnana megi senda til embættisins með sama hætti. Þetta er í níunda skipti sem IcePro-verðlaunin eru afhent fyrirtæki sem þykir skara fram úr í rafrænum viðskiptum, en í fyrra féllu þau Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni í skaut.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×