Viðskipti innlent

Icelandair pantar nýjar vélar

Icelandair hefur pantað tvær nýjar Boeing-787 Dreamliner þotur sem verða teknar í notkun á leiðum félagsins eftir fimm ár. Enn er verið vinna að lokahönnun þessarar flugvélagerðar sem spáð er miklum vinsældum, enda verður hærra til lofts og víðar til veggja en í nútímaþotum og þægindi því öllu meiri en farþegar hafa átt að venjast. Þær taka frá 220 upp í 260 farþega eftir innréttingum. Langdragi þeirra er á borð við langdraga langfleygustu breiðþotnanna á markaði núna. Áætlað er að fyrsti Dreamlinerinn fari í tilraunaflug eftir þrjú ár og að flugfélög fái fyrstu vélarnar afhentar ári síðar. Hannes Smárason, stjórnarformaður Icelandair, segir að nýju vélarnar muni henta vel því markmiði að geta veitt yfirburðaþjónustu á leiðum flugélagsins.  Icelandair gerði nýverið kaupsamning um tíu nýjar Boeing-737 vélar sem allar fara í leiguflug úti í heimi, einkum í Kína, en nýju vélarnar munu fljúga til og frá landinu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×