Viðskipti innlent

Vinningar DAS í peningum

Happdrætti DAS greiðir út í peningum til vinningshafa þó það sé óheimilt samkvæmt lögum. Framkvæmdastjóri Happdrættis DAS, Sigurður Ágúst Sigurðsson, segir löggiltan endurskoðanda á vegum dómsmálaráðuneytisins samþykkja uppgjör happdrættisins. Bein fjárgreiðsla sé því með vitund ráðuneytisins og hafi tíðkast lengi. Samkvæmt lögum hefur Happdrætti DAS einungis leyfi til að greiða út í bifreiðum, bifhjólum, bátum, búnaðarvélum, íbúðarhúsum, húsbúnaði, hljóðfærum, búpeningi, flugvélum og farmiða til ferðalaga. Happdrætti háskóla Íslands hefur einkaleyfi til peningagreiðslna til ársins 2019. Forstjóri Happdrættis Háskóla Íslands, Brynjólfur Sigurðsson, segir að hann hafi haft óljósan grun um að réttur Happdrættis háskólans væri brotinn. "Ég get ekki trúað því að löggiltur endurskoðandi sem horfir á lögin segi allt í lagi að greiða vinninga út í peningum," segir Brynjólfur. Sigurður segir að tíðkast hafi að biðja vinningshafa um nótu áður en vinningar séu greiddir út. Vinningshafi sem fái tugi milljóna í íbúðavinning sé ekki skuldbundinn til að kaupa íbúð heldur geti til dæmis nýtt upphæðina til að greiða niður eign sem hann eigi þegar. Geti vinningshafi ekki sýnt nótu komi það ekki í veg fyrir að vinningur sé greiddur út. Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að vinningshafi sem hlaut ferðavinning hafi fengið upphæðina greidda inn á reikning sinn án allra kvaða. Þess hafi þó verið getið að ætti hann greiðslukvittun fyrir utanlandsferð kæmi sér vel að fá hana senda. Brynjólfur segir Happdrætti háskólans greiða tuttugu prósent af hagnaði eða um 110 milljónir á ári vegna einkaleyfis á peningagreiðslum. "Okkur finnst að yfirvöld ættu að sjá til þess að lögum sé framfylgt," segir Brynjólfur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×