Viðskipti innlent

Skipafélagsbréf í arð

Til greina kemur að hluthafar Burðaráss fái bréf í Eimskipafélaginu í arð þegar félagið verður skráð á markað. Þetta kom fram í ræðu Björgólfs Thors Björgólfssonar, stjórnarformanns Burðaráss í ræðu á aðalfundi félagsins. Eimskipafélagið er að fullu í eigu Burðaráss. Björgólfur segir að slík ráðstöfun myndi stuðla að meiri dreifingu hlutafjár og betri verðmyndun á bréfum skipafélagsins á markaði eftir skráningu. Yfirlýst stefna eiganda Eimskipafélagsins er að skrá félagið á markað. Burðarás skilaði methagnaði á síðasta ári og hrinti í framkvæmd nýrri stefnu í fjárfestingum með áherslu á erlendar fjárfestingar. Félagið hefur bæði horft til skammtímafjárfestingar eins og í breska bankanum Singer and Friedlander og langtímafjárfestingar svo sem í sænska sjóðnum Carnegie. Björgólfur varaði við því að velgengni í efnahagslífinu slævði vitund manna. "Enn er ríkisrekstur alltof umfangsmikill hér á landi og eftirlitskúltúrinn hreiðrar um sig og sáir í huga almennings vantrausti á atvinnulífið," sagði Björgólfur Thor. Ein breyting varð á stjórn Burðaráss. Þór Kristjánsson fór úr stjórninni og inn í hans stað kom Kristín Jóhannesdóttir og sitja nú tvær konur í fimm manna stjórn Burðaráss.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×