Viðskipti innlent

3 milljarða hagnaður Samherja

Hagnaður Samherja var 2.914 milljónir króna á sl. ári samanborið við 1.067 milljóna hagnað árið áður samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2004 sem stjórnin samþykkti á stjórnarfundi sínum í dag. Ársreikningur Samherja hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess, Oddeyrar ehf., Snæfugls ehf., CR Cuxhavener Reederei GmbH í Þýskalandi, Onward Fishing Company Ltd. í Bretlandi Seagold Ltd. í Bretlandi og Fjárfestingafélagsins Krossaness hf. Rekstrartekjur samstæðunnar námu 16.760 milljónum króna og jukust um ríflega 35% frá árinu áður. Rekstargjöld ársins voru 14.494 milljónir króna og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 2.266 milljónir króna. Afskriftir voru 1.380 milljónir króna en þar af nam sérstök niðurfærsla vegna skipa 124 milljónum króna. Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 1.140 milljónir króna. Hlutdeild í hagnaði hlutdeildarfélaga nam kr. 1.212 milljónum, hagnaður fyrir tekjuskatt var 3.238 milljónir króna og hagnaður eftir tekjuskatt og hlutdeild minnihluta nam 2.914 milljónum króna eins og áður segir. Heildareignir samstæðunnar voru í árslok 26,8 milljarðar króna en þar af voru fastafjármunir 20,1 milljarður. Skuldir félagsins námu 15 milljörðum króna, eigið fé var 11,6 milljarðar og eiginfjárhlutfall 43%. Nettóskuldir námu 8.2 milljörðum króna í árslok. Veltufjárhlutfall var í árslok 1,12.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×