Viðskipti innlent

Stór hluthafi í KB og Íslandsbanka

Nýir eigendur eru komnir að þriðjungshlut í Olíufélaginu og með því eignast Landsbankinn dágóðan hlut í KB banka. Þar með er Landsbankinn óbeint stór hluthafi í báðum samkeppnisbönkunum, KB banka og Íslandsbanka. Aðaleigendur Eimskips eignast við þessi viðskipti einnig verulegan óbeinan hlut í Samskipum. Fjármálaspekingar segja stríðsátök á hlutabréfamarkaði blasa við.  Það var fjárfestingarfélagið Grettir, sem er að mestu leyti í eigu Sunds - en það eru erfingjar Óla Kr. Sigurðssonar í Olís sem eiga það -, Tryggingamiðstöðin og Landsbankinn sem keyptu 34,02% hlut í Keri, sem á Olíufélagið eins og það leggur sig. Auk þess keypti félagið liðlega 4% hlut í Eglu sem er annar stærsti hluthafinn í KB-banka. Kristján Loftsson, stjórnarformaður Kers, sagðist í samtali við Stöð 2 ekki sáttur við þau vinnubrögð sem viðhöfð voru við viðskiptin. Forkaupsréttur hafi verið að bréfum í Keri en ekki hafi verið frágengið hvernig reikna skyldi verðmæti hans, lægi ekkert tilboð fyrir. Hann segir að svona myndi hann ekki vinna sjálfur. Með þessum viðskiptum á Landsbankinn aukinn hlut í KB-banka, fyrir utan að eiga stóran hlut í Íslandsbanka. Þá eignast aðaleigendur Eimskips verulegan óbeinan hlut í Samskipum einnig. Fjármálaspekingar segjast sjá stríðsátök blasa við á hlutabréfamarkaði. Þá hafa stjórnir Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og Sjóvíkur náð samkomulagi um sameiningu fyrirtækjanna og verður fyrirtækið rekið undir nafni SH. Áherslan í framtíðinni verður á Bandaríkjamarkað og Asíu. Það var yfirlýst stefna eigenda Landsbankans, með kaupum á hlut í SH á sínum tíma, að sameina fyrirtækið öðrum og er því marki náð núna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×