Sjálfs er höndin hollust 11. mars 2005 00:01 Hvernig er rétt að skipta 63 þingsætum milli framboðslista að loknum kosningum? Spurningin svarar sér sjálf: skiptingin ætti að vera í sem nánustu samræmi við hlutfallsskiptingu atkvæðamagns milli listanna, þannig að listi með t.d. þriðjung atkvæða fengi þá þriðjung þingsæta í sinn hlut eða því sem næst. Þetta sjónarmið átti á brattann að sækja í bændasamfélagi fyrri tíðar, en nú er öldin önnur: jafnaðarsjónarmiðið nýtur nú almennrar viðurkenningar, enda hafa allar breytingar á kosningalöggjöfinni undangengna áratugi miðað til þess að þoka ástandinu nær fullum jöfnuði án þess þó að ná í mark. Menn nota tvær meginaðferðir til að skipta þingsætum milli flokka. Önnur dregur nafn sitt af franska stærðfræðingnum André Sainte-Laguë, og hún hefur þann kost, að hún tryggir jöfnuð milli kjósenda til langs tíma litið. Hún tryggir m.ö.o. fullt samræmi milli hlutfallskiptingar atkvæða og þingsæta til lengdar. Ef haldnar væru þúsund kosningar með svipaðri atkvæðaskiptingu og tiltekinn flokkur fengi þriðjung atkvæða að jafnaði í þeim öllum, þá fengi hann því sem næst nákvæmlega þriðjung þingsæta að meðaltali. Aðferð Sainte-Laguës er notuð að hluta við úthlutun þingsæta m.a. í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Hin aðferðin er kennd við belgíska lögfræðinginn Victor d’Hondt, og hún hefur þann galla, að hún getur leitt til ójafnaðar meðal kjósenda með því að hygla stórum flokkum á kostnað minni flokka. Stórir flokkar bera því jafnan nokkru hærra hlutfall þingsæta úr býtum skv. reglu d’Hondts en atkvæðamagn þeirra rís undir, og litlir flokkar fá að því skapi færri sæti í sinn hlut. Regla d’Hondts er notuð við úthlutun þingsæta m.a. í Belgíu, Finnlandi, Hollandi og hér heima. Þessar tvær úthlutunarreglur hafa að sönnu bæði kosti og galla hvor um sig, enda kjósa sumar þjóðir aðra regluna vitandi vits og aðrar hina. Jöfnuður í úthlutun þingsæta er æskilegur að flestra dómi, en önnur sjónarmið koma einnig til álita svo sem það, að margir smáflokkar kunna að kynda undir sundrungu. Ef allt væri eins og það ætti að vera, væru ákvarðanir um reglur um úthlutun þingsæta í höndum óvilhallra aðila - einhverra, sem hafa engan hag af niðurstöðunni. Þessu er þó ekki að heilsa. Alþingi setur landinu lög og þá einnig kosningalög, nema hvað, og laðast að þeirri úthlutunarreglu, sem ráðandi þingmeirihluti hefur mestan hag af. Þessi skipan hefur hamlað og tafið jöfnun atkvæðisréttar landsmanna. Eftir síðustu Alþingiskosningar komu 34 þingsæti í hlut ríkisstjórnarflokkanna eftir reglu d’Hondts, og 29 komu í hlut stjórnarandstöðuflokkanna. Hefði regla Sainte-Laguës verið notuð, hefði niðurstaðan orðið 32 þingsæti gegn 31, þar eð Frjálslyndi flokkurinn hefði þá fengið mann kjörinn í öllum kjördæmum og náð með því móti tveim þingsætum frá stjórnarflokkunum, einu frá hvorum. Þá væri þingstyrkur stjórnar og stjórnarandstöðu í nánara samræmi við atkvæðamagn þeirra á landsvísu en hann er nú. Áður fyrr ákvað Alþingi laun alþingismanna. Það þótti óheppilegt, og kalla menn þó ekki allt ömmu sína við Austurvöll, svo að launamálum þingmanna var þá vísað til Kjaradóms. Eftir þeirri reglu, að enginn getur dæmt um eigin sök, þyrfti með líku lagi að taka samningu úthlutunarreglna um þingsætaskipan úr höndum Alþingis og fela hana t.d. Kjaradómi eða Hæstarétti (eða Landsdómi!) til að girða fyrir hagsmunaárekstur. Slíkar hugmyndir eiga þó ekki upp á pallborðið eins og sakir standa. Við búum í samfélagi, þar sem sjálftaka hlunninda hefur færzt í vöxt, ef eitthvað er, þegar á allt er litið. Alþingi sker sjálft úr ágreiningi um kosningaúrslit, eins og ég rifjaði upp á þessum stað fyrir viku: stjórnarmeirihlutinn á Alþingi hafnaði kröfu Frjálslynda flokksins um endurtalningu, þegar einn frambjóðanda flokksins vantaði aðeins 13 atkvæði á landsvísu til að ná kjöri og fella einn stjórnarþingmanninn – og það í Reykjavík norður, þar sem ógildir kjörseðlar voru tvisvar sinnum fleiri en í Reykjavík suður með nokkurn veginn jafnmarga kjósendur. Útgerðarmenn skömmtuðu sér sjálfir yfirráð yfir fiskinum í sjónum, sameign þjóðarinnar: þeir sömdu lagatextann með eigin hendi. Menn hafa skipað sjálfa sig í bankastjórastöður án þess að blikna. Og svo var það kvikmyndamaðurinn, sem stofnaði Edduverðlaunin og fékk sjálfur - surprise, surprise! - fyrstu verðlaun. Vandinn er ekki bundinn við Alþingi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Þorvaldur Gylfason Mest lesið Halldór 28.12.2024 Halldór Veðurstofa Sjálfstæðisflokksins frestar fundi Daníel Hjörvar Guðmundsson Skoðun Ísland er ekki stjórntækt með verðtryggingu? Örn Karlsson Skoðun Ó Palestína Arnar Eggert Thoroddsen Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun „Þetta er algerlega galið“ Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Orkuverð og sæstrengir Anna Sofía Kristjánsdóttir Skoðun Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun Skilaboð hátíðarinnar Skúli S. Ólafsson Skoðun Enginn á að vera hryggur um jólin Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir Skoðun
Hvernig er rétt að skipta 63 þingsætum milli framboðslista að loknum kosningum? Spurningin svarar sér sjálf: skiptingin ætti að vera í sem nánustu samræmi við hlutfallsskiptingu atkvæðamagns milli listanna, þannig að listi með t.d. þriðjung atkvæða fengi þá þriðjung þingsæta í sinn hlut eða því sem næst. Þetta sjónarmið átti á brattann að sækja í bændasamfélagi fyrri tíðar, en nú er öldin önnur: jafnaðarsjónarmiðið nýtur nú almennrar viðurkenningar, enda hafa allar breytingar á kosningalöggjöfinni undangengna áratugi miðað til þess að þoka ástandinu nær fullum jöfnuði án þess þó að ná í mark. Menn nota tvær meginaðferðir til að skipta þingsætum milli flokka. Önnur dregur nafn sitt af franska stærðfræðingnum André Sainte-Laguë, og hún hefur þann kost, að hún tryggir jöfnuð milli kjósenda til langs tíma litið. Hún tryggir m.ö.o. fullt samræmi milli hlutfallskiptingar atkvæða og þingsæta til lengdar. Ef haldnar væru þúsund kosningar með svipaðri atkvæðaskiptingu og tiltekinn flokkur fengi þriðjung atkvæða að jafnaði í þeim öllum, þá fengi hann því sem næst nákvæmlega þriðjung þingsæta að meðaltali. Aðferð Sainte-Laguës er notuð að hluta við úthlutun þingsæta m.a. í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Hin aðferðin er kennd við belgíska lögfræðinginn Victor d’Hondt, og hún hefur þann galla, að hún getur leitt til ójafnaðar meðal kjósenda með því að hygla stórum flokkum á kostnað minni flokka. Stórir flokkar bera því jafnan nokkru hærra hlutfall þingsæta úr býtum skv. reglu d’Hondts en atkvæðamagn þeirra rís undir, og litlir flokkar fá að því skapi færri sæti í sinn hlut. Regla d’Hondts er notuð við úthlutun þingsæta m.a. í Belgíu, Finnlandi, Hollandi og hér heima. Þessar tvær úthlutunarreglur hafa að sönnu bæði kosti og galla hvor um sig, enda kjósa sumar þjóðir aðra regluna vitandi vits og aðrar hina. Jöfnuður í úthlutun þingsæta er æskilegur að flestra dómi, en önnur sjónarmið koma einnig til álita svo sem það, að margir smáflokkar kunna að kynda undir sundrungu. Ef allt væri eins og það ætti að vera, væru ákvarðanir um reglur um úthlutun þingsæta í höndum óvilhallra aðila - einhverra, sem hafa engan hag af niðurstöðunni. Þessu er þó ekki að heilsa. Alþingi setur landinu lög og þá einnig kosningalög, nema hvað, og laðast að þeirri úthlutunarreglu, sem ráðandi þingmeirihluti hefur mestan hag af. Þessi skipan hefur hamlað og tafið jöfnun atkvæðisréttar landsmanna. Eftir síðustu Alþingiskosningar komu 34 þingsæti í hlut ríkisstjórnarflokkanna eftir reglu d’Hondts, og 29 komu í hlut stjórnarandstöðuflokkanna. Hefði regla Sainte-Laguës verið notuð, hefði niðurstaðan orðið 32 þingsæti gegn 31, þar eð Frjálslyndi flokkurinn hefði þá fengið mann kjörinn í öllum kjördæmum og náð með því móti tveim þingsætum frá stjórnarflokkunum, einu frá hvorum. Þá væri þingstyrkur stjórnar og stjórnarandstöðu í nánara samræmi við atkvæðamagn þeirra á landsvísu en hann er nú. Áður fyrr ákvað Alþingi laun alþingismanna. Það þótti óheppilegt, og kalla menn þó ekki allt ömmu sína við Austurvöll, svo að launamálum þingmanna var þá vísað til Kjaradóms. Eftir þeirri reglu, að enginn getur dæmt um eigin sök, þyrfti með líku lagi að taka samningu úthlutunarreglna um þingsætaskipan úr höndum Alþingis og fela hana t.d. Kjaradómi eða Hæstarétti (eða Landsdómi!) til að girða fyrir hagsmunaárekstur. Slíkar hugmyndir eiga þó ekki upp á pallborðið eins og sakir standa. Við búum í samfélagi, þar sem sjálftaka hlunninda hefur færzt í vöxt, ef eitthvað er, þegar á allt er litið. Alþingi sker sjálft úr ágreiningi um kosningaúrslit, eins og ég rifjaði upp á þessum stað fyrir viku: stjórnarmeirihlutinn á Alþingi hafnaði kröfu Frjálslynda flokksins um endurtalningu, þegar einn frambjóðanda flokksins vantaði aðeins 13 atkvæði á landsvísu til að ná kjöri og fella einn stjórnarþingmanninn – og það í Reykjavík norður, þar sem ógildir kjörseðlar voru tvisvar sinnum fleiri en í Reykjavík suður með nokkurn veginn jafnmarga kjósendur. Útgerðarmenn skömmtuðu sér sjálfir yfirráð yfir fiskinum í sjónum, sameign þjóðarinnar: þeir sömdu lagatextann með eigin hendi. Menn hafa skipað sjálfa sig í bankastjórastöður án þess að blikna. Og svo var það kvikmyndamaðurinn, sem stofnaði Edduverðlaunin og fékk sjálfur - surprise, surprise! - fyrstu verðlaun. Vandinn er ekki bundinn við Alþingi.
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun
Enginn á að vera hryggur um jólin Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir Skoðun
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun
Enginn á að vera hryggur um jólin Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir Skoðun