Lífið

Lítið en háreist

Guðni Gíslason innanhússarkitekt hefur löngum verið hrifinn af einu húsi í Hafnarfirði öðrum fremur. "Hverfisgata 3 í Hafnarfirði er hús sem hefur setið lengi í mér. Mér finnst reyndar erfitt að velja eitt hús öðrum fremur en það er þá helst þetta. Húsið er byggt árið 1925, stendur á áberandi stað og hefur verið vel við haldið. Þetta er timburhús en afar glæsilegt og svolítið háreist þó lítið sé, eflaust ekki meira en 50 fermetrar að grunnfleti, með óvenju háu risi og bröttum kvistum. Þetta er prívat hús einhvers og ég veit ekki hver býr þar. Útihurðin er einkar glæsileg og aðkoman flott en mér finnst inngangur í hús alltaf skipta mjög miklu máli. Ég hef búið í Hafnarfirði næstum alla ævi og þetta hús hefur alltaf vakið athygli mína." Guðni er ritstjóri tímaritsins Ljóss sem inniheldur fjölbreytt efni sem tengist lýsingu og því liggur beinast við að spyrja hann hvort lýsingin hafi áhrif á fagurfræðilegt mat hans á húsum. "Það eru mjög fá hús sem mér finnast vera fallega lýst því ég vil hafa hús lítið lýst að utan og smekklega og þannig að þau trufli ekki aðra. Mér finnst fallegast þegar húsin glóa, svona eins og þegar kvöldsólin skín á þau. Þetta hús Hverfisgötu 3 hefur mér hins vegar aldrei þótt þurfa lýsingu því ég hef oft séð það í náttúrulegri kvöldlýsingu og þá er það einstaklega fallegt."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×