Fastir pennar

Lausbeizlað lánsfé

Hjól atvinnulífsins snúast nú hratt og vel, og samt lætur verðbólgan - góðkunningi íslenzks efnahagslífs frá gamalli tíð - ekki enn á sér kræla, ekki verulega. Gríðarlegar lántökur erlendis voru hér áður fyrr næsta óskeikul ávísun á þenslu og verðbólgu, en svo er þó ekki lengur. Svo er einkum fyrir að þakka frívæðingu efnahagslífsins undangengin ár, gerbreytingu, sem hefur m.a. liðkað til um innflutning vinnuafls frá útlöndum. Framkvæmdirnar við Kárahnjúka leiða því ekki til þess nú, að húsbyggjendur þurfi að bíða vikum saman eða mánuðum eftir óstundvísum iðnaðarmönnum, það er liðin tíð. Tölurnar segja söguna: síðan 1986 hafa rösklega 25 þúsund erlendir ríkisborgarar flutzt til Íslands skv. upplýsingum Hagstofu Íslands, á meðan rösklega 15 þúsund erlendir þegnar hafa flutzt á brott héðan. Fjöldi aðfluttra útlendinga umfram brottflutta hefur því verið um tíu þúsund þessi ár. Á sama tíma hafa 48 þúsund íslenzkir ríkisborgarar flutzt úr landi, og 41 þúsund hafa flutzt heim, svo að fjöldi brottfluttra Íslendinga umfram aðflutta hefur verið um sjö þúsund. Hlutdeild innflutts vinnuafls í mannaflanum hefur því aukizt hröðum skrefum að undanförnu. Þessi þróun hefur breytt ásjónu landsins með því að fjölga þjóðunum, sem byggja landið, og hún hefur um leið létt þrýstingi af vinnumarkaði og hamlað verðbólgu með því móti. Hlutfall útlendinga (þ.e. íbúa fæddra erlendis) í mannfjöldanum hér heima hækkaði úr 3% 1986 í tæp 7% 2003. Þetta hlutfall hækkaði sömu ár úr 2% í 5% í Danmörku til samanburðar og stóð í stað í Svíþjóð (5% bæði árin). Sviss er annar handleggur: þar standa allar gáttir opnar, svo að útlendingum fjölgaði úr 14% af mannfjöldanum 1986 í 20% 2003. Hér höfum við hluta skýringarinnar á því, hvers vegna gamla lögmálið um lausbeizlað innstreymi lánsfjár og aukna verðbólgu er dottið úr sambandi. En hvaða afleiðingar hefur skuldasöfnun Íslendinga erlendis að öðru leyti? Lítum sem snöggvast yfir landslagið. Mikill viðskiptahalli hefur einkennt efnahagslíf landsins nær allan lýðveldistímann. Þetta var eðlilegt framan af. Gróandi þjóðarbúskapur þarf á miklum innflutningi að halda til ýmissa þarfa, jafnvel umfram útflutning, og þá þarf að brúa bilið með erlendum lántökum eða með því að bjóða útlendingum innlend fyrirtæki til kaups. Við tókum fyrri kostinn - ólíkt Eistum, til dæmis - og höfum gengið miklu lengra í lántökum en góðu hófi gegnir. Skuldir Íslendinga við útlönd eru nú orðnar of miklar og skuldabyrðin of þung, enda þótt vextir séu nú lágir í útlöndum. Þar að auki höfum við ekki farið alls kostar vel með allt lánsféð, nema hvað, heldur varið því til neyzlu og óarðbærrar fjárfestingar í stórum stíl, sumpartinn að undirlagi fjölskiptinna stjórnmálamanna. Erlendar skuldir þjóðarinnar hafa rokið upp úr öllu valdi síðustu ár: skuldirnar jukust úr 60%-70% af landsframleiðslu 1993-1999 upp í 200% í árslok 2004 (þetta er ekki prentvilla). Það er því engin furða, að kaupmáttur almennings hafi tekið kipp. Erlendar eignir hafa að vísu aukizt nokkuð á móti skuldunum, en ekki nóg: hrein staða þjóðarbúsins hefur veikzt til muna. Nú ríður á því sem aldrei fyrr, að fjárfestingin, sem lánsféð er notað til, beri arð, þ.e. arð umfram vexti. Vextir á erlendum fjármálamörkuðum hafa verið lágir undangengin ár og hafa nú tekið að hækka aftur, ekki sízt vegna ótæpilegs ríkishallarekstrar í Bandaríkjunum. Næstum 90% af erlendum skuldum Íslendinga eru skráðar í erlendri mynt, og vaxtagreiðslur af þeim munu hækka um nálega 1% af landsframleiðslu fyrir hvert prósentustig þeirrar vaxtahækkunar, sem hafin er. Hækkun heimsvaxta um eitt prósentustig eykur m.ö.o. viðskiptahallann hér heima um 1% af landsframleiðslu að öðru jöfnu, eins og Ásgeir Jónsson lektor hefur bent á. Gengi krónunnar myndi þá trúlega falla, kannski með brauki og bramli, og skuldabyrðin myndi þyngjast enn frekar. Á móti kæmu meiri útflutningur og minni innflutningur, þar eð gengisfall ýtir undir útflutning og hamlar innflutningi með því að hækka verð á erlendri vöru og þjónustu. Heildaráhrif vaxtahækkunar erlendis og meðfylgjandi gengisfalls krónunnar á erlenda stöðu þjóðarbúsins munu fara eftir því, hversu mikið gengið lækkar, þegar heimsvextirnir hækka; vandi er um slíkt að spá.





×