Sport

Ekkert aprílgabb á HSÍ

Öll stóru íþróttasamböndin voru með létt og skemmtileg aprílgöbb nema Handknattleikssamband Íslands, HSÍ. Fréttin sem þeir birtu reyndist ekki vera neitt aprílgabb. Það þarf samt ekki að koma á óvart að margir hafa talið fréttina vera lélegt aprílgabb því í henni segir að Viggó Sigurðsson landsliðsþjálfari muni halda fyrirlestur á ráðstefnu EHF fyrir dómara og eftirlitsmenn. Fyrirlesturinn á að vera um hvernig hægt sé að bæta samskipti dómara og þjálfara. Viggó hefur verið iðinn við að gagnrýna dómara í gegnum tíðina og fór síðast mikinn á HM í Túnis þar sem hann vandaði alþjóðlegum dómurum ekki kveðjurnar. "Það er rétt að segja að ég sé að fara að lesa dómurum pistilinn með fullu leyfi þeirra," sagði Viggó léttur við Fréttablaðið í gær en fyrirlesturinn mun fara fram í Vínarborg um miðjan mánuðinn. "Ég var beðinn um að taka þetta að mér og mér fannst það vera lítið mál." Fyrirlesturinn hjá Viggó verður eflaust beinskeyttur enda hefur maðurinn sterkar skoðanir á málefninu og gætu margir haldið að hann myndi tala um málið í marga klukkutíma en svo verður nú ekki. "Ég hef mínar skoðanir á málunum og þetta er ágætis tækifæri til þess að koma þeim á framfæri. Ég er ekki búinn að semja erindið en mér detta strax nokkrir hlutir í hug sem mig langar að ræða," sagði Viggó Sigurðsson og bætti við að það væri fyrir löngu búið að negla þetta og því væri ekki um neitt aprílgabb að ræða af hálfu HSÍ þótt margir hafi talið svo vera.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×