Viðskipti innlent

Ólíklegt til að skila hæsta verði

MYND/Páll
Fyrirkomulagið við sölu Landssímans er við fyrstu sýn fremur ógegnsætt og því ólíklegt til að skila núverandi eigendum hæsta mögulega verði, að mati greiningardeildar Landsbankans. Þetta á bæði við um þau skilyrði sem sett eru um samsetningu og svonefnda nægjanlega reynslu fjárfestahópsins, og eins um að mat verði lagt á hugmyndir og framtíðarsýn fjárfestanna. Þá segir greiningardeild Landsbankans að það komi á óvart að almenningi skuli ekki boðið að taka þátt í einkavæðingunni milliliðalaust, eins og gert var þegar ríkisbankarnir voru seldir. Ef skoðað er nánar hvað greiningardeildin á við þarna þá geta nýir kaupendur hagnast verulega á hagræðingu fram til ársloka árið 2007 að þeir verða að setja 30 prósent hlutafjár á almennan markað. Þá væri fyrirtækið orðið verðmætara en nú og hlutaféð þar með orðið dýrara en núna. Með ógegnsæi í fyrirkomulagi sölunnar á deildin væntanlega við að með því móti verði seljendum auðveldað að handvelja kaupendur, ef hugur þess stæði til þess, sem aftur gæti þýtt að ekki fengist eins hátt verð og ella. Stjórnvöld reikna með að geta selt Landssímann á allt að 60 milljarða króna, þótt engin tala sé formlega gefin upp.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×