Einn markaður - ein lög 13. október 2005 19:01 Þegar þetta er ritað er þverpólitísk fjölmiðlanefnd á vegum menntamálaráðherra að skila af sér viðamikilli skýrslu um fjölmiðlaumhverfi á Íslandi og tillögum að löggjöf um eignarhald og starfsemi fjölmiðla. Nefndin leggur þessar tillögur fram til málefnalegrar umræðu í vor og sumar og leggur til að frumvarp til laga verði ekki samið og lagt fram fyrr en í haust. Svona á að standa að málum, þegar um er að ræða viðkvæm málefni, sem geta valdið víðtækum og djúpstæðum ágreiningi. Það eina sem á vantar hér er að menntamálaráðherra sættist á, að frumvarp það til útvarpslaga, sem hún hefur nýverið lagt fram, fari til umfjöllunar í sömu þingnefnd og þessi skýrsla og verði afgreidd samhliða eða sem hluti af væntanlegu fjölmiðlafrumvarpi. Alþingi á að líta á fjölmiðlamarkaðinn sem eina heild og setja lög, sem ná yfir hann allan, en ekki setja löggjöfina í bútum. Frumvarpi menntamálaráðherra um ríkisútvarpið er í mörgu ábótavant. Fyrst þarf að skilgreina hvert sé það menningarhlutverk, sem útheimti að ríkið reki hér fjölmiðil, og síðan að sjá RÚV fyrir tekjustofnum í samræmi við það hlutverk. Nefskattur er engin lausn sem staðgengill afnotagjalds. Taka verður ákvörðun um aðkomu ríkisútvarpsins að auglýsingamarkaði og kostun á vegum fyrirtækja. Allt þarf þetta að skoða með hliðsjón af hlutverki fjölmiðla í einkaeigu og þeirri fjölbreytni í fjölmiðlun, sem þjóðin á fullan rétt á. Ef rétt er að verki staðið er engin ástæða til að ætla annað en að um slíka löggjöf geti náðst víðtæk samstaða, eins og við, sem snerumst gegn fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir ári, héldum alltaf fram. Engin ástæða er til að ætla að stjórnarflokkarnir vilji nú enn einu sinni ganga í gegnum hatröm átök á þessu sviði. Af því tilefni er rétt að rifja aðeins upp gang mála í sambandi við það frumvarp. Fyrir tæpu ári skilaði nefnd á vegum menntamálaráðuneytis skýrslu um fjölmiðlaumhverfið, sem hlaut (að vísu að nokkru leyti óverðskuldað) lof. En í stað þess að gera hana að umræðugrundvelli fyrir löggjöf á þessu sviði, tók forsætisráðherra hana úr umsjá menntamálaráðherra og hélt henni leyndri vikum saman. Þess í stað fékk hann einn af höfundum skýrslunnar, Davíð Þór Björgvinsson, til að semja frumvarp á sínum vegum, sem talið var "rúmast innan" ramma skýrslunnar, án þess þó endilega að taka mið af efni hennar. Frumvarpið var síðan lagt fram á vegum forsætisráðherra, sem að öllum líkindum var þá þegar sjúkur maður. Tveir virtir erlendir sérfræðingar í alþjóðalögum töldu frumvarpið brjóta í bága við alþjóðasamþykktir sem Ísland hafði undirgengist. Jakob Möller hæstaréttarlögmaður taldi það ganga gegn öllum mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar - nema kannski ákvæðinu um trúfrelsi. Aðrir mikilsvirtir lögfræðingar eins og Sigurður Líndal, Ragnar Aðalsteinsson og Jónatan Þórmundsson héldu fram svipuðum sjónarmiðum. Andstaðan var af tvennum toga. Annars vegar voru þeir, sem töldu engin lög þurfa að setja um starfsemi fjölmiðla; samkeppnislög dygðu til að marka þeim bás. Hins vegar vorum við, sem seinna sameinuðum krafta okkar í Þjóðarhreyfingunni, sem töldum að löggjafar væri þörf, en hún yrði að ná yfir fjölmiðlasviðið allt, líka þá ríkisfjölmiðla, sem stjórnarflokkarnir létu sér sæma að ráðskast með nánast eins og einkaeign, og mætti ekki beinast eingöngu gegn einu fyrirtæki, Norðurljósum, dótturfyrirtæki Baugs. Á þeim grundvelli ætti að vera unnt að ná víðtækri sátt um löggjöf af þessu tagi. Við setningu slíkrar löggjafar yrði það að vera hafið yfir allan efa að hún rúmaðist innan ramma mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar. Öll mótmæli voru virt að vettugi og málið keyrt í gegn um alþingi með naumasta hugsanlegum meirihluta og öndvert sjónarmiðum mikils meirihluta þjóðarinnar eins og þau birtust í skoðanakönnunum. Nýr kafli hófst svo þegar forsetinn neitaði að undirskrifa lögin. Meirihluti Alþingis, sem kallað hafði verið saman til þess eins að ákvarða nánar um framkvæmd þjóðaratkvæðis samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar, var látinn samþykkja "brellufrumvarp", sem í orði kveðnu afnam lög þau, sem forseti hafði neitað að undirrita, en lögfesti aftur flest ákvæði þeirra með breyttum gildistíma fram á næsta kjörtímabil og var látið í veðri vaka að almennar þingkosningar árið 2007 gætu komið í stað ákvæðis 26. gr. stjórnarskrárinnar um þjóðaratkvæði um einstakt mál! Að lokum varð ríkisstjórnin að heykjast á þessu og afnam lögin með öllu, og sveik þjóðina um þjóðaratkvæðið. Þessi hitamál eru nú að baki. Fagna ber þeim ummælum menntamálaráðherra á fimmtudaginn að löggjöf að hausti skuli í einu og öllu taka mið af tillögum nefndarinnar, enda engin þjóðarsátt, ef nú verður sest niður við að tína einstök atriði út úr tillögum nefndarinnar og semja lög, sem "rúmast innan ramma skýrslunnar". Það sem á vantar er að menntamálaráðherra fallist á að frumvarpið um ríkisútvarpið verði afgreitt samhliða væntanlegu fjölmiðlafrumvarpi eða sem hluti af því. Enga brýna nauðsyn ber til að hraða afgreiðslu þess frumvarps og raunar skynsamlegast að leyfa öldunum eftir fréttastofufárið að lægja líka áður en það er tekið fyrir. Fjölmiðlamarkaðurinn er einn - og því eðlilegast að um hann gildi ein lög. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Ólafur Hannibalsson Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun
Þegar þetta er ritað er þverpólitísk fjölmiðlanefnd á vegum menntamálaráðherra að skila af sér viðamikilli skýrslu um fjölmiðlaumhverfi á Íslandi og tillögum að löggjöf um eignarhald og starfsemi fjölmiðla. Nefndin leggur þessar tillögur fram til málefnalegrar umræðu í vor og sumar og leggur til að frumvarp til laga verði ekki samið og lagt fram fyrr en í haust. Svona á að standa að málum, þegar um er að ræða viðkvæm málefni, sem geta valdið víðtækum og djúpstæðum ágreiningi. Það eina sem á vantar hér er að menntamálaráðherra sættist á, að frumvarp það til útvarpslaga, sem hún hefur nýverið lagt fram, fari til umfjöllunar í sömu þingnefnd og þessi skýrsla og verði afgreidd samhliða eða sem hluti af væntanlegu fjölmiðlafrumvarpi. Alþingi á að líta á fjölmiðlamarkaðinn sem eina heild og setja lög, sem ná yfir hann allan, en ekki setja löggjöfina í bútum. Frumvarpi menntamálaráðherra um ríkisútvarpið er í mörgu ábótavant. Fyrst þarf að skilgreina hvert sé það menningarhlutverk, sem útheimti að ríkið reki hér fjölmiðil, og síðan að sjá RÚV fyrir tekjustofnum í samræmi við það hlutverk. Nefskattur er engin lausn sem staðgengill afnotagjalds. Taka verður ákvörðun um aðkomu ríkisútvarpsins að auglýsingamarkaði og kostun á vegum fyrirtækja. Allt þarf þetta að skoða með hliðsjón af hlutverki fjölmiðla í einkaeigu og þeirri fjölbreytni í fjölmiðlun, sem þjóðin á fullan rétt á. Ef rétt er að verki staðið er engin ástæða til að ætla annað en að um slíka löggjöf geti náðst víðtæk samstaða, eins og við, sem snerumst gegn fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir ári, héldum alltaf fram. Engin ástæða er til að ætla að stjórnarflokkarnir vilji nú enn einu sinni ganga í gegnum hatröm átök á þessu sviði. Af því tilefni er rétt að rifja aðeins upp gang mála í sambandi við það frumvarp. Fyrir tæpu ári skilaði nefnd á vegum menntamálaráðuneytis skýrslu um fjölmiðlaumhverfið, sem hlaut (að vísu að nokkru leyti óverðskuldað) lof. En í stað þess að gera hana að umræðugrundvelli fyrir löggjöf á þessu sviði, tók forsætisráðherra hana úr umsjá menntamálaráðherra og hélt henni leyndri vikum saman. Þess í stað fékk hann einn af höfundum skýrslunnar, Davíð Þór Björgvinsson, til að semja frumvarp á sínum vegum, sem talið var "rúmast innan" ramma skýrslunnar, án þess þó endilega að taka mið af efni hennar. Frumvarpið var síðan lagt fram á vegum forsætisráðherra, sem að öllum líkindum var þá þegar sjúkur maður. Tveir virtir erlendir sérfræðingar í alþjóðalögum töldu frumvarpið brjóta í bága við alþjóðasamþykktir sem Ísland hafði undirgengist. Jakob Möller hæstaréttarlögmaður taldi það ganga gegn öllum mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar - nema kannski ákvæðinu um trúfrelsi. Aðrir mikilsvirtir lögfræðingar eins og Sigurður Líndal, Ragnar Aðalsteinsson og Jónatan Þórmundsson héldu fram svipuðum sjónarmiðum. Andstaðan var af tvennum toga. Annars vegar voru þeir, sem töldu engin lög þurfa að setja um starfsemi fjölmiðla; samkeppnislög dygðu til að marka þeim bás. Hins vegar vorum við, sem seinna sameinuðum krafta okkar í Þjóðarhreyfingunni, sem töldum að löggjafar væri þörf, en hún yrði að ná yfir fjölmiðlasviðið allt, líka þá ríkisfjölmiðla, sem stjórnarflokkarnir létu sér sæma að ráðskast með nánast eins og einkaeign, og mætti ekki beinast eingöngu gegn einu fyrirtæki, Norðurljósum, dótturfyrirtæki Baugs. Á þeim grundvelli ætti að vera unnt að ná víðtækri sátt um löggjöf af þessu tagi. Við setningu slíkrar löggjafar yrði það að vera hafið yfir allan efa að hún rúmaðist innan ramma mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar. Öll mótmæli voru virt að vettugi og málið keyrt í gegn um alþingi með naumasta hugsanlegum meirihluta og öndvert sjónarmiðum mikils meirihluta þjóðarinnar eins og þau birtust í skoðanakönnunum. Nýr kafli hófst svo þegar forsetinn neitaði að undirskrifa lögin. Meirihluti Alþingis, sem kallað hafði verið saman til þess eins að ákvarða nánar um framkvæmd þjóðaratkvæðis samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar, var látinn samþykkja "brellufrumvarp", sem í orði kveðnu afnam lög þau, sem forseti hafði neitað að undirrita, en lögfesti aftur flest ákvæði þeirra með breyttum gildistíma fram á næsta kjörtímabil og var látið í veðri vaka að almennar þingkosningar árið 2007 gætu komið í stað ákvæðis 26. gr. stjórnarskrárinnar um þjóðaratkvæði um einstakt mál! Að lokum varð ríkisstjórnin að heykjast á þessu og afnam lögin með öllu, og sveik þjóðina um þjóðaratkvæðið. Þessi hitamál eru nú að baki. Fagna ber þeim ummælum menntamálaráðherra á fimmtudaginn að löggjöf að hausti skuli í einu og öllu taka mið af tillögum nefndarinnar, enda engin þjóðarsátt, ef nú verður sest niður við að tína einstök atriði út úr tillögum nefndarinnar og semja lög, sem "rúmast innan ramma skýrslunnar". Það sem á vantar er að menntamálaráðherra fallist á að frumvarpið um ríkisútvarpið verði afgreitt samhliða væntanlegu fjölmiðlafrumvarpi eða sem hluti af því. Enga brýna nauðsyn ber til að hraða afgreiðslu þess frumvarps og raunar skynsamlegast að leyfa öldunum eftir fréttastofufárið að lægja líka áður en það er tekið fyrir. Fjölmiðlamarkaðurinn er einn - og því eðlilegast að um hann gildi ein lög.