Fastir pennar

Þau sýnast einmitt eiga við

Umræðan um einkavæðingu Símans er komin inn á óvenjulegar brautir. Á Alþingi er hart tekist á um hvort málið skuli rætt, einkum vegna þess að menn greinir á um hvort umræðugrundvöllurinn sé sögusagnir og dylgjur og þar með sé málið óþingtækt eða hvort meirihlutinn með liðstyrk þingforseta séu að koma sér hjá umræðu. Samfylkingarþingmenn tala um ritskoðun en þingmenn stjórnarinnar, einkum framsóknarmanna tala um persónulega aðför og dylgjur í garð forsætisráðherra. Hneykslun og vandlæting gengur á báða bóga. Á meðan hinir kjörnu fulltrúar fara með ræður sínar og leika sig inn í staðnaðar rullur stjórnmálahandritsins sem nú er í umferð - en þar eru í aðalatriðum tvö eintals hlutverk, með stjórn og móti stjórn - fjarar þolinmæði almennings út og leiðindin og sorgin grípa um sig. Leiðindi yfir fullkomnum fyrirsjáanleika staglsins, sorg vegna sjálfheldu mikilvægra mála og nagandi tilfinningar um að einhvers staðar á bak við stjórnsýsluathafnir leynist einhvers konar sérhagsmunasjónarmið. Ekki sérhagsmunasjónarmið kjördæmapotsins sem eru gamalkunn og gagnsæ. Halldór E. Sigurðsson heitinn, fyrrum ráðherra Framsóknarflokksins og Borgnesingur sagði mér eitt sinn frá því að í umræðum um Borgarfjarðarbrúna á Alþingi hafi Reykjavíkurþingmaðurinn Albert Guðmundsson, komið í ræðustól og sagt að sérhagsmunasjónarmið Halldórs E. réðu ferðinni við ákvörðunartöku um brúarsmíðina og nær væri að setja fé í vegagerð í höfuðborginni. (Kunnugleg umræða!) Halldór kvaðst hafa farið upp til að andmæla þessu og að ekki kæmi til greina að fresta framkvæmdum við brúna. Þegar hann kom aftur í sæti sitt var á borðinu hjá honum miði með vísu: Sérhagsmunasjónarmið sýnast ekki eiga við, en Borgarfjarðarbrúna byggja skal ég núna. Halldór mun hafa haft gaman af þessu enda felst í allri gagnrýni á kjördæmapot einstakra þingmanna viðurkenning á því að þeir hinir sömu séu uppteknir af því að hugsa um hag sinna kjósenda. Auk þess hefur sagan sýnt að tæpast var þarna um augljósa sérhagsmuni að ræða. Um talsvert langt skeið hafa menn þó gagnrýnt stjórnmál kjördæmapots og talað fyrir því að almenn sjónarmið hljóti að ráða för umfram sértækar lausnir sé þess nokkur kostur. Almenningur hefur verið vakandi yfir þessu og háværar og sanngjarnar kröfur komið fram um að jafna vægi atkvæða og jafnvel gera landið allt að einu kjördæmi. En þrátt fyrir að nú sé almennt viðurkennt að stjórnmálamenn eigi að hugsa um hag allra kjósenda þá er sú synd að hugsa sérstaklega til sérhagsmuna kjósenda í tilteknu kjördæmi talsvert annars eðlis en ef verið er að gæta sérhagsmuna af einhverjum öðrum toga, t.d. hagsmuna tiltekinna gæðinga eða vildarvina stjórnmálamanna eða flokka. Slík hagsmunatengsl við fyrirtæki og einstaklinga eru vissulega vel þekktur hluti af íslenskri stjórnmálasögu og hafa verið gagnrýnd, ekki síður en kjördæmapotið. Það er aftur á móti grundvallarmunnur á þessu tvennu, hvort verið er að tala um sérhagsmuni almennings á tilteknu landsvæði eða sérhagsmuni einstaklinga eða einstakra fyrirtækja. Stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum fyrirgefast sérhagsmunasjónarmið kjördæmapotsins og það rýrir ekki traust manna á þeim að marki. Það magnar hins vegar upp kröfur um kerfisbreytingar. Sérhagsmunasjónarmið hagsmunatengsla fyrirgefast síður og þau rýra tiltrú manna og traust á viðkomandi flokkum og mönnum og stjórnmálunum í heild. Það er alvarlegt mál fyrir stjórnmálin að missa traustið með þessum hætti. Vissulega er þetta áhyggjuefni fyrir alla flokka, en stjórnarflokkarnir hljóta að hafa sérstakar áhyggjur um þessar mundir. Hin beitta og gagnrýni og vantraust á Símasöluna kemur nefnilega ekki frá stjórnarandstöðunni og meintum "dylgjum" hennar. Sá tónn hverfur inn í pólitískan samhljóm staglsins og nær einskis manns eyrum. Gagnrýnin kemur í viðbrögðum almennings við viðhorfsgrein Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu. Pétur Blöndal, sá þingmaður sem hugsanlega hefur hvað mesta tiltrú hjá almenningi, sagði í útvarpi um þetta mál að hann hefði í síðustu viku varpað fram svipaðri hugmynd og Agnes. Hann fékk engin viðbrögð! Það segir það sem segja þarf um tiltrú fólks á stjórnmálunum. Alveg óháð því hvort eitthvað er í raun og veru athugavert við undirbúninginn á sölu Símans, hvort einhver sérhagsmunasjónarmið hafi þar ráðið för, þá er ljóst að mjög stór hluti þjóðarinnar trúir að svo kunni að vera. Í því felst einmitt hin stóra áminning! Stjórnarflokkarnir þurfa að horfast í augu við að þeirra eigin framganga og meðferð valds veldur því að í huga svo margra sýnast sérhagsmunasjónarmið - og ekki bara meinlítið kjördæmapot - einmitt eiga við, hvort sem þau gera það í þessu tilviki eða ekki. Vandinn liggur ekki í dylgjum stjórnarandstöðu þótt þær kunni að vera ósmekklegar. Í þessum efnum glymur klukkan stjórnarflokkunum sjálfum.





×